Gamaldags fortíðarúrræði

Gríðarlegar hamfarir hafa átt sér stað á íslenskum fjármálamarkaði að undanförnu. Þrír öflugir bankar hafa riðað til falls í kjölfar hinnar alþjóðlegu efnahagskreppu sem nú geysar og hitti skuldsett fyrirtæki hérlendis illa fyrir. Ekki bætti  svo aðgerðarlítil ríkisstjórn úr. Þjóðarinnar bíður því það erfiða en um leið spennandi verkefni að byggja upp nýtt Ísland. Mikilvægt er að þar takist vel til og að hæfileikaríkt og framsýnt fólk úr öllum áttum komi þar að málum.

Staðan sem nú er uppi er mjög sérstök. Allir stærstu viðskiptabankarnir eru nú á forræði ríkisvaldsins. Mikil uppstokkun er framundan þar sem taka þarf erfiðar ákvarðanir um framhaldið. Fólk og fyrirtæki eiga mikið undir í þessari stöðu þar sem bankarnir munu hafa mikil ítök í formi hlutafjár og lánafyrirgreiðslu. Það er því ljóst að mikil völd munu fylgja því að stýra hinum nýju ríkisreknu bönkum. Völd um hvaða fyrirtæki lifi og hver deyi.

Horfum til framtíðar

Í umræðunni að undanförnu hafa forsvarsmenn ríkisstjórnarinnar líst því yfir að stjórnmálaflokkarnir eigi að tilnefna fulltrúa í stjórn ríkisreknu bankanna. En er það endilega hið eina rétta í stöðunni?

Við Íslendingar búum að gríðarlegum mannauði. Við eigum afar ábyrga verkalýðshreyfingu og atvinnulíf, auk öflugra lífeyrissjóða. Háskólar landsins búa jafnframt að mikilli þekkingu sem nauðsynlegt er að nýta á tímum sem þessum. Þá höfum við aðgang að fjölda sérfræðinga í hinum stóra heimi sem eru fúsir til að veita liðsinni á ögurstundu.

Því ætti Alþingi að sammælast um að ofangreindir aðilar tilnefndu fulltrúa í stjórn ríkisbankanna. Það er einfaldlega ekki kall samtímans að horfið sé aftur til þeirra tíma þegar stjórnmálaflokkarnir „áttu" fulltrúa í stjórnum ríkisbankanna. Nú eru nýir tímar og nýjar kynslóðir. Við leysum ekki vanda framtíðar með gamaldags fortíðarúrræðum.

Við þurfum að eyða þeirri tortryggni sem nú ríkir í samfélaginu. Þar á Alþingi að ganga á undan með góðu fordæmi í þessu máli, ásamt því að breyta eftirlaunalögunum umdeildu til samræmis við það sem tíðkast hjá öðru launafólki. Sé einhvern tímann þörf á því að þing og þjóð gangi í takt þá er það á tímum sem þessum.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 15. október 2008.

Höfundar hennar eru Birkir Jón og Sæunn Stefánsdóttir.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband