Átti ekki að fella niður stimpilgjöldin?

Í lítilli óformlegri könnun síðustu vikuna hér á blogginu, um hvaða ráðherra færi með blessuð stimpilgjöldin, fór eins og mig grunaði. Fleiri töldu að Björgvin G. Sigurðsson færi með þann málaflokk en sjálfur Árni M. Mathiesen (sem raunar fer með málaflokkinn). Félagi Björgvin hefur nefnilega verið mun duglegri að tjá sig um lækkun stimpilgjalda en samstarfsfélagi hans í ríkisstjórninni, hann Árni. Ég þykist vita að margir forystumenn Sjálfstæðisflokksins séu mátulega ánægðir með yfirlýsingar Björgvins G. Meira að segja þá stóðu sumar fréttastofur í þeirri trú að Björgvin ætlaði að mæla fyrir málinu í þinginu, svo oft hafði hann tjáð sig um málið við fjölmiðla. En þegar öllu var á botninn hvolft var það Árni M. Mathiesen sem mælti fyrir frumvarpinu sem því miður var algjörlega úr takti við digrar yfirlýsingar Björgvins.

Ég hef margoft varað við yfirlýsingagleði samfylkingarmanna í núverandi ríkisstjórn. Búið er að lofa því margoft frá kosningum að það væri handan við hornið að fella niður stimpilgjöldin. Óneytanlega hafa þær yfirlýsingar haft sín áhrif á húsnæðismarkaðinn. Og nú er komið í ljós að ekki verið að fella í heild sinni niður stimpilgjöldin, heldur aðeins að hluta. Þannig hefur ríkisstjórnin búið til falsvonir hjá tilvonandi fasteignakaupendum.

En samkvæmt öllu, þá er það greinilega Sjálfstæðisflokkurinn sem heldur aftur af því að fella stimpilgjöldin niður í heild sinni. En forsvarsmenn Samfylkingarinnar verða að læra af reynslunni og slá af gríðarlegri yfirlýsingagleði sinni. Ummæli þeirra um stimpilgjöldin, að við minnumst ekki á málefni lífeyrisþega eða húsnæðismálin, eru dæmi um þegar miklar væntingar eru gefnar út í samfélagið. Það er ábyrgðarhluti út af fyrir sig að standa ekki við þau stóru orð. En að öllu þessu slepptu er Björgvin G. Sigurðsson fínn náungi.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband