Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
31.5.2008 | 11:53
Ungt fólk í Framsókn
Nú er einungis vika í þing Sambands ungra framsóknarmanna (SUF) sem heldur jafnframt upp á 70 ára afmæli sitt á þessu ári. Þingið verður haldið á Suðurlandi, nánar tiltekið á Hótel Heklu og mun standa yfir í tvo daga. Á þessu þingi verður kjörin ný stjórn SUF og nýr formaður. Það er ánægjulegt að sjá að tveir mjög frambærilegir einstaklingar hafa gefið kost á sér til formennsku SUF að þessu sinni. Það eru þau Bryndís Gunnlaugsdóttir og Einar Karl Birgisson sem eru glæsilegir fulltrúar, einstaklingar sem munu vafalaust láta verulega að sér kveða á vettvangi landsmálanna í framtíðinni. Ég mun gera þeim betri skil á blogginu í næstu viku.
Það er mikill hugur hjá ungu fólki í Framsóknarflokknum í dag. Fólk sem vill hafa áhrif á störf og stefnu Framsóknar. Ég á von á því að nýr formaður og stjórn SUF verði áberandi í þjóðfélagsumræðunni á næstunni. Ungt fólk í dag er nefnilega verulega uggandi yfir gangi mála í þjóðfélaginu. Hæstu stýrivextir í heimi, mesta verðbólga í 18 ár og um leið horfum við upp á stefnulausa og aðgerðalitla ríkisstjórn. Ég á því von á kröftugu og málefnalegu SUF þingi um næstu helgi þar sem ungt fólk í Framsókn mun láta að sér kveða.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 12:06 | Slóð | Facebook
29.5.2008 | 23:35
Náttúruhamfarir dagsins
Jarðskjálftar eru oft óhugnanlegir. Ég sat í þingsalnum þegar jarðskjálftinn reið yfir og varð nokkuð brugðið við. Guðbjartur Hannesson var að flytja ræðu um frístundabyggð þegar skjálftinn hófst en sýndi mikla yfirvegun meðan á þessu stóð og hélt svo áfram að flytja sitt mál. Hrikalegar myndir af Suðurlandi vekja mann til umhugsunar um hversu gríðarlegir kraftar felast í náttúruöflunum og hvað við mennirnir verðum oft smáir við slíka atburði. Mér sýnist á öllu að stjórnvöld hafi brugðist við erfiðum aðstæðum fumlaust og vonandi að nú séu í bili frekari jarðhræringar á þessu svæði að baki.
Nú taka við tímar uppbyggingar á Suðurlandi þar sem hið opinbera mun koma að því að bæta tjón þeirra einstaklinga sem urðu fyrir skaða í þessum hamförum. Aðalatriðið er að engum mannslífum var fórnað, allt annað er hægt að bæta. Við sáum í fréttum að mörgum Sunnlendingum er verulega brugðið við atburði dagsins en vonandi mun mannlíf á Suðurlandi komast fljótlega í samt horf. Hugur okkar margra hvílir hjá þeim sem hvað verst fóru út úr þessum hamförum. Íslendingar standa saman á stundum sem þessum.
Hins vegar fannst mér magnað að sjá útsendingu Ingva Hrafns vinar míns á ÍNN sjónvarpsstöðinni. Ingvi var í beinni útsendingu meðan ósköpin gengu yfir og mjög athyglisvert að sjá hvernig þessi reyndasti fréttamaður landsins brást við. Þessi útsending hefur farið sem eldur um sinnu í bloggheimum og trúlega ein besta markaðssetning sem ÍNN sjónvarpsstöðin hefur fengið í lengri tíma. Hægt er að sjá skjálfandi Hrafnaþing hér.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 30.5.2008 kl. 00:03 | Slóð | Facebook
26.5.2008 | 20:12
Nú verður hugur að fylgja máli!
Ég spurði Jóhönnu Sigurðardóttur út í málefni Fjölsmiðjunnar á Alþingi í dag. Tilefnið var frétt í Fréttablaðinu í morgun þar sem viðtal var tekið við forstöðumanninn, Þorbjörn Jensson. Ég tók fram í mínu máli að það væri mjög alvarlegt ef ekki leystist á næstunni úr húsnæðismálum Fjölsmiðjunnar. Þar stunda um 70 ungmenni fjölbreytta atvinnu. Margt af þessu unga fólki hefur t.d. ekki fótað sig í grunnskólanámi, verið félagslega einangrað, flosnað upp úr framhaldsskóla eða er að takast á við lífið eftir áralanga fíkniefnaneyslu. Þorbjörn Jensson hefur stýrt Fjölsmiðjunni frá upphafi sem hefur skilað samfélaginu miklum ábata sem og náttúrulega því unga fólki sem þar hefur starfað á síðustu 7 árum. Ég man upphafið vel enda kom félagsmálaráðuneytið að stofnun Fjölsmiðjunnar á sínum tíma en ég var þá aðstoðarmaður Páls Péturssonar.
En nú er svo komið að núverandi húsnæði er á undanþágu vegna brunavarna og því brýnt að starfsemin komist í tilhlýðilegt húsnæði. Sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu hafa nú þegar gefið grænt ljós á að koma að fjármögnun nýs húsnæðis að hluta til, þannig að nú standa öll spjót á ríkisvaldið en engin svör hafa enn borist úr þeim herbúðum. Hins vegar tók Jóhanna vel í málaleitan mína um að þrýsta á að úrlausn verði fundin á vanda Fjölsmiðjunnar. Þannig að nú er það mín von að hugur muni fylgja máli en ekki einungis fögur fyrirheit. Það verður því fylgst með framgangi þessa máls á næstu vikum, því það er nauðsynlegt að starfsemi Fjölsmiðjunnar haldi áfram. Ég vil því lýsa yfir mikilli ánægju með viðbrögð ráðherrans í dag og vonandi mun því hugur fylgja máli og Fjölsmiðjan halda áfram sinni starfsemi í nýju húsnæði, ungu fólki og okkur öllum til farsældar.
Nálgast má upplýsingar um starfsemi Fjölsmiðjunnar hér.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 20:33 | Slóð | Facebook
26.5.2008 | 11:08
Stemning á Dalvík og vor í Haganesvík
Það var gaman að fylgjast með Dalvíkingum magna upp stemninguna í tengslum við eurovision keppnina um síðustu helgi. Við Valgerður Sverris fórum á laugardaginn úr Siglufjarðarafmælinu til Dalvíkur til að fanga stemninguna. Laugardagskvöldið á Dalvík var því einkar ánægjulegt. Dalvíkingar kunna greinilega á því lagið að markaðssetja sveitarfélagið í kringum ánægjulega atburði. Allt í einu varð Dalvík miðdepill keppninnar hér á landi þar sem rækilega var gert grein fyrir uppruna annars keppenda okkar, Friðriks Ómars. Flott hjá Dalvíkingum.
Annars var gærdeginum eytt í Ólafsfirði og í Fljótunum. Endaði í Haganesvíkinni þar sem varptíminn er hafinn en þar er þó nokkurt æðarvarp. Í ár er mikið fuglalíf og sérstaklega ber mikið á kríunni. Hún er reyndar ekki orpin, að nokkru ráði, þannig að hún er ekki orðin aðgangshörð. Í ár hefur lítið orðið vart við ref og mink, sem betur fer. Einn minkur hefur náðst í vor en annars hefur verið friður fyrir þessum vágesti. Alveg með ólíkindum að á sumum stöðum á landinu skuli þessi vargur vera friðaður. Það sést fljótt á fuglalífinu ef mikið er af ref og mink. En því er sem betur fer ekki til að dreifa í Haganesi enn sem komið er. Enda er varpið vaktað nótt sem nýtan dag. Það var því ekkert sérstakt tilhlökkunarefni að þurfa að yfirgefa sveitina, úr sól og blíðu, og keyra suður yfir heiðar.
En nú eru það þingstörfin sem taka mestan part sólarhringsins. Fjölmörg mál er nú verið að afgreiða úr nefndum ásamt því sem að nú er hafinn sá tími þar sem að stjórn og stjórnarandstaða semja sín á milli um þinglokin, þ.e. hvaða mál verða afgreidd á þessu vori.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:32 | Slóð | Facebook
23.5.2008 | 20:24
90 ára afmæli á morgun
Á þessari stundu er ekki vitað hvenær þingfundi lýkur. Vonandi munu stjórnarliðar ekki keyra umræðu um umdeilt mál, framhaldsskólafrumvarpið, inn í nóttina. Við framsóknarmenn óskuðum eftir tvöföldum ræðutíma til að koma okkar sjónarmiðum fram og að sjálfsögðu væri eðlilegt að ræða þetta mikilvæga mál í dagsbirtunni.
Þannig að það verður trúlega ekki langur svefn að þessu sinni því í fyrramálið mun leiðin liggja norður á Siglufjörð þar sem haldið verður upp á 90 ára kaupstaðarafmæli Siglufjarðarkaupstaðar. Bæjaryfirvöldum þótti við hæfi að halda upp á þennan áfanga þó svo að Siglufjörður og Ólafsfjörður mynda nú sveitarfélagið Fjallabyggð.
Veðurspáin er með ágætum þannig að allt stefnir í ánægjulegan morgundag og vel heppnað afmæli. Afmælisdagskráin er fjölbreytt og hana má nálgast hér. Margir gestir munu heiðra okkur Siglfirðinga á þessum tímamótum. Kollegar mínir Valgerður Sverrisdóttir og Siv Friðleifsdóttir ætla að mæta í veisluna. Valgerður náttúrulega sem foringi Framsóknar í Norðausturkjördæmi og Siv Friðleifsdóttir sem á ættir sínar að rekja til Siglufjarðar eins og alþjóð veit. Þannig að þingmenn Framsóknar dekka þetta 90 ára afmæli með ágætum.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 20:26 | Slóð | Facebook
23.5.2008 | 14:36
Fljótfærni
Ég var víst full bráður á mér að veita Jóni Gunnarssyni hrósið í gær. Ekki svo að skilja að með því hafi ég breytt um skoðun á frábærri framgöngu hans gagnvart Samfylkingunni í þinginu í gær. En hrós gærdagsins eiga náttúrulega Regína Ósk og Friðrik Ómar. Þau voru landi og þjóð til sóma í gærkvöldi og hafa reddað laugardagskvöldinu hjá landanum.
Friðrik Ómar er Dalvíkingur, sem er náttúrulega hið besta mál, og hefur mikil stemning verið mögnuð upp í Dalvíkurbyggð vegna keppninnar í ár. Mig grunar að þar hafi Júlíus Júlíusson leikið lykilhlutverk en Júlli er ein aðal driffjöður Fiskidagsins á Dalvík. Forréttindi fyrir samfélag, líkt og Dalvíkurbyggð, að hafa þvílíkan orkubolta og frumkvöðul í sínum röðum.
Þannig að nú er ég bara að spá í að eyða laugardagskvöldinu í Dalvíkurbyggð. Þar mun án efa verða gríðarleg stemning. DV hringdi í mig áðan og vildi fá mína spá um hvar við lendum í keppninni. Ég veit að Dalvíkingar verða ekki yfir sig hrifnir af þeim spádómi en ég segi 11. sætið. Er bara nokkuð jarðbundinn í minni spá. Það er hins vegar gríðarlegt afrek að hafa komið okkur upp úr þessum undanriðli og það eigum við Friðriki Ómari og Regínu Ósk að þakka. Áfram Ísland!
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 14:47 | Slóð | Facebook
22.5.2008 | 14:37
Jón Gunnarsson fær hrós dagsins
Það var algjört bíó að fylgjast með umræðum á Alþingi í dag. Við upphaf þingfundar fór fram umræða þar sem þingmenn gátu spurt hvorn annan út í þau mál sem bera hvað hæst í þjóðfélaginu. Í fjörlegri umræðu gengu skeytasendingar á milli stjórnarliða þannig að halda mátti að þarna væru stjórn og stjórnarandstaða að eigast við. Svona uppákomur heyra reyndar ekki til undantekninga.
Þau mál sem rætt var um voru meðal annars hvalveiðar, umhverfismál, embætti ríkislögreglustjóra og lögreglustjórans á Suðurnesjum. Stjórnarliðar kepptust um að senda hvor öðrum tóninn í þessum málum. Maður dagsins var Jón Gunnarsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, sem húðskammaði Samfylkinguna vegna hvalveiðimála og fór nokkuð háðulegum orðum um skilning samstarfsflokksins á atvinnumálum almennt. Jón fær því hrós dagsins.
Það verður fróðlegt að sjá hvernig stjórnarflokkarnir ljúka þingstörfum á þessu vori. Við gagnrýndum harðlega í morgun að nú virðast stjórnarflokkarnir ætla að keyra þingstörfin inn í nóttina. Það er þvert á markmið nýsamþykktra þingskapa. Þannig að ég á von á því að hin vaska stjórnarandstaða muni mótmæla áframhaldandi þingfundi þegar líða tekur á kvöldið. Síðan er bara að sjá hver viðbrögð hins gríðarstóra þingmeirihluta verða...
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 14:40 | Slóð | Facebook
21.5.2008 | 11:33
Var ríkisstjórnin að setja nýtt heimsmet?
Nýjasta uppákoma innan ríkisstjórnarinnar er alveg kostuleg. Allir ráðherrar Samfylkingarinnar leggjast gegn þeirri ákvörðun sjávarútvegsráðherra að hefja hvalveiðar. Það skiptir bara engu máli. En þó allir ráðherrar Samfylkingarinnar séu opinberlega andvígir hvalveiðunum þá ætla þeir að verja þessa ákvörðun sjávarútvegsráðherra með oddi og egg á erlendri grundu. Hvernig er það hægt?
Ríkisstjórnin hefur nú náð nýjum hæðum í því að skerða trúverðugleika sinn. Ég held að þetta heimsmet verði seint toppað. Erlendis þykja það tíðindi ef einn ráðherra lýsir yfir andstöðu við gjörðir sinnar ríkisstjórnar. Hvað ætli yrði sagt þar ef annar ríkisstjórnarflokkurinn tæki sig til og lýsti yfir andstöðu við stefnu sinnar eigin ríkisstjórnar?
Sama upplausnarástandið blasir nú við og árin 1991-1995 þegar kratar og sjálfstæðismenn störfuðu saman. Samskipti ríkisstjórnaflokkanna fóru þá eins og nú aðallega fram í fjölmiðlum. Ágreiningur og deilur bornar á torg, fæst mál leyst við ríkisstjórnarborðið. Í þessu máli er trúverðugleiki íslenskra stjórnvalda í húfi og hann hefur beðið mikinn hnekki við síðustu fréttatilkynningu Samfylkingarinnar. Það er alvarlegt mál.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:35 | Slóð | Facebook
15.5.2008 | 22:20
Stíflan er brostin innan Sjálfstæðisflokksins
Jæja, það virðist sem að nú megi ræða með nokkuð opinskáum hætti um Evrópumál innan Sjálfstæðisflokksins. Enda er ekki vit í öðru en að ræða kosti og galla aðildar að Evrópusambandinu. Nú koma forystumenn Sjálfstæðisflokksins fram hver á fætur öðrum og tala með afar misjöfnum hætti um Evrópumálin. Það er nefnilega þannig, líkt og í öllum öðrum flokkum, að skoðanir eru skiptar um þessi mál innan Sjálfstæðisflokksins. Þorgerður Katrín vill þjóðaratkvæðagreiðslu um aðildarviðræður en Björn Bjarnason er ekki hrifinn af slíkum hugmyndum.
Geir H. Haarde sagði um daginn, að afloknum miðstjórnarfundi Framsóknarflokksins, að nú ættu kjósendur einungis val um tvennt (eftir að Framsókn opnaði á þjóðaratkvæðagreiðslu um aðildarviðræður). Fylgjendur aðildar að ESB kjósi Samfylkingu, andstæðingar kjósi annað hvort Sjálfstæðisflokk eða Vinstri græna sagði formaður Sjálfstæðisflokksins. En nú eltir skyndilega Sjálfstæðisflokkurinn Framsókn í Evrópumálunum! Ætli pólitískt mat og stefna Geirs H. Haarde í þessum málum hafi breyst, einungis á nokkrum dögum? Er Geir búinn að missa tökin á flokknum?
Eitt er víst; Stíflan er brostin innan Sjálfstæðisflokksins.
Á móti þjóðaratkvæðagreiðslu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 22:27 | Slóð | Facebook
14.5.2008 | 16:16
Skörulegur foringi Framsóknar á Akureyri
Ég horfði á bæjarstjórnarfund á Akureyri í gær þar sem rætt var um umhverfisstefnu bæjarins. Áhugaverð umræða þar sem komið var inn á fjölmarga þætti sem snerta okkur beint eða óbeint. Svifryksmengun, útlit bæjarfélagsins, sorpmál og fleira mætti nefna. Bæjarfulltrúarnir fóru upp í ræðustól, hver á fætur öðrum og fluttu ágætt mál. Þegar kom að bæjarfulltrúa Framsóknarflokksins, Jóhannesi Bjarnasyni, lagði ég náttúrulega sérstaklega við hlustir. Að öðrum bæjarfulltrúum ólöstuðum þá þótti mér Jóa mælast hvað best, málefnaleg ræða þar sem að meirihlutanum var bent á það sem betur mætti fara í umhverfismálum bæjarins.
Ég hef fylgst með Jóa í gegnum tíðina og hef alla tíð verið sannfærður um að þar er á ferðinni stjórnmálaskörungur. Maður með sterkar skoðanir á hlutunum sem fylgir sinni sannfæringu eftir. Jóhannes er vaxandi stjórnmálamaður sem veitir núverandi meirihluta á Akureyri verðugt aðhald. Eins og gengur er þar af ýmsu að taka. Það er mikilvægt fyrir Akureyringa að horft sé með gagnrýnum augum á málefni bæjarins, styðja það sem vel er gert en um leið benda á það sem betur má fara. Þar fer Jóhannes Bjarnason fremstur í flokki.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 21:24 | Slóð | Facebook