Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Tollfrjáls innflutningur

Ég var mjög ánægður að heyra í fréttum að fjármálaráðherra skuli hafa aukið svigrúm neytenda til að flytja vörur inn í landið, tollfrjálst. Fréttin var sú að nú mega ferðamenn hafa með sér vörur hingað til lands að verðgildi 65 þúsund íslenskra króna án þess að greiða toll af þeim en áður mátti einungis flytja inn fyrir 46 þúsund. Ég hugsaði með mér að nú væri ríkisstjórnin loksins að taka sér tak og standa við stóru orðin um bættan hag neytenda.

En þegar horft er til hækkunarinnar út frá gengi krónunnar horfir málið ekki eins við. Gengi íslensku krónunnar hefur verið í frjálsu falli síðustu misserin þannig að verðgildið hefur fallið um 35-40% gagnvart öðrum gjaldmiðlum. Þegar öllu er á botninn hvolft er því ekki um eins mikla hagsbót að ræða og ætla mætti.

Reyndar vekur það upp ákveðnar spurningar um framtakssemi ráðherrans að upphæð ótollskyldrar vöru skuli ekki hafa verið breytt á síðustu sex árum. Ég tel að ráðherrann hefði mátt ganga lengra og hækka þá upphæð sem ferðmenn mega koma með tollfrjálsa til landsins enn meir. Þannig fengi íslenska verslunin meira aðhald og þannig myndi samkeppnin aukast sem yrði okkur öllum til hagsbóta. Ég vona þess vegna að fjármálaráðherrann taki sér ekki önnur sex ár til að ákvarða næstu hækkun.

Annars eru sex ár í því samhengi ekki langur tími hjá Sjálfstæðisflokknum. Flokkurinn hefur haldið utan um fjármálaráðuneytið frá því ég var tólf ára gamall, í 17 ár samfellt, og mér sýnist hann ekkert á förum þaðan. Árangurinn í efnahagsstjórnuninni síðustu 12 mánuði, frá því Framsóknarflokkurinn gekk úr ríkisstjórn, er þó vægast sagt einstakur og vekur bjartsýni um að landsmenn sjái að þörf er á breytingum á landsstjórninni.

Svo er bara að sjá hvernig þingflokkur Samfylkingarinnar bregst við í næstu fréttatilkynningu sinni en eins og menn vita þá vill viðskiptaráðherra rýmka reglur um tollfrjálsan innflutning mjög. Skref fjármálaráðherrans hlýtur að vera hænufet á mælikvarða samráðherra hans í ríkisstjórninni.

(Greinin birtist einnig í 24 stundum í dag)


Afmæli á Súðavík

Ég fór til Súðavíkur um helgina. Þar hélt Egill Heiðar Gíslason, Súðvíkingur með meiru, upp á 50 ára afmæli sitt. Egil hef ég þekkt lengi í gegnum Framsóknarflokkinn en hann var um árabil framkvæmdastjóri flokksins, var farsæll í þeim störfum. Við erum einnig frændur en hann er ættaður úr snjóþungri en fallegri sveit, Fljótum í Skagafirði.

Ég veit nú varla hvar ég á að byrja í lýsingum á afmælinu en það stóð frá föstudagskvöldi fram á sunnudagskvöld. Mikill fjöldi vina og ættingja samfögnuðu með Agli sem hélt sjálfur að mestu uppi fjörinu. Ég náði reyndar ekki að vera í afmælinu nema síðustu 2 dagana en verð að viðurkenna að það er langt síðan að ég hef skemmt mér svona vel, enda í góðra vina hópi. Egill sýndi okkur og sannaði að hvergi er betra að vera en á Súðavík. Hann, ásamt systkinum, hafa byggt upp sitt gamla heimili, Grund, með glæsilegum hætti. Það er mikilvægt fyrir öll samfélög að eiga menn eins og Egil Heiðar Gíslason. Takk fyrir mig Egill Heiðar!

Bendi ykkur á forvitnilegan vef sem Guðni Ágústsson opnaði á Súðavík þessa helgi. Stefnt er að opnun Melrakkaseturs þar árið 2010 og nú er búið að opna heimasíðu til heiðurs þessari skepnu. Heimasíðuna má nálgast hér


Árangur áfram - Ekkert stopp

Ríkisstjórn Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks fagnaði nýverið eins árs afmæli sínu. Á því ári hefur stuðningur þjóðarinnar við ríkisstjórnina farið úr tæpum 80% niður í rúm 50%. Það er ekki að ósekju sem stuðningur almennings hefur hríðfallið svo sem raun ber vitni. Mikil yfirlýsingagleði ráðherranna um aðgerðir og síðar nær engar efndir er ekki líklegt til árangurs. Reyndar höfum við framsóknarmenn varað ítrekað við því að stjórnvöld gæfu slíkar falsvonir og væntingar en lítið hefur á þau varnaðarorð enda menn uppteknir við að básúna eigið ágæti og meint samráð innan ríkisstjórnarinnar.

Við framsóknarmenn höfum lagt til svo mánuðum skiptir að gjaldeyrisvarasjóður Seðlabankans verði efldur. Það er nauðsynlegt fyrir íslenskt efnahagslíf að það verði gert, ekki síst til að standast áhlaup erlendra spákaupmanna. Forsætisráðherra segir „að það muni koma í ljós þegar það kemur í ljós" hvenær slíkra aðgerða er að vænta. Á meðan engist íslenskt atvinnulíf og þar sverfir ískyggilega að.

Fólkið og fyrirtækin í landinu búa við hæstu stýrivexti í heimi en allir vita að ógjörningur er að standa undir 15-20% vöxtum til lengdar. Því þarf að breyta peningamálastjórnuninni. Ef það verður ekki gert eru afleiðingarnar fyrirsjáanlegar. Stóraukið atvinnuleysi með alvarlegum afleiðingum fyrir íslenskt þjóðarbú og almenning.

Við þurfum því á að halda ríkisstjórn sem framkvæmir í stað þess að stunda samræðustjórnmálin ótt og títt. Slagorð okkar framsóknarmanna fyrir síðustu kosningar var Árangur áfram - ekkert stopp. Stefna okkar byggist á því að framkvæma hlutina en ekki að setja atvinnulífið í handbremsu líkt og Vinstri græn og Samfylking boðuðu í aðdraganda síðustu kosninga með því sem kallað var stóriðjustopp. Ef standa á undir öflugu velferðarkerfi sem og að bæta hag almennings þarf aukna verðmætasköpun með auknum útflutningi. Það verður meðal annars gert með skynsamlegri nýtingu náttúruauðlinda okkar.

Því er mikilvægt, og þó fyrr hefði verið, að stjórnvöld kalli til aðila vinnumarkaðarins, sveitarfélög og bændur til að móta aðgerðir sem geta leitt til nýrrar þjóðarsáttar og stöðugleika. Fórnir voru vissulega færðar í tíð síðustu þjóðarsáttasamninga en ávinningurinn var augljós. Við framsóknarmenn höfum hamrað á þessu gagnvart ríkisstjórninni frá síðastliðnu sumri en því miður hefur einungis verið haldinn einn fundur með hagsmunaaðilum á boðuðum samráðsvettvangi ríkisstjórnarinnar. Þá voru ekki einu sinni allir þeir sem hér að ofan voru nefndir kallaðir til.

Það er ekki með neinum hálfkæringi sem þessi orð eru sett á blað. Við höfum heyrt mjög svartar lýsingar frá aðilum í atvinnulífinu og ég spái því að verði ekkert að gert þá muni atvinnuleysi og enn dýpri kreppa blasa við okkur undir árslok. Einhverjir munu kalla skrif sem þessi dómsdagsspá en að mínu viti er hér um blákaldan veruleika að ræða. Þetta er því sett hér fram í þeim tilgangi að hvetja ríkisstjórn Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks til góðra verka. En ef marka má það rúma ár sem liðið er frá síðustu kosningum er þó ekki mikils að vænta. Því miður.


Vösk sveit ungs fólks

Ég ætlaði mér að vera búinn að blogga meira um þá miklu endurnýjun sem átti sér stað um síðustu mánaðarmót þegar ný forysta ungs framsóknarfólks var kjörin á 70 ára afmælisþingi Sambands ungra framsóknarmanna (SUF). Eins og áður sagði þá var Bryndís Gunnlaugsdóttir kjörin formaður en með henni í stjórn voru kjörin:

Agnar Bragi Bragason, Alfreð -FUF í Reykjavík
Alex Björn Bülow, FUF á Akureyri og nágrenni
Eggert Sólberg Jónsson, Framsóknarfélag Mosfellsbæjar
Einar Freyr Magnússon, Framsóknarf. V-Skaftafellssýslu
Fanný Guðbjörg Jónsdóttir, Alfreð – FUF í Reykjavík
Heiðar Lind Hansson, FUF í Mýra- og Borgarfjarðarsýslu
Hlini Melsteð Jóngeirsson, FUF í Hafnarfirði
Inga Guðrún Kristjánsdóttir, Alfreð – FUF í Reykjavík
Ingi Björn Árnason, FUF í Skagafirði
Jóhanna Hreiðarsdóttir, Alfreð – FUF í Reykjavík
Margrét Freyja Viðarsdóttir, Eysteinn – FUF á Austurlandi
Sæbjörg María Erlingsdóttir, FUF í Grindavík

Í varastjórn SUF voru eftirtalin kjörin:

Ármann Ingi Sigurðsson, FUF Árnessýslu
Ella Þóra Jónsdóttir, Alfreð – FUF í Reykjavík
Garðar Freyr Vilhjálmsson, FUF í Skagafirði
Gunnar Gunnarsson, Eysteinn – FUF á Austurlandi
Gunnhildur Helga Jónasdóttir, Alfreð – FUF í Reykjavík
Íris Hauksdóttir, Framsóknarfélag Dalvíkur
Kolbrún Stella Indriðadóttir, FUF í V-Húnavatnssýslu
Kristbjörg Þórisdóttir, Framsóknarfélag Mosfellsbæjar
Matthildur Þórisdóttir, FUF í Hafnarfirði
Steinunn Anna Baldvinsdóttir, Alfreð – FUF í Reykjavík
Sveinn Enok Jóhannsson, FUF í Reykjanesbæ
Þórir Ingþórsson, Alfreð – FUF í Reykjavík

Flest af þessu fólki þekki ég persónulega og er þess fullviss að SUF verði áfram ein öflugasta ungliðahreyfing stjórnmálaflokkanna. Mikil endurnýjun hefur átt sér stað og upplifði ég í fyrsta sinn þessa helgi að ég væri einn af eldri þátttakendum á þinginu enda hef ég starfað innan SUF í 10 ár, tók fyrst þátt á þinginu á Laugarvatni árið 1998. Þingin voru með sama sniði; Heilmikil málefnavinna og mikil skemmtun að því loknu. Þegar litið er til þess fólks sem valið var til trúnaðarstarfa á þessu þingi er óhjákvæmilegt annað en að líta börtum augum til framtíðarinnar.


Spor í rétta átt en allt of seint

Aðgerðir ríkisstjórnarinnar til að blása lífi í fasteigna- og fjármálamarkaðinn eru vissulega spor í rétta átt. Hins vegar eru flestir sammála því að hér sé of skammt gengið og aðgerðirnar hefðu þurft að líta dagsins ljós fyrir mörgum mánuðum. Ég hef á Alþingi ítrekað spurt félagsmálaráðherra út í stöðuna á húsnæðismarkaðnum og hvað ríkisstjórnin ætlaði sér að gera til að mæta grafalvarlegri stöðu á þeim markaði. Svörin hafa hins vegar verið á þann veg að ekki væri tímabært að grípa til aðgerða og reyndar var af svörunum að dæma að staðan á markaðnum væri ekki eins slæm og menn vildu vera láta.

En nú loksins hefur ríkisstjórnin ákveðið að grípa til aðgerða eftir mikinn þrýsting aðila sem þekkja vel til á húsnæðismarkaðnum. Hins vegar leita óhjákvæmilega á mann hugsanir um hvort að staðan væri ekki með öðrum hætti ef ríkisstjórnin hefði tekið þessar ákvarðanir fyrr. Því miður heyrast sögur um alvarlega stöðu margra fyrirtækja sem tengjast þessum markaði. Það hefði skipt miklu máli fyrir þau fyrirtæki að búa við ríkisstjórn sem væri ekki svona ofboðslega lengi að grípa til aðgerða á húsnæðismarkaðnum. Það verður seint sagt um núverandi stjórnvöld að þau séu snör í snúningum.


Á ferð um Djúpavog og Breiðdalsvík

Að loknum 17. júní hátíðarhöldum hér nyrðra lá leiðin austur á bóginn. Um kvöldið var ég kominn til Egilsstaða í þeim erindagjörðum að heimsækja fólk og fyrirtæki á Austurlandi. Morguninn eftir lá leiðin á Suðurfirðina með þeim Þorsteini Sveinssyni, fyrrverandi kaupfélagsstjóra, og Stefáni Boga, aðstoðarmanni. Við fórum um Öxi þar sem við námum staðar við minnisvarða um Hjálmar Guðmundsson, frumkvöðul að vegagerð um Öxi. Ekki vildi þar betur til en svo að ein hurðin á bílnum fauk upp með þeim ósköpum að hún skekktist svo illa að ekki var hægt að loka henni. Þannig þurfti því einn farþeginn að halda hurðinni aftur alla leið á Djúpavog þar sem góður maður rétti hana á ný.

Heimsóknin á Djúpavog var um margt eftirminnileg. Við skoðuðum gamla Faktorshúsið (gamla Kaupfélagshúsið) þar sem Þorsteinn Sveinsson bjó í um 20 ár og var kaupfélagsstjóri. Húsið er verið að gera upp í upprunalegri mynd og mun verða bæjarprýði þegar fram líða stundir. Þorsteinn fór vel yfir hvernig húsið var innanstokks þegar hann var þar í forsvari og hittum við þar smiði sem eru að vinna að endurbótum á þessum merkilegu menningarverðmætum sem Faktorshúsið er.

Því næst snæddum við hádegisverð á Hótel Framtíð með sveitarstjóranum, Birni Hafþóri Guðmundssyni, þar sem hann fór yfir helstu mál sem snerta Djúpavogshrepp. Á boðstólum var keila og var þetta í fyrsta sinn sem ég bragða á þeim fiski. Þórir Stefánsson og fjölskylda reka hótelið af miklum myndarskap og lofa ég því að enginn verður svikinn af því að gista og þiggja veitingar þar. Reksturinn er orðinn umfangsmikill enda ekki að undra. Hádegið sem við snæddum á Hótel Framtíð var allt smekkfullt í mat og nær allir ferðamenn af erlendu bergi brotnir.

Eftir matinn fór Már Karlsson, forystumaður framsóknarmanna þar í sveit, með okkur í bíltúr þar sem farið var yfir sögu staðarins. Að sjálfsögðu bar nafn Eysteins Jónssonar þar á góma og fórum við að minnisvarða um hann. Við fórum einnig meðal annars út á flugvöll þar sem sjá má stórkostlega náttúrufegurð, ekki síst þegar horft er til þorpsins. Margt annað fórum við félagarnir og var komið fram á miðjan dag þegar haldið var til Breiðdalsvíkur.

Á Breiðdalsvík hittum við fyrir Jónas Bjarka Björnsson, oddvita Breiðdalshrepp. Jónas hefur verið í forystu fyrir framsóknarmenn í sveitarfélaginu og hefur gengt því starfi með sóma. Við fórum með honum í gamla Kaupfélagshúsið ásamt Páli Baldurssyni, sveitarstjóra. Við hittum þar fyrir Björn Björgvinsson húsasmíðameistari sem hefur endurgert Kaupfélagshúsið með glæsilegum hætti. Til stendur að að gera stórmerkilega hluti á mörgum sviðum í þessu sögufræga húsi. Það verður meðal annar hýst saga Stefáns Einarssonar, prófessors í bókmenntum, sem er einn merkilegasti fræðimaður okkar Íslendinga á því sviði og lifði fjölbreytta ævi. Einnig verður í húsinu jarðfræðisetur, kennt við George Walker, og að auki verður sögu Kaupfélagsins gerð góð skil. Það er ánægjulegt að sjá hversu Breiðdælingar hafa sýnt mikinn dug í þessari uppbyggingu sem er mikilvæg varðveisla á þjóðararfleiðinni. Að þessu loknu skoðuðum við Steinasafnið í Breiðdal sem Björn Björgvinsson hefur haft veg og vanda af. Glæsilegt safn það.  

Þegar þarna var komið við sögu var degi tekið að halla og við þurftum að flýta okkar för. Við gáfum okkur þó tíma til að hitta góða vini á Fáskrúðsfirði, þau Gísla Jónatansson og Sigrúnu Guðlaugsdóttur. Þar fengum við góðar viðtökur eins og raunar alls staðar þennan dag.  Því næst brunuðum við á Reyðarfjörð að skoða mannlífið þar og álver Alcoa - Fjarðaáls. Ekki skal ég neita því að við ræddum um hversu gríðarleg jákvæð áhrif þessi framkvæmd hefur haft á stöðu mála á Mið - Austurlandi sem og á þjóðarbúið í heild.

Því miður komumst við ekki yfir allt það sem við ætluðum okkur þennan daginn. Ég á því eftir að að taka mér mun betri tíma í heimsóknum á Suðurfirðina enda af nógu að taka þar. Það bíður betri tíma.

Næst á dagskránni var Vopnafjörður en sú bloggfærsla kemur síðar.


Stopular bloggfærslur

Síðustu dagar hafa verið viðburðarríkir en heimasíðan hefur reyndar ekki borið þess merki. Trúlega verða bloggfærslurnar ekki eins margar í sumar og þegar þingið er að störfum, en eitthvað verður um bloggfærslur í sumar. 

Ég hef fjallað nokkuð um málefni SUF að undanförnu en um síðustu helgi var haldið glæsilegt þing Sambands ungra framsóknarmanna á Hótel Heklu á Skeiðum. Mjög góð mæting var á þingið sem heppnaðist í alla staði mjög vel. Nýr formaður var kjörin en þar er á ferð framtíðar stjórnmálamaður, Bryndís Gunnlaugsdóttir. Kosið var einnig í stjórn SUF og er þar góður hópur fólks sem ég trúi að muni efla starf Framsóknarflokksins á næstu árum. Meira af því síðar.

Annars hefur helginni hefur verið varið í Haganesvík í FLjótum, Skagafirði en þar er fjölskyldan að reisa sér sumarhús. Ég sagði í viðtali við eitthvert blað eitt sinn að fegursti staður landsins væru Fljótin. Ég stend við þá fullyrðingu mína. Um helgina hefur sólin skinið með tilheyrandi roða í andliti. Gærkvöldið var alíslenskt, en þá bauð amma upp á signa grásleppu í forrétt og svo hrefnusteik í aðalrétt. Er hægt að biðja um það betra?


Um ráðgjöf Hafrannsóknarstofnunar

Ég var á fundi í Sjávarútvegsnefnd þingsins í morgun. Þar kynntu fulltrúar Hafró sínar tillögur um fiskveiðar á næsta ári. Nú er það svo að sjávarútvegsráðherra hefur lokaorðið í þeim efnum en mér sýnist að mælingar Hafró gefi ekki bjarta mynd af stöðu mála. Ef farið væri algjörlega eftir tillögum Hafró þá myndu þorskveiðiheimildir lækka um 5% á milli ára (ofan á þriðjungs lækkun á þessu fiskveiðiári), ýsu lækka um 13% og ufsa lækka um 17%.

Ef þetta verður raunin þá verða stjórnvöld að bregðast við með einhverjum hætti. Hátt verð á olíu er að sliga útgerðina og ekki bætir það stöðuna ef fiskveiðiheimildir halda áfram að dragast saman. Ég á því miður ekki von á því að ríkisstjórnin muni bregðast við að einhverju marki. Ég man eftir digrum yfirlýsingum um "mestu mótvægisaðgerðir Íslandssögunnar" síðastliðið sumar. Einhverra hluta vegna hafa ráðamenn dregið úr hástemmdum yfirlýsingum um þær mótvægisaðgerðir.

Af fenginni reynslu þá verður að skoða þessi máli heildstætt. Hvað er það sem veldur þessari þróun? Erum við að meta stærð fiskistofnana rétt? Hefur brottkast aukist upp á síðkastið í ljósi himinhás verðs á þorskkvóta? Er hvalurinn að ganga á nytjastofna okkar? Þetta er bara brotabrot af þeim spurningum sem vakna við þessar ráðleggingar Hafrannsóknarstofnunar. En í ljósi þessa hef ég miklar áhyggjur af stöðu sjávarbyggðanna. Ekki er þar á bætandi.


Nýjar áherslur Morgunblaðsins

Á blogginu í gær sendi ég nýjum ritstjóra Morgunblaðsins, Ólafi Stephensen, góðar kveðjur. Ekki datt mér þá í hug að eitt af fyrstu verkum hans væri að loka ritstjórnarskrifstofu Morgunblaðsins á Austurlandi ásamt því að sérstök Austurlandssíða í Mogganum yrði aflögð. Ég tel þetta afar misráðið hjá nýjum ritstjóra.

Við höfum fylgst með mikilli uppbyggingu á mið Austurlandi á síðum Moggans á síðustu árum. Þar hefur störfum fjölgað, fólki fjölgað og mikill uppgangur sem hefur einkennt það svæði í tengslum við Kárahnjúkavirkjun og álver Alcoa Fjarðaáls á Reyðarfirði. Við höfum einnig fengið fréttir frá sunnanverðum Austfjörðum sem og af norðursvæðinu. Flestar fréttir af þessum svæðum hafa komið á Austurlandssíðu Moggans.

Það mun óhjákvæmilega leiða til síðri fréttaflutnings af Austfjörðum þegar blaðamanni Moggans er sagt upp störfum. Hin nýja ritstjórn þarf að sýna Austfirðingum fram á með hvaða hætti fréttaflutningi af svæðinu verður háttað í framtíðinni. Það er öllum fyrir bestu að slíkt liggi fyrir.

Annars fæ ég mjög góðar fréttir úr Austurglugganum sem miðlar fréttum úr fjórðungnum með ágætum hætti. Spurning hvort að áskrifendum Austurgluggans muni fjölga í framtíðinni við þessar nýju áherslur Morgunblaðsins?


Ólafur Stephensen er tekinn við

Styrmir Gunnarsson hefur nú látið af ritstjórastarfi sínu á Morgunblaðinu. Ólafur Stephensen tekur við kyndlinum og boðar breytingar efnistökum og rekstri blaðsins. Ég á von á því að mikil breyting muni eiga sér stað á Mogganum því ritstjórarnir eru náttúrulega ólíkir og hafa mismunandi afstöðu til hlutanna. Til að mynda hefur Ólafur allt aðra afstöðu til aðildar að Evrópusambandinu en forverinn og í raun er það Morgunblaðið sem hefur verið flaggskip andstöðu gagnvart aðild að ESB. Þar verður breyting á.

Það er vandasamt starf sem Ólafur hefur tekið sér fyrir hendur. Þær þjóðfélagsbreytingar sem hafa átt sér stað á örfáum árum gera áskriftarblöðum erfitt fyrir. Hægt er að lesa um allt sem skiptir máli á netinu og þannig hefur áskrifendum fækkað með þeirri þróun. Það er því mikil áskorun fyrir Ólaf að taka sér þetta verkefni á hendur sem vissulega er krefjandi. Eitt mun þó örugglega ekki breytast við ritstjóraskiptin en það eru dánartilkynningar og minningargreinar sem ég efa ekki að eru sterkasta sérkenni Morgunblaðsins í dag.

Megi Ólafi Stephensen farnast vel í því erfiða verkefni sem rekstur Morgunblaðsins er.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband