Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
11.5.2008 | 16:10
Hugsum til þeirra
Ég verð að viðurkenna að mann setur hljóðan við að heyra fréttirnar frá Búrma. Að 1,5 milljónir manna séu þar í bráðri lífshættu og það vegna sinnuleysis herforingjastjórnarinnar í Búrma. Alþjóðasamfélagið hefur boðist til að senda lyf, mat og önnur hjálpargögn en herforingjastjórnin hefur ekki enn afgreitt vegabréfsáritanir til hjálparsamtaka sem vilja hjálpa nauðstöddum. Á meðan aukast líkurnar á að farsóttir sjúkdómar breiðist út. Maður trúir þessu varla.
Það er hörmulegt til þess að vita að þessir atburðir séu nú að eiga sér stað. Alþjóðasamfélagið þarf að skerast í leikinn, þeir sem halda um stjórnartaumana í Búrma hafa greinilega ekki heilbrigt gildismat, því miður. Þeir virðast, ef marka má fréttir, hafa meiri áhuga á því að ná góðri þátttöku í þjóðaratkvæðagreiðslu sem er framundan frekar en að kljást við það hörmunarástand sem nú ríkir.
Þegar maður fylgist með fréttum sem þessum er óhjákvæmilegt að staldra við. Nú þegar við höldum upp á Hvítasunnuna skulum við horfa til þess hvað við Íslendingar höfum það gott. Við erum ofboðslega heppin að búa hér á landi. Við erum með besta heilbrigðiskerfi í heimi og bestu lífskjörin. Við skulum ekki gleyma því. Við eigum líka að hugsa til þess hvað við getum gert sem einstaklingar í því að bæta stöðu þeirra sem minna mega sín. Ekki bara hér á landi heldur líka í Búrma.
1,5 milljón manna í hættu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
10.5.2008 | 15:10
Góðar fréttir úr Bolungarvík og Fjallabyggð
Stórfelld uppbygging fer nú að eiga sér stað í ferðamálum í Bolungarvík. Framsæknir Bolvíkingar hafa gert samning við eina stærstu ferðaskrifstofu Þýskalands til 5 ára upp á 400 milljónir króna. Byggja á 20 hús, í burstabæjarstíl, og smíða á 20 báta. Samningurinn mun breyta ásýnd Bolungarvíkur að sögn Soffíu Vagnsdóttur sem er hluthafi í Kjarnabúð ehf. Ég óska Bolvíkingum til hamingju með þetta. Þetta er það sem koma skal.
Í Fjallabyggð er verið að vinna að hugmyndum í svipuðum dúr. Mikil áhersla er lögð á uppbyggingu ferðamála í sveitarfélaginu enda um eitt aðaláherslumál bæjaryfirvalda að ræða. Margar hugmyndir eru uppi á borðum sem verið er að vinna að sem ég hef sannfæringu fyrir að geti breytt ásýnd sveitarfélagsins og um leið stuðlað að blómlegu mannlífi í framtíðinni.
En sveitarstjórnir á viðkomandi svæðum geta ekki staðið að slíkri uppbygginu einar og sér. Vissulega geta þær komið að verkefnum en fyrst og síðast þarf einkaframtakið að draga þennan vagn. Mér sýnist að Soffía Vagnsdóttir í Bolungarvík sé dæmi um slíkt framtak. Í Fjallabyggð höfum við atorkusaman mann, Róbert Guðfinnsson, sem er að vinna að stórhuga hugmyndum í ferðamálum. Róbert var hér í eina tíð atkvæðamikill í atvinnumálum Siglufjarðar og er Siglfirðingur í húð og hár. Hann vinnur nú í verkefnum erlendis en hefur gefið sér tíma til að sinna hugðarefnum sínum á Sigló samhliða sínum störfum. Það er því verulegur búhnykkur fyrir Fjallabyggð að maður eins og Róbert skuli gefa sig að uppbyggingu ferðamála á Siglufirði.
Það má því segja að góðar fréttir heyrist úr Bolungarvík og Fjallabyggð. Vonandi verða þetta ekki einu fréttirnar sem berast úr þessum byggðarlögum, sem og annarra á landsbyggðinni. Miklir erfiðleikar hafa verið aðsteðjandi undanfarin eins og allir þekkja. Ég hef trú á því að sú þróun geti snúist við, en það er háð því að framsýnt fólk komi að málum og láti verkin tala.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 15:14 | Slóð | Facebook
9.5.2008 | 16:51
Á að sameina sveitarfélög með valdboði?
Tæp 43% þeirra sem tóku þátt í könnun hér á blogginu eru á móti sameiningu sveitarfélaga með valdboði. Ég er eindregið þeirrar skoðunar að slíkt inngrip Alþingis í sjálfsákvörðunarrétt sveitarfélaganna sé varhugavert. Sveitarfélögum hefur fækkað gríðarlega mikið á undanförnum árum. Mig minnir að árið 1995 hafi þau verið rúmlega 170 eru nú tæplega 80 talsins. Þeim hefur því fækkað um meira en helming á tímabilinu og það án valdbeitingar ríkisins. Sameining Þingeyjarsveitar og Aðaldælahrepps nú nýverið er gott dæmi um frjálsa sameiningu sveitarfélaga.
Ég hef enga trú á því að sameining geti orðið til góðs ef meirihluti íbúa er fyrirfram á móti sameiningu. Í raun myndi inngrip löggjafarvaldsins við slíkar aðstæður virka eins olía á eld og leiða til gríðarlegrar óánægju og mórals í viðkomandi samfélögum. Sú þróun sem hefur átt sér stað á síðustu árum í sameiningu sveitarfélaga hefur verið góð og hefur farið fram án beinnar íhlutunar ríkisvaldsins. Að sjálfsögðu er hægt að hafa áhrif á þróunina með breytingum á úthlutunarreglum Jöfnunarsjóðsins, en á síðustu árum hafa úthlutunarreglurnar verið ný sameinuðum sveitarfélögum hagstæðar.
Nú er til gamans spurt um afstöðu ykkar til þeirra stjórnmálaflokka sem buðu fram fyrir síðustu Alþingiskosningar.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 16:54 | Slóð | Facebook
8.5.2008 | 16:47
Uppáhalds bloggarinn minn er frá Húsavík
Ég hef nú reynt að hafa bloggið mitt þannig að það sé sambland af jákvæðum færslum sem og gagnrýni á það sem betur má fara í þjóðfélaginu. Því miður hefur allt of mikið af því síðarnefnda verið í gangi að undanförnu. Ég gæti í dag t.d. fjallað um ótrúlegan farsa í tengslum við meirihluta Sjálfstæðisflokksins í Borgarstjórn Reykjavíkur eða um málefnastöðu ríkisstjórnarinnar. Ég nenni því bara ekki. Ekki í dag. Þess í stað ætla ég að hrósa uppáhalds bloggara mínum.
Maður er nefndur Karl Hreiðarsson. Kalli er frá Húsavík. Eins og af líkum má ráða er hann þar af leiðandi líka mikill framsóknarmaður. Gárungarnir segja að hann eigi sér bjarta framtíð á vettvangi stjórnmálanna. Ég er ekki í vafa um að það sé rétt. Hann hefur nú nýverið opnað bloggsíðu þar sem farið er vítt og breitt um sviðið, oft á spaugilegan hátt. Einn skemmtilegasti bloggari landsins, ekki spurning. Þið getið lesið bloggið hans hér.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 16:50 | Slóð | Facebook
7.5.2008 | 19:51
Fréttastofa stöðvar 2 er stjórnmálaflokkur!
Yfirlýsing Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur um að Fréttastofa stöðvar 2 sé stjórnmálaflokkur er um margt athyglisverð. Ástæða þessara hrokafullu ummæla er eftirfylgni fréttastofunnar vegna eftirlaunalaganna umdeildu. Formaður Samfylkingarinnar var, í aðdraganda síðustu kosninga, með miklar yfirlýsingar um að þessum lögum yrði breytt snarlega kæmist Samfylkingin í ríkisstjórn. Þegar þetta er svo rifjað upp og spurt um efndirnar, sem er náttúrulega hlutverk fjölmiðla, þá fá fréttamenn svar sem þetta.
Nú væri hægt að ganga að formanni Samfylkingarinnar í mörgum öðrum málum. Tökum nokkur dæmi: Fagra Ísland, miklu hærri skattleysismörk, kjör lífeyrisþega, störf án staðsetningar, traust og ábyrg efnahagsstjórnun, ókeypis skólabækur í framhaldsskólum, gjaldfrjáls göng fyrir vestan og norðan o.s.frv. Hvernig myndi ráðherrann svara fréttamönnum ef þeir voguðu sér að spyrja um framgang þessara mála? Nú skulu blaðamenn sko bara passa sig. Þetta er nýja strategía Samfylkingarinnar til að hafa áhrif á umræðuna.
Framsóknarflokkurinn vildi á síðasta kjörtímabili breyta eftirlaunalögunum, það náðist því miður ekki sátt um það á milli stjórnmálaflokkanna. Ég er á því að þessu þurfi að breyta þannig að þessi réttindi séu jöfnuð á við aðra þjóðfélagsþegna. Reyndar þarf einnig að jafna kjör og réttindi á öðrum sviðum. Þar mætti nefna mun á opinberum starfsmönnum og þeirra sem starfa á almenna vinnumarkaðnum, en það er önnur saga.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 19:56 | Slóð | Facebook
7.5.2008 | 11:46
Af hverju lætur Sjálfstæðisflokkurinn svona?
Nú er það einu sinni þannig að það eru landsfundir/flokksþing stjórnmálaflokkanna sem móta stefnuna. Siv Friðleifsdóttir hefur ítrekað bent á að í landsfundarályktun Sjálfstæðisflokksins er einkavæðing heilbrigðiskerfisins á dagskrá. Það liggur líka fyrir að Sjálfstæðisflokkurinn hefur fengið heilbrigðisráðuneytið í sínar hendur og nú er hægt að gera þar ákveðna hluti sem ekki var hægt að gera með Framsóknarflokknum, líkt og forsætisráðherra orðaði það.
Það var því dapurlegt að lesa grein Ástu Möller í Mogganum í gær þar sem hún reynir að gera Siv tortryggilega sem stjórnmálamann. Það er ljótur leikur. Í greininni reynir hún að slá ryki í augu fólks og hafnar því að Sjálfstæðisflokkurinn hafi ályktað um einkavæðingu heilbrigðiskerfisins. En við skulum vitna í ályktun síðasta Landsfundar Sjálfstæðisflokksins:
"...Því ber að huga að enn frekari einkavæðingu á öðrum sviðum s.s. á sviði heilbrigðis-, mennta- og orkumála. "
Þarf frekari vitnana við? Af hverju lætur Sjálfstæðisflokkurinn svona? Væri ekki nær að gangast við ályktunum eigin flokks frekar en að kasta rýrð á stjórnmálamenn úr öðrum flokkum?
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:57 | Slóð | Facebook
6.5.2008 | 17:00
Hvað ætlar ríkisstjórnin með Íbúðalánasjóð?
Ég spurði Jóhönnu Sigurðardóttur, félagsmálaráðherra, út í stöðuna á húsnæðismarkaðnum í dag. Nær ekkert er um að vera á markaðnum enda Íbúðalánasjóður eini alvöru lánveitandinn eins og sakir standa. Hins vegar hefur hin nýja ríkisstjórn ekki gert annað en að skerða heimildir sjóðsins til útlána frá því hún komst til valda.
Vegna þess að nær ekkert er að gerast á fasteignamarkaðnum þá heyrum við af erfiðleikum verktaka, verkefnaskorti hjá fasteignasölum og síðast en ekki síst af erfiðleikum fólks að koma sér þaki yfir höfuðið. Það sem gæti glætt lífi í markaðinn í dag væri að auka útlánaheimildir Íbúðalánasjóðs. Eins og allir muna þá spáði Seðlabankinn að fasteignaverð myndi lækka um allt að 30% fram til ársloka 2010. Eitt er á hreinu, geri ríkisstjórnin ekki neitt þá mun spá Seðlabankans rætast.
Geir H. Haarde sendi Íbúðalánasjóði tóninn á dögunum og kenndi honum um stöðu efnahagsmála í dag. Hann nefndi að Íbúðalánasjóður ætti að fá annað hlutverk og verða félagslegur sjóður. Það er því greinilegt að stefna Sjálfstæðisflokksins er ofan á í húsnæðismálunum. Það á með markvissu aðgerðaleysi að leggja Íbúðalánasjóð af í núverandi mynd. Þetta hefur Samfylkingin greinilega gengist undir, eins og svo margt annað sem er andstætt því sem boðað var í aðdraganda síðustu kosninga.
Svipuð útlán Íbúðalánasjóðs og í fyrra | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 17:01 | Slóð | Facebook
3.5.2008 | 10:39
Ísland og Evrópa
Í dag mun miðstjórn Framsóknar koma saman. Á fundinum verða meðal annars framsögur um efnahagsmál og húsnæðismál enda ekki vanþörf að ræða þau mál. Að því loknu fara fram almennar umræður um stjórnmálin og málefni flokksins. Án efa verða tengsl Íslands við Evrópu til umræðu á fundinum. Nú hafa einhverjir spáð því að Framsókn sé að klofna vegna umræðu um hugsanlega aðild Íslands að ESB. Yfirleitt eru það andstæðingar flokksins sem halda þeirri umræðu hátt á lofti í fjölmiðlum.
Framsóknarflokkurinn hefur verið í fararbroddi í umræðu um tengsl Íslands og Evrópu á undanförnum árum. Mikið starf hefur verið unnið innan flokksins og meðal annars hefur Evrópunefnd flokksins skilað athyglisverðri skýrslu um þau mál. Það er því engin "þöggun" um Evrópumál innan Framsóknarflokksins, ólíkt mörgum öðrum flokkum. Þar er hægt að nefna til sögunnar Sjálfstæðisflokkinn og Vinstri græna.
Framsóknarflokkurinn mun áfram standa fyrir opinni og fordómalausri umræðu um Evrópumál. Að sjálfsögðu eru skiptar skoðanir um þessi mál innan allra stjórnmálaflokka en ég vil tilheyra flokki þar sem skoðaðar eru allar hliðar á því flókna viðfangsefni sem Evrópumálin eru. Almenningur og íslenskt atvinnulíf gera þá kröfu að þessi mál séu skoðuð til hlítar. Framsóknarflokkurinn svarar því kalli.
1.5.2008 | 14:26
Smjörklípuaðferðin er síðasta hálmstráið
Ég spurði Árna Mathiesen fjármálaráðherra í þinginu í gær hvort hann væri sammála okkur í stjórnarandstöðunni og Kristjáni Þór Júlíussyni, varaformanni fjárlaganefndar, um að nú væri rétt að endurskoða forsendur fjárlaga ársins 2008. Svarið var einfalt. Árni hélt nú ekki, sæi enga þörf á því. Til upprifjunar þá var gert ráð fyrir í forsendum fjárlaga að verðbólgan á þessu ári yrði 3,3%. Verðbóla síðustu þrjá mánuði er upp á 28%, en fjármálaráðherranum finnst af og frá að fara í endurskoðun á forsendum fjárlaga!
Í raun gaf ráðherrann líka í skyn í svari sínu að það væri Framsóknarflokkurinn sem bæri ábyrgð á fjárlögum ársins 2008. Það er líkt og Árni Páll Árnason þingmaður Samfylkingarinnar sagði síðastliðið haust. Þetta er kannski nýja lína stjórnarliðanna? Því nú flykkjast stjórnarliðar fram og halda svipuðum málflutningi á lofti, þ.e.a.s. að Framsókn beri höfuðábyrgð á stöðu mála. Ingibjörg Sólrún í Fréttablaðinu í dag og Ólöf Nordal þingkona Sjálfstæðisflokksins í Mogganum sínum í dag.
Það á nú varla að þurfa að rifja þetta upp en Framsóknarflokkurinn gagnrýndi harðlega óráðsíu stjórnarflokkanna við fjárlagagerðina síðasta haust, útgjaldaaukningu upp á um 20%. Það er því í besta falli hlægilegt að hlusta á stjórnarliða beita "smjörklípuaðferðinni" á Framsókn í þessu máli. Í dag krefjumst við framsóknarmenn að gripið verði til raunverulegra aðgerða til að lækka verðbólguna og stýrivextina. Ríkisstjórnin hefur ekkert fram að færa í þeim efnum. Við kölluðum eftir nýrri þjóðarsátt fyrir mörgum mánuðum, það er fyrst í dag sem Ingibjörg Sólrún tekur undir slíkar hugmyndir.
Þessi ríkisstjórn er því miður gjörsamlega ráðþrota og úrræðalaus. Það eina sem hún finnur sér til málsbóta á þessum síðustu og verstu tímum er að kenna almenningi, Íbúðalánasjóði, fyrirtækjunum og Framsóknarflokknum um hvernig komið er fyrir íslensku efnahagslífi í dag. Ég spyr, er ríkisstjórninni orðið viðbjargandi?
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 15:00 | Slóð | Facebook
29.4.2008 | 16:47
Ríkisstjórnin harðlega gagnrýnd á Alþingi í dag
Eftir harða atlögu stjórnarandstöðunnar í þinginu í dag, þar sem ríkisstjórnin var harðlega gagnrýnd fyrir sofandaháttinn í efnahagsmálum þjóðarinnar, sýndu stjórnarliðar örlítið lífsmark. Varaformaður fjárlaganefndar tók undir þá kröfu okkar framsóknarmanna að forsendur fjárlaga yrðu endurskoðaðar. Það verður væntanlega gert á næstu dögum, enda full ástæða til.
Staðreyndirnar tala sínu máli; Hæstu stýrivextir í heimi, verðbólga ekki hærri í 18 ár, hækkandi skuldir heimilanna og almenn kjararýrnun er staðreynd á Íslandi í dag. Stjórnarliðar töluðu í umræðunni í dag mikið um ábyrgð fyrirtækja og almennings á því ástandi sem nú er uppi. Ég hafna því algjörlega að atvinnulífinu og almenningi sé kennt um stöðu mála. Ég vil minna á að talsmenn atvinnulífsins bentu ríkisstjórninni á síðastliðið haust að aðhalds væri þörf við fjárlagagerðina. Reyndar gerðu það nær allir málsmetandi aðilar innanlands sem utan. Það var ekkert hlustað.
Það ætti að vera öllum ljóst að ríkisstjórnarfleyið er stjórnlaust og ljóst að öll skipsáhöfnin hefur meiri áhuga á málefnum annarra þjóða en vanda íslensku þjóðarinnar. Slík eru ferðalögin hjá ráðherrunum. Og það á þessum síðustu og verstu tímum.
Ástæða til að fara yfir forsendur fjárlaga | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 16:51 | Slóð | Facebook