Að skreyta sig með stolnum fjöðrum

Fyrsta þingmálið mitt, þegar ég settist á þing árið 2003, var þingsályktunartillaga um stofnun framhaldsskóla við utanverðan Eyjafjörð. Eitt af síðustu verkum ríkisstjórnar Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks var staðfesting þess að framhaldsskóli muni rísa við utanverðan Eyjafjörð haustið 2009, um svipað leyti og Héðinsfjarðargöngin munu opnast.

Í framhaldi af þessari ákvörðun ríkisstjórnarinnar hafa heimamenn, Fjöllungar og Dalvíkingar, unnið mikla heimavinnu í mjög góðu samstarfi. Nú stendur ekkert í vegi fyrir því að ráðinn verði verkefnastjóri sem hafi með höndum þá uppbyggingu sem framundan er. Móta þarf námsframboð og sérstöðu skólans, taka ákvörðun um rekstrarform skólans og koma af stað byggingaframkvæmdum í Ólafsfirði þar sem höfuðstöðvar skólans verða. Verkefnastjórinn þarf að halda utan um þessa vinnu.

Uppbygging framhaldsskólans er eitt stærsta framfaraspor fyrir byggðirnar við utanverðan Eyjafjörð á síðari árum. Á erfiðum tímum í byggðaþróun þá er stofnun skólans ljós í myrkrinu og mun verða mikil lyftistöng fyrir byggðirnar. Hins vegar er broslegt að hlusta á Samfylkinguna tala um stofnun skólans sem eina af mótvægisaðgerðum núverandi ríkisstjórnar. Það er einfaldlega ósatt. Það var síðasta ríkisstjórn sem lýsti yfir að skólanum yrði komið á fót haustið 2009. Að gefa það í skyn að stofnun framhaldsskólans sé ný ákvörðun kallast að skreyta sig með stolnum fjöðrum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband