Á ferð um Norðausturkjördæmi

Síðustu tveir dagar hafa verið viðburðarríkir, enda nokkurt ferðalag að baki. Í gærmorgun lá leiðin austur á land þar sem við Stefán Bogi Sveinsson heimsóttum fólk og fyrirtæki í Fjarðabyggð. Um kvöldið héldum við svo opinn stjórnmálafund á Egilsstöðum þar sem farið var yfir landsmálin ásamt því sem Stefán Bogi var kynntur til leiks sem aðstoðarmaður þingmanns. Stefán er að flytja á Egilsstaði þar sem hann verður með aðstöðu. Fundur okkar félaga var vel sóttur, Héraðsbúar mæta alltaf vel á fundi hjá Framsóknarflokknum. Margt bar á góma á fundinum og ég er ekki frá því að við félagarnir hafi fengið nokkrar hugmyndir að fyrirspurnum og þingmálum. Að fundinum loknum datt ég inn á tónleika með KK á Hótel Héraði, frábær tónlistarmaður þar á ferð.

Í morgun lá svo leið mín norður í Reykjadal. Þar var Framhaldsskólinn á Laugum með opið hús þar sem starfsemi skólans var kynnt. Nemendur kynntu meðal annars verkefni sem þeir hafa verið að vinna að og þar bar ótrúlega margt fyrir sjónir. Greinilega mikil og metnaðarfull vinna sem þar liggur að baki. Á Laugum er nú verið að vinna stórmerkilegt starf og sú tilraun sem þar er í gangi mun að mínu mati gera skólann að brautryðjanda í því að bæta skólastarf hér á landi. Það á eitthvað mikið eftir að koma út úr þeim nýjungum sem nemendur og starfsfólk framhaldsskólans á Laugum eru nú að vinna að.

Veðrið í Reykjardalnum í dag var meiriháttar. Það var frekar sumar í lofti en vor. Ekki amalegt að eyða sumardeginum fyrsta á þessum slóðum, þar sem Jónas frá Hriflu vann þrekvirki í því að koma á fót glæsilegri menntastofnun sem hefur svo sannarlega staðist tímans tönn.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband