Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Á ekki að koma neinum á óvart

Síðastliðið haust var ríkisstjórnin margvöruð við þessari þróun og hún hvött til að sýna aðhald í ríkisfjármálum. OECD, aðilar vinnumarkaðarins, Seðlabankinn, greiningardeildir bankanna sendu frá sér skýr skilaboð um að aðhalds væri þörf. Framsóknarflokkurinn talaði fyrir aðhaldi í fjárlagagerðinni á meðan að aðrir flokkar settu fram milljarða útgjaldatillögur. Það var örugglega til vinsælda fallið þá, en ekki í dag.

Það segir sig sjálft, þegar ríkisstjórnarflokkarnir hækka útgjaldaramma fjárlaga um tæp 20% á milli ára, að þá er ekki von á góðu. Með fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar var tónninn sleginn og allir þekkja framhaldið. Ríkisstjórnin ber því ábyrgð á þeirri stöðu sem nú er uppi í samfélaginu. Það sorglega er að stjórnin sýnir heldur engin viðbrögð til að bregðast við ástandinu. Einhver kallaði ríkisstjórnina Þyrnirós. Hún svaf víst í heila öld. Ég spái því að Þyrnirós muni einungis sofa í 4 ár að þessu sinni. Þá verður hún vakin upp með kosningum. 


mbl.is Mesta verðbólga í tæp 18 ár
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Grímur stóð sig vel sem bæjarstjóri

Stórundarleg atburðarrás hefur átt sér stað í pólitíkinni í Bolungarvík. Meint umsvif Soffíu Vagnsdóttur í atvinnulífinu urðu til þess að A-listinn gat ekki hugsað sér áframhaldandi samstarf við K-lista. Ef slík hugmyndafræði ætti almennt við þyrftu margir kjörnir fulltrúar að hugsa sinn gang og þá væntanlega að segja sig frá trúnaðarstörfum fyrir sín samfélög. Jafnframt myndu margir meirihlutar springa í loft upp víða um land. Þessi rökstuðningur A-listans heldur því ekki vatni.

Framsóknarmenn í Bolungarvík áttu aðild að K-listanum og stóðu þannig að því að ráða Grím Atlason til starfans. Ég hef fylgst með störfum Gríms úr fjarlægð og get ekki betur séð en að hann hafi staðið sig með mikilli prýði. Hann hefur verið einn af mest sýnilegu sveitarstjórum á landsbyggðinni í fjölmiðlum og haldið máli dreifbýlisins hátt á lofti í umræðunni. Hann kom Bolungarvík á kortið í umræðunni. Það er því sjónarsviptir af Grími úr stóli bæjarstjóra Bolungarvíkur.

En svona eru stjórnmálin. Ég er þó fullviss um að Grímur sé ekki með þessu ótímabæra brotthvarfi að fjarlægjast þann vettvang. Grímur Atlason er kominn til að vera í íslenskum stjórnmálum, það er bara spurningin um hvað hann ber niður næst.


mbl.is Nýr meirihluti í Bolungarvík
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Á ferð um Norðausturkjördæmi

Síðustu tveir dagar hafa verið viðburðarríkir, enda nokkurt ferðalag að baki. Í gærmorgun lá leiðin austur á land þar sem við Stefán Bogi Sveinsson heimsóttum fólk og fyrirtæki í Fjarðabyggð. Um kvöldið héldum við svo opinn stjórnmálafund á Egilsstöðum þar sem farið var yfir landsmálin ásamt því sem Stefán Bogi var kynntur til leiks sem aðstoðarmaður þingmanns. Stefán er að flytja á Egilsstaði þar sem hann verður með aðstöðu. Fundur okkar félaga var vel sóttur, Héraðsbúar mæta alltaf vel á fundi hjá Framsóknarflokknum. Margt bar á góma á fundinum og ég er ekki frá því að við félagarnir hafi fengið nokkrar hugmyndir að fyrirspurnum og þingmálum. Að fundinum loknum datt ég inn á tónleika með KK á Hótel Héraði, frábær tónlistarmaður þar á ferð.

Í morgun lá svo leið mín norður í Reykjadal. Þar var Framhaldsskólinn á Laugum með opið hús þar sem starfsemi skólans var kynnt. Nemendur kynntu meðal annars verkefni sem þeir hafa verið að vinna að og þar bar ótrúlega margt fyrir sjónir. Greinilega mikil og metnaðarfull vinna sem þar liggur að baki. Á Laugum er nú verið að vinna stórmerkilegt starf og sú tilraun sem þar er í gangi mun að mínu mati gera skólann að brautryðjanda í því að bæta skólastarf hér á landi. Það á eitthvað mikið eftir að koma út úr þeim nýjungum sem nemendur og starfsfólk framhaldsskólans á Laugum eru nú að vinna að.

Veðrið í Reykjardalnum í dag var meiriháttar. Það var frekar sumar í lofti en vor. Ekki amalegt að eyða sumardeginum fyrsta á þessum slóðum, þar sem Jónas frá Hriflu vann þrekvirki í því að koma á fót glæsilegri menntastofnun sem hefur svo sannarlega staðist tímans tönn.


Öryrkjar og eldri borgarar hlunnfarnir um 3,6 milljarða!

Ég óskaði á dögunum eftir fundi í félags- og tryggingamálanefnd Alþingis til að fara yfir hvort það væri hugsanlegt að ríkisstjórnin hefði gengið á bak fyrirheitum um að bæta hag aldraða og öryrkja í tengslum við nýgerða kjarasamninga. Fundurinn fór fram í morgun og mættu fulltrúar ASÍ, aldraðra og öryrkja á fundinn. Það var samdóma álit þessara aðila að ríkisstjórnin hefði ekki staðið við það samkomulag sem ríkisstjórn Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks gerði árið 2006.  Fyrrverandi ríkisstjórn gerði þá samkomulag við ASÍ, ÖBÍ og aldraða um viðmið bóta almannatrygginga. Ný ríkisstjórn hefur breytt þessu viðmiði sem veldur því að bætur almannatrygginga eru um 10 þúsund krónum lægri á mánuði heldur en ella hefði orðið. Þannig skerðast árleg fjárframlög til lífeyrisþega um 3,6 milljarða króna með nýrri viðmiðun samkvæmt útreikningum ASÍ.

Viðmið ríkisstjórnar Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks var meðaltal dagvinnutryggingar launafólks, sem eru hin raunverulegu lágmarkslaun í landinu. Fyrir því höfðu samningsaðilar ríkisins barist fyrir um árabil. En ný ríkisstjórnin hefur nú breytt um kúrs og miðar nú við meðaltal lægsta taxta verkafólks, sem í raun gefur ekki raunsanna mynd af tekjum á vinnumarkaði. Þessu hafa ASÍ, aldraðir og öryrkjar harðlega mótmælt ásamt okkur framsóknarmönnum. Allt er þetta gert án umræðu og samráðs við þessa hagsmunaaðila. Þetta er svo sem langt frá því að vera fyrsta málið þar sem að samráði er áfátt hjá ríkisstjórninni.

Því eru nú aldraðir og öryrkjar að dragast aftur úr öðrum þjóðfélagshópum hvað kjör varðar og að óbreyttu þá verða þessir hópar fyrir kjaraskerðingu á þessu ári. Hækkun á almannatryggingum árið 2008 er 7,3% en verðbólguhorfur eru á þann veg að sú kjarabót verður étin upp til agna og vel það.  Það grátlega er að ríkisstjórnin hefur það sem af er kjörtímabili nær ekkert hugsað um þá sem hvað verst standa í röðum aldraðra og öryrkja. Aðrir hópar í þeim röðum hafa forgang. Sú einhliða ákvörðun sem ríkisstjórnin tók, að breyta viðmiðunum við kjarasamninga, er ein versta framkvæmd sem hægt er að hugsa sér gagnvart þeim sem verst standa.

Það er því búið að rífa niður samkomulag sem aldraðir, öryrkjar og ASÍ börðust fyrir í áraraðir og þáverandi ríkisstjórn gekk að árið 2006. Hvað hefur orðið um stóru orðin fyrir síðustu kosningar um málefni aldraðra og öryrkja? Hér hefur ríkisstjórnin tekið 3,6 milljarða af þessum hópum og skreytir sig með því að boða önnur úrræði sem eru fjármögnuð að verulegu leyti af þessum "niðurskurði". Hér er greinilega verið að taka fjármuni úr einum vasa og færa yfir í hinn. Þetta er stefnubreyting sem ríkisstjórnin þarf að svara fyrir og við framsóknarmenn hörmum þessa stefnubreytingu. Þessu máli er hvergi nærri lokið og verður í framhaldinu tekið til  ítarlegrar umræðu á vettvangi Alþingis af frumkvæði Framsóknarflokksins.

Það skal viðurkennt að baráttan við Sjálfstæðiflokkinn um aukin framlög til almannatrygginga á síðustu árum bar ekki alltaf nægjanlega mikinn árangur að mínu mati. En árangur Samfylkingarinnar í þessum málaflokki verður seint talinn til mikilla afreka og gengur hreint út sagt þvert á þau miklu loforð flokksins í aðdraganda síðustu kosninga. Ég spái því að Samfylkingin fái að finna til tevatnsins í umræðunni á næstunni, líkt og Framsókn á síðasta kjörtímabili. Hvers vegna ætli Sjálfstæðisflokkurinn sé stikkfrí í umræðunni? Hann hefur jú farið með fjármálaráðuneytið í 17 ár!


Átti ekki að fella niður stimpilgjöldin?

Í lítilli óformlegri könnun síðustu vikuna hér á blogginu, um hvaða ráðherra færi með blessuð stimpilgjöldin, fór eins og mig grunaði. Fleiri töldu að Björgvin G. Sigurðsson færi með þann málaflokk en sjálfur Árni M. Mathiesen (sem raunar fer með málaflokkinn). Félagi Björgvin hefur nefnilega verið mun duglegri að tjá sig um lækkun stimpilgjalda en samstarfsfélagi hans í ríkisstjórninni, hann Árni. Ég þykist vita að margir forystumenn Sjálfstæðisflokksins séu mátulega ánægðir með yfirlýsingar Björgvins G. Meira að segja þá stóðu sumar fréttastofur í þeirri trú að Björgvin ætlaði að mæla fyrir málinu í þinginu, svo oft hafði hann tjáð sig um málið við fjölmiðla. En þegar öllu var á botninn hvolft var það Árni M. Mathiesen sem mælti fyrir frumvarpinu sem því miður var algjörlega úr takti við digrar yfirlýsingar Björgvins.

Ég hef margoft varað við yfirlýsingagleði samfylkingarmanna í núverandi ríkisstjórn. Búið er að lofa því margoft frá kosningum að það væri handan við hornið að fella niður stimpilgjöldin. Óneytanlega hafa þær yfirlýsingar haft sín áhrif á húsnæðismarkaðinn. Og nú er komið í ljós að ekki verið að fella í heild sinni niður stimpilgjöldin, heldur aðeins að hluta. Þannig hefur ríkisstjórnin búið til falsvonir hjá tilvonandi fasteignakaupendum.

En samkvæmt öllu, þá er það greinilega Sjálfstæðisflokkurinn sem heldur aftur af því að fella stimpilgjöldin niður í heild sinni. En forsvarsmenn Samfylkingarinnar verða að læra af reynslunni og slá af gríðarlegri yfirlýsingagleði sinni. Ummæli þeirra um stimpilgjöldin, að við minnumst ekki á málefni lífeyrisþega eða húsnæðismálin, eru dæmi um þegar miklar væntingar eru gefnar út í samfélagið. Það er ábyrgðarhluti út af fyrir sig að standa ekki við þau stóru orð. En að öllu þessu slepptu er Björgvin G. Sigurðsson fínn náungi.


Mikilvægi Íbúðalánasjóðs eykst enn

Góðar fréttir að Íbúðalánasjóður skuli hafa ákveðið að lækka útlánavexti sína. Ég hef hér á bloggsíðunni gert stöðu og tilvist Íbúðalánasjóðs að umtalsefni, enda hafa verið mörg tilefni til þess. Staðreyndin er nefnilega sú að margir aðilar hafa viljað breyta hlutverki sjóðsins og fela bönkunum eingöngu lánveitingar til húsnæðiskaupa. Íbúðalánasjóður á svo að lána til sérstakra félagslegra hópa og væntanlega að þiggja verulega fjármuni úr ríkissjóði til að standa undir því hlutverki. Ég spyr, yrði sátt um slíkt í samfélaginu til lengri tíma litið? Mitt svar er nei. Íbúðalánasjóður hefur þvert á móti skilað góðri arðsemi á síðustu árum, uppsafnað eigið fé sjóðsins er trúlega yfir 20 milljarðar króna.

Nú sem fyrr býður Íbúðalánasjóður upp á lægstu vexti, af verðtryggðum lánum, sem bjóðast hér á landi. Íbúðalánasjóður veitir góða þjónustu í dag en því miður hafa stjórnvöld sniðið honum þröngan stakk hvað útlán varðar. Við framsóknarmenn viljum standa vörð um öflugan og stöndugan Íbúðalánasjóð. Enda er það svo að það var í tíð Framsóknarflokksins í ríkisstjórn sem Íbúðalánasjóður var stofnaður.

Staðan á húsnæðismarkaðnum í dag væri enn verri en hún þó er, ef Íbúðalánasjóðs nyti ekki við. Í tíð síðustu ríkisstjórnar þá stóðum við framsóknarmenn dyggan vörð um starfsemi sjóðsins. Vonandi mun núverandi ríkisstjórn gera það líka, en ég vil minna á að sjálfstæðismenn hafa ætíð gefið einkavæðingu sjóðsins undir fótinn. Það eru grundvallarmannréttindi hér á landi að allir hafi þak yfir höfuðið. Stjórnvöld bera því þar ríka ábyrgð. Íbúðalánasjóður gegnir ríku hlutverki í því samhengi.

Því spyr ég enn og aftur: Hvenær á að hækka hámarkslán, viðmiðunina við brunabótamat og lánshlutfall Íbúðalánasjóðs?


mbl.is Íbúðalánasjóður lækkar vexti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hjálmar Árnason er enn í pólitík!

Ég átti skemmtilegt og fróðlegt spjall við Hjálmar Árnason á ÍNN sjónvarpsstöðinni í morgun. Hjálmar er einn af framkvæmdastjórum Keilis og er að vinna að uppbyggingu framhalds- og háskólanáms á hinu fyrrverandi varnarsvæði. Hjálmar var eins og allir vita formaður þingflokks framsóknarmanna á síðasta kjörtímabili og áttum við gott og umfram allt skemmtilegt samstarf á þeim fjórum árum.

Hjálmar lét mikið að sér kveða í menntamálum þau 12 ár sem hann var á Alþingi, enda um fyrrverandi skólameistara Fjölbrautaskóla Suðurnesja að ræða. Hann var lengi talsmaður flokksins í menntamálum, skörulegur talsmaður. Þar talaði hann af þekkingu og reynslu. Það er einnig staðreynd sem vart verður hrakin að fyrrum ríkisstjórn lyfti grettistaki í uppbyggingu menntamála og átti Hjálmar svo sannarlega hlutdeild í þeim góða árangri.

Nú er félagi Hjálmar enn að huga að sínu aðal áhugamáli, menntamálum. Keilismenn eru að vinna þrekvirki í því að setja á fót nám m.a. fyrir þá sem hafa lent í brottfalli í framhaldsskólum og hafa ekki lokið stúdentsprófi. Einnig leggur Keilir sérstaka áherslu á uppbyggingu verknáms, en það verður að viðurkennast að ekki höfum við náð nægjanlega góðum árangri í því að hefja verknámið til vegs og virðingar. Bæði þessi mál, þ.e.a.s. verknámið og brottfallið, voru þingmanninum Hjálmari hjartans mál.

Það er gaman og um leið aðdáunarvert að fylgjast með elju Hjálmars Árnasonar í þessum málaflokki. Í stað þess að flytja hugsjónaræður í sölum Alþingis um menntamál, þá lætur hann verkin tala. Að því leyti er Hjálmar Árnason enn í pólitík. En það verður hægt að sjá viðtalið við Hjálmar á ÍNN á næstu dögum.


Máttlaus, aðgerðalaus og daufgerð ríkisstjórn - á ferð og flugi

Alveg er það merkilegt með ríkisstjórnina, nú þegar ein alvarlegasta kreppa síðari ára dynur á landsmönnum, að þá er bara lagst í ferðalög. Ríkisstjórnin hefur meira eða minna verið erlendis að undanförnu og notað til þeirra ferðalaga mismunandi farkosti eins og alþjóð veit. Á meðan sjáum við í fréttum að ríkisstjórnir annarra landa sitja neyðarfundi til að leysa erfiðleika í fjármálalífi sinna landa. Taka má sem dæmi Bandaríkin og Bretland. Þar koma ráðamenn fram með reglubundnum hætti og senda skýr skilaboð um aðgerðir stjórnvalda í efnahagsmálum. En hér á landi liggur ríkisstjórnin undir ámæli frá alþjóðlegum matsfyrirtækjum um að lítið heyrist frá stjórnvöldum og það sé óskýrt hvað stjórnvöld ætli að gera til að bæta stöðu þjóðarbúsins, hag almennings og fyrirtækja.

Þessi sofandaháttur hefur meðal annars valdið því að horfur í efnahagsmálum þjóðarinnar hafa versnað að mati þessara greiningarfyrirtækja sem getur valdið því að lánshæfismat ríkissjóðs verði lækkað. Reyndar bendir margt til þess að tap ríkissjóðs á þessu ári geti orðið 60-100 milljarðar að öllu óbreyttu.

Það hlýtur því að vera krafa okkar allra að stjórnvöld vakni af dvalanum og komi með einhverjar tillögur til að styrkja tiltrú alþjóðasamfélagsins á Íslandi, staðan virðist versna dag frá degi. Og með hverjum deginum sem líður er þörf á kostnaðarsamari aðgerðum stjórnvalda. Þessi daufgerða ríkisstjórn er að verða þjóðinni dýrkeypt.


Stórveisla í Dalvíkurbyggð

Ég var í stórveislu í Dalvíkurbyggð í gærkvöldi en þá héldu heiðurshjónin og góðvinir mínir þau Haukur Snorrason og Katrín Sigurjónsdóttir upp á afmæli sitt, 50 og 40 ára eru þau á þessu ári. Mikill fjöldi kom og samfagnaði með þeim og taldist mér að um 200 manns hafi verið í veislunni, sem var náttúrulega öll hin glæsilegasta. Boðið var upp á dýrindis fiskisúpu, skemmtiatriðin tókust í alla staði vel upp, ræðurnar sem voru fluttar voru heldur ekki of langar eða of margar.

Það var auðséð á veislugestum að vinahópur þeirra hjóna er fjölbreyttur. Hauk og Katrínu hef ég þekkt til nokkurra ára í gegnum starfið í Framsóknarflokknum. Bæði hafa þau lagt flokknum mikið lið og verður seint hægt að telja allt það  upp sem þau hafa lagt af mörkum á þeim vettvangi. En fyrst og fremst hafa þau þó unnið sínu samfélagi vel með því að skorast ekki undan því að takast á við þau verkefni sem þarf að leysa. Þetta er mikið kjarnafólk.

Það var því meiriháttar að koma til Dalvíkur í gær, í sólskini þar sem allt var snjóhvítt frá fjöru og upp á efstu tinda. Dalvík hefur eitt fegursta bæjarstæði landsins að mínu mati, hvað þá í veðri líkt og var í gær! Ekki spillti svo mannfólki fyrir, félagsskapurinn í gærkvöldi góður. Margir vinir og kunningjar sem hittust og gerðu sér glaðan dag. Dagurinn í gær var því mjög eftirminnilegur. Haukur og Katrín, takk kærlega fyrir mig!


Húsnæðismarkaðurinn við frostmark

Eins og allir vita þá er nær ekkert að gerast á húsnæðismarkaðnum í dag. Bankarnir lána nú í sáralitlu mæli til húsnæðiskaupa og ríkisstjórnin hefur saumað að útlánaheimildum Íbúðalánasjóðs frá síðustu kosningum. Þannig er staða mála sú að nær engin hreyfing er á sölu íbúðarhúsnæðis og margir sem eru í þeirri stöðu að geta ekki keypt sér húsnæði í dag vegna erfiðleika í fjármögnun. Íbúðalánasjóður getur í dag að hámarki lánað 18 m.kr. til húsnæðiskaupa en tenging við brunabótamat lækkar oftar en ekki hámarkslán sjóðsins, sérstaklega á höfuðborgarsvæðinu. Íbúðalánasjóður lánar því mjög takmarkað til húsnæðiskaupa í dag.

Ég spurði Jóhönnu Sigurðardóttur út í húsnæðismálin um daginn á Alþingi. Hvort ekki ætti að hækka hámarkslán Íbúðalánasjóðs og hvort afnema ætti tengingu lána sjóðsins við brunabótamat húseignar.  Hennar svar var að ekkert ætti að gera í því að auka útlánaheimildir Íbúðalánsjóðs. Það á sem sé að láta reka á reiðanum í þessum málaflokki, eins og í öðru, hjá aðgerðalausri ríkisstjórn.

Núverandi ástand á húsnæðismarkaðnum er í takt við þá spá Seðlabankans að verð á húsnæði muni lækka (hrynja) um 30% fram til ársloka 2010. Það er alveg ljóst að ef fram heldur sem horfir þá gæti spá Seðlabankans ræst. Fasteignamarkaðurinn er við frostmark í dag og nær ekkert er um viðskipti á þeim markaði. Það er kannski meðvituð stefna ríkisstjórnarinnar?


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband