Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Ný dönsk í 20 ár

Það hefði verið gaman að vera tónleikum Ný danskrar á NASA í gærkvöldi en ég sá mér því miður ekki fært að sækja þá. Hins vegar lét ég það eftir mér í gær að kaupa safndiska með bestu lögum hljómsveitarinnar síðustu 20 árin. Ég sé svo sannarlega ekki eftir þessum kaupum, var hreinlega búinn að gleyma hvað Ný dönsk hefur átt marga "hittara" í gegnum tíðina. Ég mæli því eindregið með þessum kaupum og eitt er víst; Þessir diskar munu ekki fara úr bílnum og munu hljóma þar á löngum ferðalögum á næstunni, meðal annars í hinu víðfeðma Norðausturkjördæmi.

Ég heyrði svo af því að Björn Jörundur (sem er líka ættaður frá Sigló :>) hefur samið ein 13 ný lög. Vonandi mun Ný dönsk gefa meira út á næstunni, aðdáandahópurinn er stór og ég er viss um að nýtt efni frá þeim félögum myndi seljast eins og heitar lummur ef til þess kæmi.Trúlega myndu þeir þá í framhaldinu boða til annarra tónleika, ég mun ekki láta mig vanta á þá. Svo mikið er víst.


Sko frænda!

Ég kem frá skíðabænum Siglufirði en verð þó seint talinn til afreksmanna á því sviði. Ég ætla ekki að voga mér að tjá mig meira um hæfileika mína þegar kemur að skíðum. En hvað um það, í gegnum tíðina hafa margir afreksmenn í þeirri íþrótt komið frá Siglufirði og því var ánægjulegt að lesa um glæsilegan árangur Sævars frænda míns. Þó svo að Sævar Birgisson, Gunnarssonar, Guðmundssonar hafi alið aldurinn á Króknum þá er hann svo lánsamur að geta einnig rakið ættir sínar til Siglufjarðar. Ég þekki vel til móður- og föðurfjölskyldna Sævars og tel mig geta vottað að hann er kominn af öndvegisfólki, Siglfirðingum og Skagfirðingum. Alveg sérlega gott fólk.

Sævar hefur á undanförnum árum verið í fremstu röð í sinni íþróttagrein. Ég sá viðtal við hann um daginn, eftir einn sigurinn, þar sem að keppnisskapið kom vel í ljós. Það kom aldrei neitt annað til greina en sigur sagði hann aðspurður. Ég þekki ágætlega til þessara eiginleika innan minnar fjölskyldu. Þar hefur keppnisskapið jafnvel gengið út fyrir skynsamleg mörk, þá er ég að tala um sjálfan mig og bridgeíþróttina. Ég á mjög erfitt með að lúta í lægra haldi á þeim vettvangi. Ég óska Sævari innilega til hamingju með þetta og er viss um að hann er hvergi hættur að ganga á skíðum.


mbl.is Sævar vann gönguna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ríkisstjórnin ber ábyrgð á stöðu mála

Það er gott framtak hjá félögum mínum, þeim Bjarna og Magnúsi, að kalla eftir fundi í nefndum Alþingis. Verðbólgan er nú 12,8% og staðan grafalvarleg. En var við öðru að búast þegar að útgjaldarammi fjárlaga hækkar um 20% á milli ára? Við framsóknarmenn, einir flokka, stóðum allt síðasta haust hrópandi í þingsölum og hvöttum ríkisstjórnarflokkanna til að sýna ábyrgð í ríkisfjármálum. En nú stöndum við frammi fyrir orðnum hlut og vissulega er það svo að ríkisstjórnin ber hluta af þeirri ábyrgð hvernig að nú er komið fyrir hlutunum. Gríðarleg útgjaldaaukning voru skýr skilaboð um þá efnahagsstefnu sem að ríkisstjórnin fylgir.

Ég kallaði eftir því hér á þessum vettvangi um daginn að ríkisstjórnin ætti að beita sér fyrir því að kalla helstu hagsmunaaðila saman hið fyrsta. Ný þjóðarsátt verði mynduð um hvernig að við, sem þjóð, eigum í sameiningu að vinna okkur út úr því ástandi sem nú blasir við. Það þarf breiða samstöðu á tímum sem þessum um aðgerðir til að bæta stöðu efnahagsmála. Fordæmin eru vissulega fyrir hendi, þjóðarsátt ríkisstjórnar undir forystu Framsóknarflokksins á sínum tíma. En ég hef enga trú á því að þessi ríkisstjórn ætli sér slíka hluti.

Að minnsta kosti hefur samráðið á fyrstu mánuðum ríkisstjórnarinnar ekki verið neitt í mörgum veigamiklum málum. Hver man ekki eftir stórkostlegustu mótvægisaðgerðum Íslandssögunnar? Var eitthvert samráð viðhaft þá? Bíddu, er ekki verið að endurskoða þessar máttlausu mótvægisaðgerðir þessa dagana? Hvernig ætli sú vinna gangi?


mbl.is Framsókn kallar eftir aðgerðum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvað segja ráðherrarnir?

Ég hef heyrt af fundarherferð Samfylkingarinnar þar sem að forystumenn flokksins hafa sérstaklega gumað af því hversu stórkostleg afrek hafa verið unnin í málefnum eldri borgara og öryrkja í tíð núverandi ríkisstjórnar. Ég hef reyndar einnig heyrt að ríkisstjórnin hafi verið húðskömmuð á þessum fundum vegna þessara málaflokka. Þannig að sitt sýnist hverjum.

Nú er ríkisstjórnin sökuð af ASÍ, ÖBÍ og Landssambandi eldri borgara að hafa ekki staðið við samkomulag um hækkun bóta sem gert var í tengslum við nýgerða kjarasamninga. Nú er bara að bíða og sjá hvort að fjölmiðlar slái ekki á þráðinn til Jóhönnu Sigurðardóttur eða til Árna Mathiesen? Ef ekki fæst svar frá þeim þá er ég viss um að Björgvin G. Sigurðsson sé tilbúinn að tjá sig um þetta mál. Það er ekkert þeim ágæta manni óviðkomandi þegar kemur að yfirlýsingum í fjölmiðlum. Hvernig var það aftur með stimpilgjöldin, átti ekki að vera búið að afnema þau fyrir löngu samkvæmt yfirlýsingum ráðherrans?


mbl.is Segja ekki staðið við samkomulag um hækkun bóta
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gott starf talsmanns neytenda

Gott framtak hjá Gísla Tryggvasyni að koma með þessa ábendingu. Það er óheyrilegt magn sem streymir inn um bréfalúguna á mínu heimili, alveg ótrúlega mikið. Sökum starfs míns þá er ég mikið á ferðalögum og ef þau dragast á langinn þá er ekkert grín að opna útidyrnar þegar heim er komið. Þvílíkt magn af ruslpósti og náttúrulega dagblöðum sem mætir manni þá. Nú er mér tjáð að ekki þýði að setja miða á bréfalúguna þar sem að ruslpóstur er afþakkaður. Hann fer samt inn um bréfalúguna! Það verður náttúrulega að gera eitthvað í þessu.

En talandi um talsmann neytenda þá finnst mér Gísli Tryggvason vera að vinna mjög gott starf í þessu embætti. Hann er áberandi í umræðunni þar sem hann heldur uppi vörnum fyrir okkur neytendur. Það veitir svo sannarlega ekki af því á þessum síðustu og verstu tímum. Framundan er flóðbylgja af verðhækkunum í samfélaginu. Ég er viss um að talsmaður neytenda mun standa vörðinn þá.


mbl.is Húseigendur beri ekki kostnað vegna ruslpósts
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fagnaðarefni fyrir stúdenta

Ég bloggaði um daginn um húsnæðiseklu stúdenta og þann vandræðagang sem hefur fylgt tíðum meirihlutaskiptum í Reykjavík að undanförnu. Formaður Stúdentaráðs HÍ, Björg Magnúsdóttir, fór ágætlega yfir þetta í þætti hjá mér á ÍNN um daginn. Það er því fagnaðarefni að nú sé búið að skrifa undir samning þess efnir að 600 stúdentaíbúðir verði útvegaðar á næstu 4 árum. Það veitir svo sannarlega ekki af því. Gott að nýr borgarstjórnarmeirihluti skuli ekki hafa snúið við þeirri stefnu sem að fyrri meirihlutar voru búnir að ákvarða.

En talandi um borgarmálin. Ég var í upptöku áðan á ÍNN. Gestur þáttarins var Óskar Bergsson, borgarfulltrúi Framsóknarflokksins.  Við fórum vítt og breitt yfir sviðið, rætt var um málefni Landspítalans, Sundabraut, flugvöllinn, hræringarnar í borginni svo fátt eitt sé nefnt. En það verður hægt að horfa á þáttinn á sjónvarpsstöð Ingva Hrafns, ÍNN, á næstu dögum.   


mbl.is 600 íbúðir fyrir stúdenta á næstu 4 árum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gríðarlega mikilvægt mál fyrir íþróttafélög á landsbyggðinni

Við þingmenn Framsóknarflokksins, með Hjálmar Árnason í broddi fylkingar, lögðum ítrekað fram þingsályktunartillögur um stofnun Ferðasjóðs íþróttafélaga. Þetta mál náði að lokum fram að ganga og nú var verið að fela Íþrótta- og ólympíusambandi Íslands að hafa umsýslu með sjóðnum.

Íþróttafélög á landsbyggðinni hafa á síðustu árum þurft að greiða gríðarlegar upphæðir vegna ferðakostnaðar, upphæðir sem hafa verulega haft áhrif á starfsemi félaganna. Það er stefna okkar framsóknarmanna að veita öllum jöfn tækifæri. Hár ferðakostnaður hefur bitnað hart á rekstri íþróttafélaga á landsbyggðinni og því hefur afreksfólk þar ekki haft jöfn tækifæri á við afreksfólk á Suðvesturhorni landsins. Hár ferðakostnaður hefur haft þau áhrif að minna hefur verið til skiptanna til annarrar starfsemi íþróttafélaga á landsbyggðinni. Nú er loksins verið að bregðast við þessum kostnaði íþróttafélaganna en um er að ræða ákvörðun fyrri ríkisstjórnar sem að við framsóknarmenn áttum aðild að. Því miður er ekki um háar upphæðir að ræða í þessum samningi, sem þarf að lagfæra. Vonandi komumst við framsóknarmenn aftur til áhrifa til að koma þessum málum í viðunandi horft. En eins og einhversstaðar stendur; Mjór er mikils vísir.


mbl.is Samningur undirritaður um ferðasjóð íþróttafélaga
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ríkisstjórnin ætlar ekki að gera neitt

Það verður að segjast eins og er að það er verulegt áhyggjuefni hversu ótrúlega daufgerð þessi ríkisstjórn er. Geir ætlar ekkert að aðhafast og í raun virðist forsætisráðherrann vera í mikilli afneitun á stöðu mála í dag. Framundan eru, að öllu óbreyttu, miklar hækkanir á nauðsynjavöru sem mun hafa verulega mikil áhrif á verðbólgumælingar. Hækkandi verðbólga, sem mælist nú 8-9% síðustu 12 mánuði, mun svo leiða til hærri afborgana af húsnæðislánum en margir húsnæðiskaupendur glíma nú þegar við erfiðleika vegna hárra vaxta og verðbólgu. Hvað þá ef framhaldið verður með þeim hætti sem ég hef að framan rakið.

Það er líka ljóst að það á eftir að ganga frá mörgum kjarasamningum, fyrir utan að forsendur nýgerðra kjarasamninga eru vægast sagt veikar. Ég er ekki bjartsýnn á að þær viðræður verði auðveldar í ljósi þeirrar þróunar sem við horfum nú upp á. Að þessu sögðu er því gjörsamlega óábyrgt af hálfu ríkisstjórnarinnar að kjósa sér það hlutverk nú að sitja hjá og gera ekki neitt. Ég hef reyndar ekki trú á því að ríkisstjórnin komist upp með það til lengdar, það þarf að lemja hana áfram til verksins. Ég nefndi það á blogginu mínu í gær að nú þyrfti að mynda nýja þjóðarsátt líkt og Steingrímur Hermannsson hlutaðist til um á sínum tíma. Vandamálið er augljóst; Geir er ekki Steingrímur.


mbl.is Engar aðgerðir fyrirhugaðar vegna gengisfalls krónu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nýja þjóðarsátt takk fyrir!

Stjórnvöld geta ekki lengur horft fram hjá þróun mála þegar kemur að verðlagshækkunum í samfélaginu. Verðbólgan er á fullu skriði og stefnir forsendum nýgerðra kjarasamninga í hættu. Nú þarf ríkisstjórnin að kalla saman aðila vinnumarkaðarins, sveitarfélög og aðra sem málið varða og fara yfir hvað rétt sé að gera í stöðunni. Á tímum sem þessum þarf breiða samstöðu til að takast á við aðsteðjandi erfiðleika. Það var gert með þjóðarsáttinni á sínum tíma og mér sýnist fullt tilefni til að gera nýja þjóðarsátt á erfiðum tímum.

Eins og flestir muna var þjóðarsáttin gerð í tíð Steingríms Hermannssonar forsætisráðherra. Hann lék stórt hlutverk í því, ásamt fleiri góðum mönnum, að sætta ólík sjónarmið. Niðurstaðan var farsæl fyrir okkur þá. Spurning hvort að innan núverandi ríkisstjórnar sé einstaklingur með jafn mikla hæfileika í málamiðlunum og Steingrímur hafði á sínum tíma?


mbl.is Eldsneytisverð hækkar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvað er að gerast í heilbrigðismálunum?

Mikið umrót á sér nú stað innan heilbrigðisgeirans. Stjórnendur stærsta vinnustaðar landsins Landspítalans voru látnir fara fyrir helgi en enginn veit ástæður þess. Allt mjög dularfullt. Ekki veit ég hvort að tímasetningin sé tilviljun, að uppsagnirnar skuli koma til framkvæmda svona rétt eftir að Alþingi er komið í páskafrí? Reyndar var krafist umræðu um heilbrigðismál og um þá stefnubreytingu sem hefur átt sér stað eftir að Framsóknarflokkurinn fór úr ríkisstjórn. Alltént, þá verða þessar ákvarðanir Guðlaugs Þórs teknar heldur betur til umræðu þegar að þing kemur saman nú um mánaðarmótin.

Einnig heyrist að um 100 hjúkrunarfræðingar hafi sagt upp vegna óánægju með vaktafyrirkomulag á spítalanum. Gríðarlegt álag er á starfsfólki spítalans og nú er galdralausnin fundin; Einkavæðing heilbrigðiskerfisins. Með þeirri stefnubreytingu Sjálfstæðisflokksins á þjónustan að batna, laun starfsfólksins að hækka, minni kostnaður fyrir hið opinbera sem og náttúrulega gróði fyrir þann aðila sem tekur þjónustuna að sér. Allt hljómar þetta vel, en er víst að þetta gangi allt saman upp? 

Landspítalinn er fjöregg þjóðarinnar sem tekur á móti öllum, allt frá vöggu til grafar. Framsóknarflokkurinn hélt utan um heilbrigðismálin í 12 ár og stefna flokksins hefur verið og er sú að standa vörð um öflugan Landspítala. Ekki voru allar ferðir til fjár þegar að fjármálaráðherrann var beðinn um að auka fjárframlög til spítalans. Enda var það ekki fjármálaráðherrann sem þurfti að sitja undir gagnrýni um fjárskort heldur heilbrigðisráðherrann. Nú eru nýir tímar upp runnir, önnur stefna er uppi á borðinu og nú er hægt að gera hluti með Samfylkingunni sem að annars ekki hefði verið hægt að gera með Framsóknarflokknum. Þannig hafa sjálfstæðismenn orðað það eftir stjórnarskiptin. Og nú er komið að því,  mér sýnist að ameríska leiðin sé ofan á.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband