Fundur í Evrópunefnd

Það var fundað í Evrópunefndinni í morgun. Á fundinn mætti Björn Bjarnason og fór yfir hugmyndir sínar um upptöku Evru án aðildar að Evrópusambandinu. Rétt er að minnast þess að sú hugmynd er þó ekki hans, Valgerður Sverrisdóttir varpaði henni fram fyrir um tveimur árum og hlaut þá háð og spott margra sjálfstæðismanna fyrir. Fræg er setning Sigurðar Kára Kristjánssonar, lærisveins Björns, á sínum tíma: „Svona lagað dettur engum í hug nema Valgerði Sverrisdóttur“.

Framundan er ferð nefndarinnar til Brussel þar sem fengin verða m.a. svör við því hvort að þessi leið sé fær. Í raun er ekkert lagalega því til fyrirstöðu að taka upp Evru án aðildar að Evrópusambandinu en það er hins vegar spurning hvort fyrir hendi sé pólitískur vilji innan Evrópusambandsins við því. Að auki er að mínu mati tómt mál að hugsa um slíkt á meðan ríkisstjórnin hefur ekki mótað sér stefnu í þessum efnum og alveg á hreinu að það yrðu forsætis- og utanríkisráðherra sem þyrftu að reka slík erindi gagnvart forystumönnum Evrópusambandsins - sé mönnum full alvara með að láta reyna á þessa hugmynd.

Það er tími til kominn að ríkisstjórnin móti sér stefnu varðandi lausnir í gjaldmiðilsmálum þjóðarinnar og fari að vinna eftir henni. Eftir því er kallað úr samfélaginu, m.a. af hálfu verkalýðshreyfingarinnar og atvinnulífsins. Þeir pólar eru um margt samhljóma í umræðunni, af hverju geta þá pólarnir innan ríkisstjórnarinnar ekki verið það líka?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband