Björgvin sá að sér og er maður að meiri

Í dag var ég með fyrirspurn á viðskiptaráðherra, Björgvin G. Sigurðsson, um eldsneytisverð og flutningskostnað. Ég hef talað eindregið gegn þeirri stefnu ríkisstjórnarinnar að hækka eldsneytisverð heimila og fyrirtækja á landsbyggðinni með því að leggja af flutningsjöfnun á olíuvörum. Ég hef talað fyrir þessu innan Alþingis, á fundum vítt og breitt um land og hér á blogginu.

Viðskiptaráðherra, sem svaraði sinni fyrstu fyrirspurn í þinginu í dag, dró karlmannlega tillögu sína til baka um niðurlagningu Flutningsjöfnunarsjóðs. Staðreyndin er sú að verðmunur á eldsneyti innanlands er gríðarlegur í dag. 95 oktana bensín á Þórshöfn kostar tæpar 134 krónur á meðan að hægt er að fá samskonar bensín á Höfuðborgarsvæðinu á rúmlega 127 krónur. Við þetta er einfaldlega ekki búandi og þetta þarf að skoða sérstaklega. Í ofan álag, ef Flutningsjöfnunarsjóður hefði verið lagður af, hefði verðmunurinn trúlega farið í 9-10 krónur.

Ég spurði ráðherrann einnig um sérstakt 150 milljón króna framlag til að lækka flutningskostnað til Vestfjarða. Það er hið besta mál að lækka flutningskostnað Vestfirðinga en staðreyndin er einnig sú að mörg landssvæði búa við samskonar skilyrði og Vestfirðingar; Við fólksfækkun, tekjusamdrátt og háan flutningskostnað. Hægt er að nefna svæði sem glíma við samskonar vanda: Norðurland vestra, Norðausturland og Suðausturland svo dæmi séu nefnd. Á sumum stöðum á þessum svæðum er flutningskostnaður hærri en á Vestfjörðum. Því stenst það ekki jafnræði að íbúar á þessum svæðum njóti ekki svipaðra aðgerða af hálfu ríkisvaldsins.

Svar ráðherrans var ekki eins og gott í þessu tilviki og með Flutningsjöfnunarsjóðinn. Hann sagðist ætla skipa starfshóp sem færi yfir þetta og í framtíðinni, ótilgreint, kæmi til greina að lækka flutningskostnaðinn með þeim hætti sem nú er gert á Vestfjörðum. Á Íslensku þýðir það að trúlega  munu ekki verða framlög á fjárlögum vegna þessa á næsta ári.

Það er ekki boðlegt að þessi svæði þurfi að bíða í 2-3 ár eftir því að flutningskostnaðurinn lækki. Nú þurfa sveitarstjórnarmenn á þessum landssvæðum að láta heyra í sér. Einnig spyr ég mig að því, hafandi verið í stjórnarmeirihluta, hvort stjórnarþingmenn viðkomandi kjördæma ætli að láta það ganga yfir sig að Vestfirðir einir fái fjármuni til að lækka flutningskostnað? Eru þeir grút máttlausir í þessu máli?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband