Ríkisstjórnin harðlega gagnrýnd á Alþingi í dag

Eftir harða atlögu stjórnarandstöðunnar í þinginu í dag, þar sem ríkisstjórnin var harðlega gagnrýnd fyrir sofandaháttinn í efnahagsmálum þjóðarinnar, sýndu stjórnarliðar örlítið lífsmark. Varaformaður fjárlaganefndar tók undir þá kröfu okkar framsóknarmanna að forsendur fjárlaga yrðu endurskoðaðar. Það verður væntanlega gert á næstu dögum, enda full ástæða til.

Staðreyndirnar tala sínu máli; Hæstu stýrivextir í heimi, verðbólga ekki hærri í 18 ár, hækkandi skuldir heimilanna og almenn kjararýrnun er staðreynd á Íslandi í dag. Stjórnarliðar töluðu í umræðunni í dag mikið um ábyrgð fyrirtækja og almennings á því ástandi sem nú er uppi. Ég hafna því algjörlega að atvinnulífinu og almenningi sé kennt um stöðu mála. Ég vil minna á að talsmenn atvinnulífsins bentu ríkisstjórninni á síðastliðið haust að aðhalds væri þörf við fjárlagagerðina. Reyndar gerðu það nær allir málsmetandi aðilar innanlands sem utan. Það var ekkert hlustað.

Það ætti að vera öllum ljóst að ríkisstjórnarfleyið er stjórnlaust og ljóst að öll skipsáhöfnin hefur meiri áhuga á málefnum annarra þjóða en vanda íslensku þjóðarinnar. Slík eru ferðalögin hjá ráðherrunum. Og það á þessum síðustu og verstu tímum. 


mbl.is Ástæða til að fara yfir forsendur fjárlaga
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband