Gott kjördæmisþing

Um liðna helgi sótti ég kjördæmisþing Framsóknarmanna í Norðausturkjördæmi sem haldið var á Egilsstöðum. Ég vissi sannast sagna ekki við hverju ég átti að búast í sambandi við mætingu. Var hreint ekki viss um að við núverandi aðstæður í efnahagsmálum væri fólk spennt fyrir því að hittast, ræða um pólitík og gera sér glaðan dag. Að auki voru veðurguðirnir að hrella íbúa kjördæmisins.

Áhyggjur mínar reyndust ástæðulausar. Að vísu setti ófærð nokkurt strik í reikninginn og ekki komust allir sem vildu að norðan. En aðrir bættu það upp með góðri mætingu og niðurstaðan varð kraftmikið og gott þing. Ég hefði sennilega ekki þurft að hafa áhyggjur. Á Austurlandi slær hjarta Framsóknarflokksins og fylgi flokksins hefur alltaf verið mikið þar.

Þingið stóð yfir í tvo daga, sem er fyrirkomulag sem mér líkar vel. Það gefur mönnum tækifæri til að rækta bæði hina pólitísku hlið flokksstarfsins og hina félagslegu, sem er ekki síður mikilvæg. Að afloknum fundarstörfum og ræðum laugardagsins komu þingfulltrúar og aðrir góðir gestir saman í skemmtilegu kvöldverðarhófi. Í upphafi þess tilkynnti Björn Ármann Ólafsson veislustjóri og formaður KFNA að þarna yrðu engin aðkeypt skemmtiatriði og hvatti alla þá sem eitthvað skemmtilegt hefðu fram að færa að deila því með öðrum.

Skemmst er frá því að segja að veislustjóri hafði vart undan við að gefa mönnum orðið og allt kvöldið fuku gamansögur og vísur, vörpulegur formaður félags ungra framsóknarmanna í Eyjafirði söng Hörgdælabrag og Þorvaldur Jóhannsson leiddi almennan fjöldasöng af slíkum glæsibrag að ég hef varla séð annað eins. Að kvöldverði loknum var svo stefnan tekin á ball í Valaskjálf en þar var haldin bændahátíð þetta sama kvöld. Þar dönsuðu menn fram á rauða nótt.

Þrátt fyrir ævintýri næturinnar voru þingfulltrúar mættir hressir og sprækir á sunnudagsmorgni og tilbúnir að takast á við nefndastörf. Að loknu nefndastarfi var tekið til við að bera ályktanir undir fundinn. Mesta athygli hefur vakið að þar var samþykkt breyting á stjórnmálaályktun þingsins og sú krafa sett fram að þegar verði, að undangengnum sjálfsögðum undirbúningi, farið í samningaviðræður við ESB um aðild Íslands að sambandinu.

Fram að þessu hafa framsóknarmenn, og ég þar á meðal, talað fyrir leið tvöfaldrar þjóðaratkvæðagreiðslu. Ég hef flutt þingsályktunartillögu um að þessi atkvæðagreiðsla fari fram á næsta ári. Meirihluti félaga minna sem á kjördæmisþinginu voru telja hins vegar að í ljósri breyttra aðstæðna verði stjórnvöld að taka frumkvæði í málinu og hefja aðildarviðræður til þess að sjá hverju þær skila. Það er sjónarmið sem ég skil vel. Ég hef talið leið tvöfaldrar þjóðaratkvæðagreiðslu ákveðna leið til að höggva á þann hnút sem Evrópuumræðan er komin í hér á landi. En auðvitað væri æskilegast að stjórnvöld sýndu þann dug að taka ábyrgð í málinu og stíga það skref sem fólkið í landinu er farið að kalla eftir. Það er ekki líklegt að starfandi ríkisstjórn muni gera það.

Það sem stendur upp úr hjá mér eftir þetta kjördæmisþing er hvað grasrótarstarfið er öflugt í kjördæminu. Almennir flokksmenn léku aðalhlutverkið á þessu þingi og mótuðu þær ályktanir sem þar voru samþykktar. Við þingmennirnir förum þarna fyrst og fremst til að hlusta og heyra hvað umbjóðendur okkar vilja að við gerum. Svona á stjórnmálastarf að vera.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband