29.3.2008 | 16:18
Sko frænda!
Ég kem frá skíðabænum Siglufirði en verð þó seint talinn til afreksmanna á því sviði. Ég ætla ekki að voga mér að tjá mig meira um hæfileika mína þegar kemur að skíðum. En hvað um það, í gegnum tíðina hafa margir afreksmenn í þeirri íþrótt komið frá Siglufirði og því var ánægjulegt að lesa um glæsilegan árangur Sævars frænda míns. Þó svo að Sævar Birgisson, Gunnarssonar, Guðmundssonar hafi alið aldurinn á Króknum þá er hann svo lánsamur að geta einnig rakið ættir sínar til Siglufjarðar. Ég þekki vel til móður- og föðurfjölskyldna Sævars og tel mig geta vottað að hann er kominn af öndvegisfólki, Siglfirðingum og Skagfirðingum. Alveg sérlega gott fólk.
Sævar hefur á undanförnum árum verið í fremstu röð í sinni íþróttagrein. Ég sá viðtal við hann um daginn, eftir einn sigurinn, þar sem að keppnisskapið kom vel í ljós. Það kom aldrei neitt annað til greina en sigur sagði hann aðspurður. Ég þekki ágætlega til þessara eiginleika innan minnar fjölskyldu. Þar hefur keppnisskapið jafnvel gengið út fyrir skynsamleg mörk, þá er ég að tala um sjálfan mig og bridgeíþróttina. Ég á mjög erfitt með að lúta í lægra haldi á þeim vettvangi. Ég óska Sævari innilega til hamingju með þetta og er viss um að hann er hvergi hættur að ganga á skíðum.
Sævar vann gönguna | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 16:20 | Facebook