Það mun koma að skuldadögum

Ný skoðanakönnun Gallup staðfestir þá tilfinningu mína að staða ríkisstjórnarinnar hefur verið að veikjast að undanförnu. Ríkisstjórnin er ósamstíga og ótrúverðug í mörgum málaflokkum. Þetta eru stór orð en því miður er um staðreynd að ræða.

Það eru einkum ráðherrar Samfylkingarinnar sem hafa verið með miklar yfirlýsingar um að gera eigi svo miklu betur í hinu og þessu og hafa þannig vakið miklar væntingar í samfélaginu. Það væri gott og blessað ef innistæða væri fyrir öllum þessum yfirlýsingum. En því miður er innistæðan nær engin því að um leið og samstarfsflokkurinn er spurður út í yfirlýsingar samfylkingarmanna þá er lítið um undirtektir. Enda er það yfirleitt þannig að þá hefur viðkomandi málefni ekkert verið rætt innan ríkisstjórnarinnar. Það merkir að ekkert er fast í hendi þegar kemur að innihaldslausum loforðum Samfylkingarinnar.

Það er ágæt regla í heiðarlegu samstarfi að ríkisstjórnarflokkarnir komi sér saman um niðurstöðu mála áður en vaktar eru upp óraunhæfar væntingar hjá almenningi. Því miður er það lenska hjá þessari ríkisstjórn að eiga í viðræðum á vettvangi fjölmiðlanna (minnir mikið á ríkisstjórnarárin 1991-1995). Með þessum vinnubrögðum hafa miklar væntingar myndast í þjóðfélaginu að undanförnu en því miður hefur margt verið svikið í þeim efnum (nú þegar!) og verður óhjákvæmilega svikið í framtíðinni, því engin raunveruleg niðurstaða hefur náðst á milli stjórnarflokkanna. Ríkisstjórnin mun þurfa að horfast í augu við þessa staðreynd þegar fram líða stundir. Við framsóknarmenn bíðum rólegir eftir því að þeir tímar renni upp. Það mun nefnilega koma að skuldadögum.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband