9.10.2007 | 16:52
Viðburðaríkur dagur í þinginu
Það var mikið líf og fjör í þinginu í dag. Ég fór upp í óundirbúnum fyrirspurnum og spurði sjávarútvegsráðherra um byggðakvótann. Það nefnilega þannig að núna er verið að veiða byggðakvóta síðasta fiskveiðiárs og reyndar er fjöldinn allur af kærumálum inni í ráðuneytinu sem á eftir að leysa úr. Ég spurði ráðherrann hvenær hann hygðist gefa út byggðakvóta fyrir yfirstandandi fiskveiðiár (sem hófst 1. september). Ég fékk náttúrulega engin svör um það þrátt fyrir ítrekaðar spurningar af minni hálfu. Ég þekki það sjónarmið innan Sjálfstæðisflokksins að byggðakvótinn sé af hinu vonda. Við framsóknarmenn höfum talið byggðakvótann öryggisventil fyrir byggðirnar sem horfa á eftir kvótanum. Því miður er umræðan um byggðakvótann mjög neikvæð þessa dagana, þar ber sjávarútvegsráðherra mikla ábyrgð. Það skyldi þó ekki vera markmiðið að leggja byggðakvótann af?
Síðan var umræða um flutningsstyrki ríkisstjórnarinnar. Félagsmálaráðherra vildi skoða þau mál betur í samráði við fleiri aðila. Þetta var gott hjá Jóhönnu. Það hlaut bara að koma að því að þessi blessaða ríkisstjórn tæki upp samráðsstjórnmálin eins og hún boðaði í vor. Ég skammaði Jóhönnu aftur á móti fyrir að lækka lánshlutfall Íbúðalánasjóðs úr 90% í 80% sem bitnar nær eingöngu á húsnæðiskaupendum á landsbyggðinni. Jóhanna gagnrýndi akkúrat fyrrverandi ríkisstjórn fyrir sama hlutinn (sagði að ráðherra ætti að skammast sín) og Magnús Stefánsson hækkaði hlutfallið aftur í 90%. En fyrsta verk Jóhönnu sem félagsmálaráðherra var að lækka hlutfallið aftur í 80%, skrítin þessi pólitík. Ég sagði Jóhönnu að hún mætti skammast sín fyrir þessa aðgerð, sérstaklega í ljósi fyrri ummæla hennar þegar hún var í stjórnarandstöðu. Hún reiddist alveg svakalega við þetta.
Síðan var umræða um þingsályktunartillögu VG um úttekt á markaðsvæðingu samfélagsþjónustu. Ég tók til máls og studdi efnislega að farið yrði í slíka úttekt, við eigum að vera óhrædd við að sjá hver reynslan er og hvert við viljum stefna. Ég benti sérstaklega á að í 6. greinar heimildum fjárlagafrumvarpsins er opin heimildargrein sem heimilar heilbrigðis- og fjármálaráðherrum Íhaldsins að einkavæða heilbrigðiskerfið. Þá heimild þarf að fella út við 2. umræðu. Ég mun a.m.k. leggja mikla áherslu á það. Því eins og sjálfstæðismenn hafa réttilega bent á að nú er hægt að ráðast í breytingar á heilbrigðiskerfinu sem Framsóknarflokkurinn hefði aldrei sæst á. Samfylkingin hefur aldeilis selt sig ódýrt. Ég er hræddur um að framundan sé einkavæðing heilbrigðiskerfisins. Samfylkingin verður ekki mikil fyrirstaða á þeirri vegferð.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 17:03 | Facebook