Smjörklípuaðferðin er síðasta hálmstráið

Ég spurði Árna Mathiesen fjármálaráðherra í þinginu í gær hvort hann væri sammála okkur í stjórnarandstöðunni og Kristjáni Þór Júlíussyni, varaformanni fjárlaganefndar, um að nú væri rétt að endurskoða forsendur fjárlaga ársins 2008. Svarið var einfalt. Árni hélt nú ekki, sæi enga þörf á því. Til upprifjunar þá var gert ráð fyrir í forsendum fjárlaga að verðbólgan á þessu ári yrði 3,3%. Verðbóla síðustu þrjá mánuði er upp á 28%, en fjármálaráðherranum finnst af og frá að fara í endurskoðun á forsendum fjárlaga! 

Í raun gaf ráðherrann líka í skyn í svari sínu að það væri Framsóknarflokkurinn sem bæri ábyrgð á fjárlögum ársins 2008. Það er líkt og Árni Páll Árnason þingmaður Samfylkingarinnar sagði síðastliðið haust. Þetta er kannski nýja lína stjórnarliðanna? Því nú flykkjast stjórnarliðar fram og halda svipuðum málflutningi á lofti, þ.e.a.s. að Framsókn beri höfuðábyrgð á stöðu mála. Ingibjörg Sólrún í Fréttablaðinu í dag og Ólöf Nordal þingkona Sjálfstæðisflokksins í Mogganum sínum í dag.

Það á nú varla að þurfa að rifja þetta upp en Framsóknarflokkurinn gagnrýndi harðlega óráðsíu stjórnarflokkanna við fjárlagagerðina síðasta haust, útgjaldaaukningu upp á um 20%. Það er því í besta falli hlægilegt að hlusta á stjórnarliða beita "smjörklípuaðferðinni" á Framsókn í þessu máli. Í dag krefjumst við framsóknarmenn að gripið verði til raunverulegra aðgerða til að lækka verðbólguna og stýrivextina. Ríkisstjórnin hefur ekkert fram að færa í þeim efnum. Við kölluðum eftir nýrri þjóðarsátt fyrir mörgum mánuðum, það er fyrst í dag sem Ingibjörg Sólrún tekur undir slíkar hugmyndir.

Þessi ríkisstjórn er því miður gjörsamlega ráðþrota og úrræðalaus. Það eina sem hún finnur sér til málsbóta á þessum síðustu og verstu tímum er að kenna almenningi, Íbúðalánasjóði, fyrirtækjunum og Framsóknarflokknum um hvernig komið er fyrir íslensku efnahagslífi í dag. Ég spyr, er ríkisstjórninni orðið viðbjargandi?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband