10.11.2007 | 19:40
Frábær miðstjórnarfundur á Akureyri
Í dag lauk haustfundi Miðstjórnar Framsóknarflokksins. Fundurinn var haldinn á Akureyri og tókst í alla staði mjög vel. Á annað hundrað framsóknarmanna var á fundinum sem einkenndist af mikilli eindrægni og samhug. Formaður flokksins, Guðni Ágústsson, flutti mjög góða setningarræðu þar sem hann fór vítt og breitt yfir stjórnmálasviðið.
Hlutverk Framsóknarflokksins í dag er mikilvægt, þó svo að flokkurinn haldi ekki lengur um stjórntauma ríkisins. Flokkurinn þarf að veita ríkulegt aðhald, nú á tímum óstöðugleika í efnahagsmálum þjóðarinnar og fleiri óvissuþátta. Flokkurinn þarf einnig að halda uppi málefnalegri umræðu um stjórnmálin og koma með nýjar áherslur inn á þann vettvang. Settir hafa verið á fót starfshópar um stefnumótun neytendamála, íbúalýðræðis og um gjaldmiðilinn okkar. Ég bind miklar vonir við stefnumörkun í þessum mikilvægu málaflokkum sem skipta okkur öll svo miklu máli.
Allt ber þetta vott um gróskumikið starf innan Framsóknarflokksins. Framundan er mikil uppbygging flokksins á sveitarstjórnarstiginu og í framhaldinu vöxtur hans á landsvísu. Að loknum þessum fundi og þeim ferska blæ sem sveif yfir vötnum er ég að vonum bjartsýnn á framtíðina.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 19:44 | Facebook