Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
10.4.2008 | 11:39
Hvalurinn, þorskurinn og loðnan
Hrefnan étur á ári hverju milljón tonn af fiski hér við land. Til viðbótar éta aðrar hvalategundir milljón tonn af fiski. Sjómenn sem ég hef rætt við hafa aldrei séð eins mikið af hval og nú. Síðan furðar fólk sig á því að þorskveiðiheimildirnar séu 130.000 tonn og að síðasta loðnuvertíð hafi verið með þeim slökustu á síðari árum.
Ég spurði Þórunni Sveinbjarnardóttur út í hvalveiðar og sjálfbæra þróun á Alþingi í morgun. Ég spurði hana jafnframt hvort að við ættum ekki að skila þorsk- og loðnustofninum áfram til komandi kynslóða? Ekki var annað á henni að heyra en að hún væri á móti hvalveiðum. Hún er gengur þannig í takt með Svíunum. Það segir sig sjálft, þegar toppurinn á fæðukeðjunni er ekkert veiddur að ójafnvægi kemst á í fæðukeðjunni. Að mínu mati er það í takt við sjálfbæra þróun að grisja hvalastofna og tryggja þannig betri nýtingu á öðrum fiskistofnum í framtíðinni. Skilgreining á sjálfbærri þróun er þessi: "Sjálfbær þróun er þróun sem fullnægir þörfum samtíðarinnar án þess að skerða möguleika komandi kynslóða til að fullnægja sínum þörfum".
Það er því einsýnt að við þurfum að halda úti skynsamlegum veiðum á hval eins og öðrum fiskistofnum. Það er í takt við sjálfbæra þróun. Ef fram heldur sem horfir þá mun hval fjölga verulega með tilheyrandi afleiðingum fyrir aðra fiskistofna. Er ekki tími til kominn, miðað við stöðu þorsksins og loðnunnar, að veiða hval í meira mæli en við höfum gert? Ég segi jú.
Svíar gagnrýna hvalveiðar | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 16:55 | Slóð | Facebook
9.4.2008 | 21:27
Samúel Örn á Alþingi
Samúel Örn Erlingsson hefur lífgað upp á þingið í þessari viku. Í fjarveru Sivjar Friðleifsdóttur þá er kappinn mættur til leiks. Samúel flutti jómfrúarræðu sína í dag og ekki var annað að sjá en að þar færi þaulreyndur stjórnmálamaður. Enda hefur Samúel mjög margt til brunns að bera og hefur fjölbreyttan bakgrunn.
Samúel er Kópavogsbúi og hefur unnið ötullega að málefnum Kópavogsbæjar. Hann er meðal annars formaður leikskólaráðs þar í bæ. Þekktastur er hann þó af vettvangi fjölmiðlanna þar sem hann hefur staðið íþróttavaktina um árabil. Það verður eftirtektarvert að fylgjast með framgöngu Kópavogsbúans á næstunni. Framsóknarmenn úr Kópavogi hafa lengi látið mikið til sín taka og nú er bara að sjá hvort Samúel Örn haldi ekki því merki hátt á lofti þann tíma sem hann mun sitja á Alþingi? Í mínum huga er það engin spurning.
9.4.2008 | 11:55
80% vilja að stjórnvöld lækki álögur á eldsneyti
Jæja þá er niðurstaðan ljós. 80% af þeim sem tóku afstöðu í óformlegri skoðanakönnun á bloggsíðunni vilja að stjórnvöld lækki álögur á eldsneyti. 15% voru á móti því og afgangurinn var óákveðinn. Ég held að þetta gefi nokkuð raunsanna mynd af því hvernig almenningur lítur á þessi mál. Ég hef hér áður rifjað það upp að Framsóknarflokkurinn stóð að því árið 2002 að lækka álögur á eldsneyti þegar þess þótti þörf. Ríkisstjórninni finnst greinilega engin þörf á því í dag að fara í slíkar aðgerðir, enda er hér allt í himnalagi. Ekki satt?
Mikil umræða hefur átt sér stað um afnám stimpilgjalda á síðustu mánuðum. Ráðherrar hafa verið mjög yfirlýsingaglaðir um aðgerðir í þeim efnum, stundum einum of að mínu mati. Því er spurning vikunnar þessi: Hvaða ráðherra fer með stimpilgjöldin? Og svarið þið nú.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:58 | Slóð | Facebook
7.4.2008 | 17:08
Að lenda á milli skips og bryggju
Bylgja Hafþórsdóttir hefur á bloggsíðu sinni rekið raunir sinnar fjölskyldu sem lenti í því að myglusveppur hreinlega eyðilagði íbúðarhúsnæði fjölskyldunnar. Ekkert hefur fengist frá tryggingum til að bæta skaðann né heldur frá hinu opinbera. Það virðist því sem að fjölskyldan þurfi að sitja uppi með gríðarlegan kostnað vegna þessa. Í raun er hér um hamfarir að ræða, líkt og þegar jarðskjálftar eyðileggja húsnæði. Í þeim tilvikum er hægt að leita til sjóða hjá hinu opinbera sem að bæta slík tjón. Í þessu tilviki bendir allt til þess að þetta tjón verði ekki bætt og því hefur fjölskyldan lent á milli skips og bryggju, ekkert apparat kemur að því að bæta tjón sem þetta.
Það er því mikilvægt og lofsvert að Bylgja skuli vekja athygli á þessu máli. Því hver verður næstur? Ég veit að margir aðilar hafa stutt fjölskylduna á þessum erfiðu tímum og vil ég hvetja fólk til þess að gera það sama. Upplýsingar um söfnunina má nálgast á bloggsíðu Bylgju, þar sem einnig er drepið á önnur mikilvæg mál, s.s. byggðamálin og hvert við stefnum í þeim efnum. Ég óska Bylgju og fjölskyldu hennar góðs gengis í framtíðinni.
2.4.2008 | 14:47
Umræða á Alþingi um hátt eldsneytisverð
Stjórnarliðar leggja ekki til að álögur á eldsneyti verði lækkaðar en hafa ákveðið að bjóða forsvarsmönnum mótmælanna í kaffiboð til að ræða málin. Verið er að skoða þessi mál í nefndum og fólk verður að sýna biðlund. Þetta voru skilaboð ríkisstjórnarflokkanna í umræðu sem við framsóknarmenn hófum í þinginu eftir hádegið. Höskuldur, Valgerður og ég tókum meðal annarra þátt í umræðunni.
Á meðan verðbólgan hækkar þá hækka skuldir heimilanna og kjör almennings versna. Ríkisstjórnin ætlar ekki, að sinni, að lækka álögur á eldsneyti til að koma til móts við þann alvarlega vanda sem nú blasir við. Ég vil minna á að árið 2002 þá stóðum við framsóknarmenn að því í ríkisstjórn að lækka tímabundið álögur á eldsneyti vegna ástands sem ríkti á mörkuðunum þá. Það hafði góð áhrif þá, en hvað dvelur ríkisstjórnina nú? Í umræðunni var meðal annars bent á að í gegnum virðisaukaskattinn þá fær ríkissjóður aukalega 1,6 milljarð vegna hækkandi eldsneytisverðs. Væri ekki hægt að nýta þá fjármuni til að lækka olíugjaldið?
Því miður er þessi ríkisstjórn greinilega svo handónýt að það á ekki að gera neitt. Alþjóðleg greiningarfyrirtæki gagnrýna aðgerðaleysi ríkisstjórnarinnar sem og hvað heyrist lítið frá henni á þessum síðustu og verstu tímum. Á meðan eru ríkisstjórnir annarra landa mjög sýnilegar í því að bregðast við aðstæðum á markaði. Ingibjörg og Geir hafa kannski ekki tíma til þess að sinna þessum málum í augnablikinu? Þau eru á leið til útlanda í einkaþotu í opinberum erindagjörðum. Vandamálin hér heima mega bíða betri tíma. Eða eins og Geir sagði í Kastljósinu í gærkvöldi; Kannski er betra að gera ekki neitt frekar en að gera mistök.
Hér til vinstri á síðunni er ég með könnun um hvaða stefnu stjórnvöld eigi að taka í álögum á eldsneyti. Ætla að vera með vikulegar spurningar um hitt og þetta, svona meira til gamans.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 14:51 | Slóð | Facebook
2.4.2008 | 13:19
Ég mæli með MBA námi
Ég sé á bloggi Ásgeirs Eiríkssonar, vinar míns og skólabróður, að hann er að benda á að nú sé hægt að sækja um inngöngu í MBA nám við Háskóla Íslands. Það var nokkuð stór ákvörðun sem ég tók á síðasta ári að hefja MBA nám við Háskóla Íslands. Um er að ræða frábært nám sem ég get svo sannarlega mælt með. Námið er nátengt atvinnulífinu og mörg verkefni sem við vinnum að eru raunverkefni þar sem fengist er við að skoða einhverja tiltekna hluti, t.d. í rekstri fyrirtækja, sem má bæta. Námið er byggt upp á mikilli hópavinnu, þar sem unnið er að lausn (mjög margra) verkefna. Í þeirri vinnu er óhjákvæmilegt annað en að fólk tengist böndum en um leið læri mikið hvort af öðru.
Nú fer að styttast í að námið sé hálfnað. Ég þekkti t.d. Ásgeir ekkert áður en ég hóf MBA námið en hef eignast marga góða vini á þeim vettvangi, þar á meðal hann. Þannig að þeir sem eru að hugsa sig um að skella sér í nám meðfram vinnu þá mæli ég eindregið með MBA námi við Háskóla Íslands. Ég er einnig viss um að MBA námið við HR sé líka gott. Það er mikilvægt fyrir samfélagið að það skuli vera svo mikið framboð af námi á meistarastigi sem er metnaðarfullt en um leið gerðar miklar kröfur til nemenda. Ég mæli því með MBA námi.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 13:22 | Slóð | Facebook
1.4.2008 | 16:27
Sundagöng, brýn samgöngubót
Mjög góð umræða fór fram um Sundabraut á Alþingi nú áðan. Þar var varpað ljósi á þann vandræðagang í ákvarðanatöku sem hefur viðgengist á síðustu 24 árum, eða frá því að framkvæmdin var sett inn á aðalskipulag Reykjavíkurborgar. Ég spurði samgönguráðherra hvort að hann styddi það sem borgarstjórn Reykjavíkur hefur lagt til, að farin yrði ytri leiðin með jarðgöngum. Ráðherrann vildi ekki gefa upp afstöðu sína til þessarar tillögu sökum þess að hann gæti orðið vanhæfur að úrskurða ef til þess kæmi að einhver kæra yrði lögð fram í ferlinu. Það er vissulega undarlegt að samgönguráðherra skuli ekki geta tjáð sig um svo mikilvægt mál sem Sundabraut er og hlýtur að kalla á einhverjar breytingar á lögum.
Mér heyrist að það sé þver pólitískur samhljómur um að fara eigi þá leið sem að borgarstjórn Reykjavíkur hefur lagt til. Vissulega er það svo að þar er um dýrari framkvæmd að ræða en ég stend fast á þeirri skoðun minni að þessi leið sé hagkvæmari til lengri tíma litið út frá legu brautarinnar, umferðaröryggis, styttingu vegalengda, eldsneytissparnaðar og fleira mætti nefna.
Við framsóknarmenn stuðluðum að því í tíð síðustu ríkisstjórnar að 8 milljarðar voru settir til Sundabrautar af söluandvirði Símans. Miðað við svör ráðherrans í dag ætti að vera hægt að bjóða framkvæmdina út á næsta ári. Þingmenn hvöttu ráðherra til að stuðla að því að kraftur yrði settur í vinnu við umhverfismat framkvæmdarinnar, það verður að vinna hratt og örugglega til að flýta framkvæmdum við Sundabraut.
Ólíklegt að Sundabraut fari í útboð í ár | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
1.4.2008 | 12:42
Málefni Sundabrautar á dagskrá þingsins í dag
1.4.2008 | 12:33
Evrópunefndin fundaði í morgun
Ég var skipaður í Evrópunefnd, fyrir hönd þingflokks framsóknarmanna, sem standa á vaktina í Evrópumálum út kjörtímabilið. Nefndin kom saman í Ráðherrabústaðnum í morgun þar sem forsætis- og utanríkisráðherra fóru yfir skipunarbréf nefndarinnar og reifuðu sín sjónarmið og væntingar um störf nefndarinnar.
Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar var kveðið á um að þverpólitísk nefnd yrði skipuð til að standa vaktina í Evrópumálum. Nú hefur verið ákveðið að útvíkka skipan nefndarinnar og eru nú fulltrúar vinnumarkaðarins einnig með sína fulltrúa í nefndinni. Nefndin er tvíhöfða; Ágúst Ólafur Ágústsson og Illugi Gunnarsson eru formenn nefndarinnar. Ég bind miklar vonir við að Evrópunefndin stuðli að málefnalegri umræðu um tengsl okkar við Evrópu og hvernig við tryggjum okkar hagsmuni til framtíðar í því samhengi.
Ef marka má fyrsta fund nefndarinnar þá má búast við að heilmikil vinna sé framundan að viða að sér gögnum sem snerta Ísland og Evrópu. Ég hlakka til að takast á við þetta verkefni.
31.3.2008 | 11:26
Er virkilega verið að svíkja eldri borgara og öryrkja?
Ég bloggaði fyrir helgi um meint svik ríkisstjórnarinnar við eldri borgara og öryrkja í tengslum við aðkomu ríkisins að kjarasamningum. Deilan snýst um hversu mikið almannatryggingar áttu að hækka í tengslum við gerð síðustu kjarasamninga. Ég ákvað í framhaldinu að bíða eftir viðbrögðum ráðherra við yfirlýsingum samtaka aldraðra, öryrkja og Alþýðusambandsins. Þegar Jóhanna Sigurðardóttir var innt eftir svörum um helgina kom harla lítið fram hjá henni og í raun er það enn óupplýst hvort ríkisstjórnin hafi ekki uppfyllt það sem hún lofaði fyrir örfáum vikum síðan.
Á fundi félags- og tryggingamálanefndar í morgun óskaði ég eftir því að fulltrúar ÖBÍ, Landssambands eldri borgara og ASÍ yrðu kallaðir fyrir nefndina til komast til botns í þessu máli. Það verður því væntanlega haldinn fundur fljótlega þar sem að þetta mál verður skýrt nánar fyrir félags- og tryggingamálanefnd Alþingis.
Ég hef fundið fyrir mikilli gremju og reiði hjá almenningi vegna þessa máls. Það er eðlilegt því eins og allir muna þá lofuðu allir flokkar úrbótum í þessum málaflokki en af viðbrögðum að dæma þá hafa margir orðið fyrir miklum vonbrigðum með Jóhönnu Sigurðardóttur í þessum málaflokki. Miðað við verðbólguhorfur þá eru allar líkur til þess að kjör aldraðra og öryrkja muni að raungildi skerðast umtalsvert á þessu ári. Þessir hópar hafa ekki breiðustu bökin þegar kemur að afborgunum af húsnæðislánum og almennri dýrtíð í samfélaginu. Ég bendi á að Björgvin Guðmundsson, bloggari og samfylkingarmaður, hefur ítrekað vakið athygli á aðgerðarleysi ríkisstjórnarinnar í þessum málum og á hann hrós skilið fyrir það.