22.11.2008 | 11:15
Í takt við tímann
Lækkun launa æðstu embættismanna ríkisins er sjálfsagt mál í því árferði sem nú ríkir. Það er ljóst að almenningur mun þurfa að taka á sig kjaraskerðingu á næstu mánuðum og að sjálfsögðu á ekkert annað að gilda um þingmenn, ráðherra og aðra embættismenn ríkisins. Ég fagna því að tilmæli hafa verið send til kjaranefndar þess efnis. Ég sé einnig að Hermann félagi minn, bæjarfulltrúi í Fjallabyggð, bloggar um laun nefndafólks í sveitarfélaginu. Þar eru uppi hugmyndir um 10% lækkun nefndalauna. Aðhalds er þörf á öllum sviðum íslensks samfélags og ágætt að hefja þá vegferð með þessum hætti.
Hins vegar verð ég að játa að útspil ríkisstjórnarinnar er varðar umdeild eftirlaunalög er ekki í takt við tímann. Við framsóknarmenn höfum ályktað um að eftirlaun ráðherra, þingmanna og annarra embættismanna eigi að vera i samræmi við það sem gerist hjá öðru opinberu launafólki. Samfylkingin hefur líkað talað fyrir því. Hins vegar sýnist mér í fljótu bragði að ríkisstjórnarflokkarnir séu ekki að leggja það til með þeim breytingum sem boðaðar voru í gær.
Það hefur aldrei verið eins brýnt að þing og þjóð gangi í takt. Með útspili ríkisstjórnarinnar í gær var komið til móts við ákveðnar kröfur sem eru háværar í samfélaginu. Hins vegar er það skref ekki nægjanlega stórt. Ekki síst í ljósi þeirra væntinga sem ýmsir stjórnmálamenn hafa vakið með yfirlýsingum sínum á síðustu mánuðum, t.d. um eftirlaunalögin.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:17 | Facebook