Tjónabætur

Af hverju skyldir þú sem skuldar húsnæðislán vera einn látinn bera kostnaðinn af vaxandi verðbólgu og fá þar með háar verðbætur á lánið þitt sem bætast við höfuðstólinn? Hver er ábyrgð þess sem lánaði þér fé? Lánveitandi lét þig í flestum tilfellum undirrita greiðsluáætlun jafnhliða láninu þar sem HANN setti sér þá forsendu að verðbólga yrði að hámarki 4,5%. Er þá réttlátt að ÞÚ berir einn þann kostnað að verðbólgan fór fram úr HANS forsendu?

Auðvitað er það ekki réttlátt. Lausn ríkisstjórnarinnar við þínum vanda sem skuldara er sú að bjóða þér að lengja lánstímann og færa hluta verðbóta aftur fyrir. Önnur lausn, ef þú ert kominn í þrot, er sú að skipa þér tilsjónarmann, lengja í lánum, fresta gjaldþroti og láta þig greiða allt sem þú átt aflögu í afborganir af lánunum til æviloka. Er ekki réttlátara að bæta þér upp það tjón sem þú hefur orðið fyrir með því að fella verðbæturnar niður og að lánið standi í þeirri upphæð sem það var í byrjun síðasta árs? Að sá sem veitti þér lánið taki einhverja áhættu og standi við þær forsendur sem hann setti sjálfur?

Þetta er kjarninn í tillögu framsóknarmanna. Að bæta skuldurum upp það tjón sem þeir hafa orðið fyrir af verðbólgunni sem þeir bera enga ábyrgð á. Að sá sem veitti lánið axli ábyrgð af þeirri áhættu sem lánveiting hefur í för með sér. Með þessari aðgerð er fleirum gert kleift að greiða af lánum og mun færri fara í þrot með tilheyrandi niðurlægingu og sundrungu tugþúsunda heimila. Róttækra aðgerða er þörf. Strax!

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband