Tímamót á Alþingi

Það hafa verið sérstakir dagar í þinginu að undanförnu. Það má sennilega skrifa þetta sérstaka andrúmsloft á það að þingmenn eru nú að upplifa tvenn sannkölluð tímamót. Í fyrsta lagi er búið að mynda hér minnihlutastjórn í fyrsta sinn í 30 ár. Það er ekki óeðlilegt að þegar verið er að stíga ný skref í slíku samstarfi þá reyni á flokkana sem eru í samstarfinu, sem og þá sem verja stjórnina falli. Heilt yfir hefur þó samstarfið gengið vel og Framsóknarflokkurinn stendur heilshugar á bak við stjórnina. Þó að upp komi málefni þar sem flokkarnir eru ekki fyllilega sammála þá kallar það aðeins á þroskuð vinnubrögð og viðræður og samkomulag.

Ég hef verið nokkuð ánægður með frammistöðu einstakra ráðherra. Til að mynda hefur innkoma Katrínar Jakobsdóttur í menntamálaráðuneytið verið góð. Við Katrín höfum verið sammála um margt í menntamálum í gegnum tíðina, einkum þá hluti sem snúa að framfærslu námsmanna og LÍN.

En í þinginu höfum við einnig upplifað önnur tímamót en minnihlutastjórnina. Í fyrsta skipti í 18 ár er Sjálfstæðisflokkurinn ekki í meirihluta. Og þeir taka því ekki vel. Það hefur oft verið beinlínis undarlegt að fylgjast með upphlaupum þeirra í þinginu. Í síðustu viku fór Geir H. Haarde þar upp í ræðustól og sagði forsætisráðherra ekki hafa farið með rétt mál varðandi samskipti við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn. Ummæli hans voru fullkomlega afsönnuð skömmu síðar en ég hef ekki orðið var við afsökunarbeiðni frá fyrrverandi forsætisráðherra.

Staðreyndin er sú að Sjálfstæðisflokkurinn kann ekki að vera í stjórnarandstöðu og þarf því lengri tíma til að aðlagast nýjum vinnubrögðum. Ég held þeir hafi virkilega gott af því. En það kemur meira til. Sjálfstæðisflokkurinn virðist enga tilfinningu hafa fyrir því að þeir bera verulega ábyrgð á stöðu mála í efnahagslífinu. Það hefur ekki orðið vart við neina stefnubreytingu hjá Sjálfstæðisflokknum, enga viðurkenningu á ábyrgð, enga endurskoðun eða endurnýjun í raun.

Einu sinni var það vinsælt að segja að Vinstrihreyfingin grænt framboð væri óstjórntækur flokkur, Síðan þá hafa þeir myndað ríkisstjórn og hafa staðið sig betur í mörgu en fyrri ríkisstjórn, þótt raunar hafi ekki þurft mikið til. Eftir að hafa horft upp á Sjálfstæðisflokkinn í þinginu að undanförnu er ljóst að þar fer óstjórntækur flokkur. Ef Sjálfstæðisflokkurinn gerir sér enga grein fyrir þörfinni á nýrri sýn, nýjum úrræðum og nýrri stefnu fyrir Ísland, þá eiga þeir ekkert erindi í ríkisstjórn.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband