Sundagöng, brýn samgöngubót

Mjög góð umræða fór fram um Sundabraut á Alþingi nú áðan. Þar var varpað ljósi á þann vandræðagang í ákvarðanatöku sem hefur viðgengist á síðustu 24 árum, eða frá því að framkvæmdin var sett inn á aðalskipulag Reykjavíkurborgar. Ég spurði samgönguráðherra hvort að hann styddi það sem borgarstjórn Reykjavíkur hefur lagt til, að farin yrði ytri leiðin með jarðgöngum. Ráðherrann vildi ekki gefa upp afstöðu sína til þessarar tillögu sökum þess að hann gæti orðið vanhæfur að úrskurða ef til þess kæmi að einhver kæra yrði lögð fram í ferlinu. Það er vissulega undarlegt að samgönguráðherra skuli ekki geta tjáð sig um svo mikilvægt mál sem Sundabraut er og hlýtur að kalla á einhverjar breytingar á lögum.

Mér heyrist að það sé þver pólitískur samhljómur um að fara eigi þá leið sem að borgarstjórn Reykjavíkur hefur lagt til. Vissulega er það svo að þar er um dýrari framkvæmd að ræða en ég stend fast á þeirri skoðun minni að þessi leið sé hagkvæmari til lengri tíma litið út frá legu brautarinnar, umferðaröryggis, styttingu vegalengda, eldsneytissparnaðar og fleira mætti nefna.

Við framsóknarmenn stuðluðum að því í tíð síðustu ríkisstjórnar að 8 milljarðar voru settir til Sundabrautar af söluandvirði Símans. Miðað við svör ráðherrans í dag ætti að vera hægt að bjóða framkvæmdina út á næsta ári. Þingmenn hvöttu ráðherra til að stuðla að því að kraftur yrði settur í vinnu við umhverfismat framkvæmdarinnar, það verður að vinna hratt og örugglega til að flýta framkvæmdum við Sundabraut. 


mbl.is Ólíklegt að Sundabraut fari í útboð í ár
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband