20.12.2008 | 14:00
Niðurskurður gagnvart þeim sem síst skyldi
Harðar umræður hafa verið um áherslur ríkisstjórnarinnar undanfarna daga á Alþingi. Nýjasta útspil stjórnarflokkanna er skerðing á kjörum aldraðra og öryrkja. Bændur fá einnig sinn skerf, en ríkisstjórnin mun ekki standa við gerða búvörusamninga. Margt annað mætti nefna en ég ætla að láta nefndarálit mitt fylgja hér með:
Nefndarálit
um frv. til l. um ráðstafanir í ríkisfjármálum.
Frá 2. minni hluta efnahags- og skattanefndar.
Annar minni hluti vekur sérstaka athygli á því að með frumvarpi þessu er verið að skerða ýmsa grunnþjónustu, heimila nýjar gjaldtökur og sniðganga samninga. Fjallað var um málið á vettvangi efnahags- og skattanefndar auk þess sem fagnefndir Alþingis skiluðu umsögnum um þá hluta frumvarpsins sem að þeim snúa.
Í ljósi þeirrar umfjöllunar og umsagna sem fyrri liggja telur 2. minni hluti rétt að vekja athygli á að breytingar á lögum um sjúkratryggingar í X. kafla frumvarpsins muni ekki skila hagræði eða jafnræði í heilbrigðisþjónustu. Eins og frumvarpið er úr garði gert felur það í raun í sér opna heimild til ráðherra til þess að leggja á ný gjöld og hækka þau sem fyrir eru. Telja verður að með þessari nýju gjaldtöku sé stigið varasamt skref og að mögulegt sé að ná sömu markmiðum með hagræðingu og endurskipulagningu. Með frumvarpinu er gert ráð fyrir að auka kostnaðarhlutdeild sjúklinga um 360 millj. kr.
Einnig er bent á í sambandi við II. kafla frumvarpsins, um breytingu á lögum nr. 99/1993, um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum, með síðari breytingum, að mikilvægt sé að líta til hagsmuna bænda og sú ráðstöfun að ganga inn í gildandi búvörusamninga með þessum hætti sé til þess fallin að auka enn frekar vanda íslensks landbúnaðar sem var þó nægur fyrir. Auk þess er vakin athygli á þeim sjónarmiðum sem fram hafa komið um lögfræðilega vankanta sem á ráðstöfuninni kunna að vera og lúta að því að hér sé í raun um klárt samningsrof að ræða og eðli samninganna sé þannig að ákvæðum þeirra verði ekki breytt nema báðir aðilar séu því samþykkir. Íslenskir bændur hafa ekki verið taldir hálaunastétt hingað til, heldur er hér um skulduga atvinnugrein að ræða sem þolir á engan hátt 800 millj. kr. skerðingu á gerðum samningum við ríkisvaldið. Ljóst er að þessi aðgerð mun vafalaust leiða til hærra matvælaverðs sem mun síðar leiða til hærri verðbólgu.
Með breytingum á lögum um málefni aldraðra, sbr. IV. kafla frumvarpsins, og breytingu á lögum um fæðingar- og foreldraorlof verður veruleg skerðing lögð á herðar eldri borgurum, öryrkja og nýbakaðra foreldra. Ekki liggja fyrir í frumvarpi þessu fullnægjandi forsendur varðandi útreikninga sem liggja að baki sparnaðartillögunum til að hægt sé að leggja mat á þær. Með þessum tillögum er verið að sækja 3,9 milljarða kr. í vasa eldri borgara og öryrkja og nýbakaðir foreldrar verða af um 400 millj. kr. vegna lækkunar heildargreiðslna í fæðingarorlofi. Þær reglur sem hér eru lagðar til eru ein alvarlegasta atlaga sem gerð hefur verið að lífeyrissjóðakerfinu og gæti gengið af því dauðu. Nær ekkert samráð hefur verið haft við samtök eldri borgara, öryrkja og Alþýðusambands Íslands sem öll hafa lagst eindregið gegn þessum gjörðum ríkisstjórnarinnar. Verið er að skerða kjör þeirra sem síst skyldi með þessum aðgerðum.
Loks bendir 2. minni hluti á að breyting á lögum um sóknargjöld samkvæmt I. kafla frumvarpsins mun að öllum líkindum leiða til skertrar þjónustu sóknanna, með uppsögnum starfsmanna, frestun á viðhaldi og stöðvun nýframkvæmda. Þetta gerist samhliða því að þjónustuþörfin eykst vegna hruns bankakerfisins og áfalla sem því tengjast. Þá bendir 2. minni hluti á að frumvarpið mun leiða af sér enn meiri skerðingu til Háskóla Íslands og ekki var þar á bætandi. Ljóst er að niðurskurðaraðgerðir ríkisstjórnarflokkanna í þessu frumvarpi bitna helst á þeim sem síst skyldi og eru í algjörri mótsögn við yfirlýsingar og væntingar sem ríkisstjórnin hefur vakið frá því að hún tók til starfa.
Í ljósi þessa telur 2. minni hluti þær breytingartillögur sem fram koma í frumvarpinu óásættanlegar og leggst gegn þeim.
Alþingi, 19. des. 2008.
Birkir J. Jónsson.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook