Að sitja við sama borð

Síðustu dagana hafa fjölmiðlar gert það að umtalsefni að ég hafi í góðra vina hópi farið inn á stað þar sem póker var spilaður upp á peninga og tekið í spil. Augljóst er að sumum þykir það ekki við hæfi að þingmaður setjist að slíku spilaborði og kallar það viðhorf raunar á þarfa umræðu um hvers vegna nokkrar tegundir fjárhættuspils eru leyfðar og jafnvel reknar af ríkisvaldinu á meðan aðrar eru í hlutskipti litla ljóta andarungans og hafa beðið þess lengi að fá uppreist æru.

Ég hef alla tíð verið áhugamaður um margs konar spilamennsku. Ég spila t.d. bridge af miklum móð og hef bæði orðið Íslandsmeistari í þeirri íþrótt og Norðurlandameistari með unglingalandsliði Íslands. Skemmtilegast finnst mér þó að spila við móðurömmu mína sem er á níræðisaldri og nýtir sér langa reynslu við spilaborðið með þeim meistaralega hætti að fáir standast henni snúning.

Í spilum eru peningar stundum lagðir undir. Á bingókvöldum greiða menn þátttökugjald og hinir heppnu hirða pottinn. Á bridgehátíð sem ég sótti um síðustu helgi greiddu allir þátttökugjald og þeir slyngustu fengu hluta þess í verðlaunafé. Með mér við spilaborðin voru hæstaréttardómari, seðlabankastjóri og bæjarstjóri og fjölmiðlar greindu með velþóknun frá stóru og vel heppnuðu móti. Reglulega birta fjölmiðlar fréttir af þeim sem stærsta vinninginn hljóta í happdrættum og lottó- eða lengjuleikjum landsmanna. Í nafni menntagyðjunnar og hjálparsamtaka eru spilakassavíti rekin í skúmaskotum um alla borg og á fjölmörgum netsíðum er fólki boðið að leggja fjármuni undir og freista gæfunnar í alls kyns spilum, veðmálum og happdrættum.

Lög banna ekki að spilaður sé póker upp á peninga. Það mega þingmenn, bankastjórar og móðurömmur gera hvenær sem þeim sýnist. Þess vegna datt mér ekki í hug eitt andartak að fjölmiðlum gæti þótt það misbjóða almennu velsæmi að ég spilaði póker en skemmtilegt og til fyrirmyndar að ég spilaði bridge upp á verðlaunafé.

Ég skal játa það líka að ég hef spilað á sunnudögum. Ég þori að veðja upp á sumum finnist það alls ekki við hæfi.

Ég hafði ekki hugsað mér að verða sérstakur baráttumaður fyrir réttinum til að leggja peninga undir í spilum. Sjálfsagt hefur umræðan, þótt hún hafi skapast af frekar litlu tilefni, verið upplýsandi engu að síður. Ég hef líka fengið tilefni til að hugleiða hvers vegna það sé ólöglegt að útvega aðstöðu á borð við herbergi og spilaborð fyrir áhugasama pókerspilara á meðan yfirvöld setja kíkinn fyrir blinda augað hvað varðar t.d. rekstur spilakassavítanna sem því miður leika marga sem falla í spilafíkn afar grátt.

Flestir fara létt með að spila bridge, póker, tuttuguogeinn, vist eða rommí, leggja kapal og spila matador án þess að verða spilafíklar. Flestir geta líka fengið sér rauðvín með helgarsteikinni án þess að verða alkóhólistar. Á þessu eins og öðru eru auðvitað undantekningar, sumum verður hált á svellinu og þurfa að leita sér aðstoðar, en lausnin er ekki alltumlykjandi forsjárhyggja sem bannar fjárráða einstaklingum að auka spennuna við spilaborðið með því að leggja svolítið undir. Með því er ég þó ekki að gera lítið úr þeim vanda sem spilafíkn er og vil skoða þau mál enn frekar í ljósi þeirrar umræðu sem átt hefur sér stað.

Tvískinnungurinn blasir við öllum sem horfa á þetta mál sanngjörnum augum. Ég hvet til hreinskiptinnar umræðu um hvað sé heppilegt í þessum efnum og hvernig við getum tryggt að hin ólíka spilamennska landsmanna geti setið við sama borð.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband