Fundir á Austurlandi

Fórum frá Húsavík í gærkvöldi við Guðni og Agnar Bragi, hans aðstoðarmaður, og gistum á Möðrudal á Fjöllum. Þar var okkur vel tekið og fengum m.a. tvíreykt geitakjöt sem framleitt er á staðnum, algjört lostæti. Því miður þurftum við að leggja í hann vel fyrir hádegi til að ná hádegisfundi á Neskaupsstað. Ég mun gefa mér mun betri tíma á Möðrudal næst, það er á hreinu.

Fundurinn á Neskaupsstað var góður. 20-25 manns komu saman og réðu ráðum sínum þar sem farið var vítt og breitt yfir sviðið. Í framhaldinu fórum við Guðni um Fjarðabyggð og heimsóttum fólk og fyrirtæki. Í kvöld var svo fjölmennur fundur á Egilsstöðum, 70-80 manns, þar sem farið var yfir stjórnmálin. Á síðustu tveimur dögum hafa því um 200 manns sótt fundi formanns og þingmanna kjördæmisins.

Frá þessum fundum höldum við svo til þings sem hefst í næstu viku og nokkuð ljóst að verkefnin framundan eru mörg. Fólk sem hefur mætt á þessa fundi okkar hefur nestað okkur vel fyrir þau átök sem eru framundan. Ef marka má það sem við höfum heyrt þá er ríkisstjórnin ekki í neinu jarðsambandi við almenning. Það verður þrautinni þyngri að vekja stjórnina til lífsins og koma henni í skilning um að aðgerða er þörf á mörgum sviðum samfélagsins. En meira um það síðar hér á þessum vettvangi.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband