Í takt við tímann

Lækkun launa æðstu embættismanna ríkisins er sjálfsagt mál í því árferði sem nú ríkir. Það er ljóst að almenningur mun þurfa að taka á sig kjaraskerðingu á næstu mánuðum og að sjálfsögðu á ekkert annað að gilda um þingmenn, ráðherra og aðra embættismenn ríkisins. Ég fagna því að tilmæli hafa verið send til kjaranefndar þess efnis. Ég sé einnig að Hermann félagi minn, bæjarfulltrúi í Fjallabyggð, bloggar um laun nefndafólks í sveitarfélaginu. Þar eru uppi hugmyndir um 10% lækkun nefndalauna. Aðhalds er þörf á öllum sviðum íslensks samfélags og ágætt að hefja þá vegferð með þessum hætti.

Hins vegar verð ég að játa að útspil ríkisstjórnarinnar er varðar umdeild eftirlaunalög er ekki í takt við tímann. Við framsóknarmenn höfum ályktað um að eftirlaun ráðherra, þingmanna og annarra embættismanna eigi að vera i samræmi við það sem gerist hjá öðru opinberu launafólki. Samfylkingin hefur líkað talað fyrir því. Hins vegar sýnist mér í fljótu bragði að ríkisstjórnarflokkarnir séu ekki að leggja það til með þeim breytingum sem boðaðar voru í gær.

Það hefur aldrei verið eins brýnt að þing og þjóð gangi í takt. Með útspili ríkisstjórnarinnar í gær var komið til móts við ákveðnar kröfur sem eru háværar í samfélaginu. Hins vegar er það skref ekki nægjanlega stórt. Ekki síst í ljósi þeirra væntinga sem ýmsir stjórnmálamenn hafa vakið með yfirlýsingum sínum á síðustu mánuðum, t.d. um eftirlaunalögin.


Nú er mælirinn fullur!

Það verður að viðurkennast að þetta samstarf gengur ekki upp. Það hljóta allir að sjá. Ríkisstjórnin hefur enga stjórn á framvindu mála og talar út og suður. Hefur reyndar gert það frá fyrsta degi. Stjórnmálin þurfa endurnýjun og umboð frá kjósendum nýja Íslands.

Þessi tillaga hlýtur að verða samþykkt í ljósi yfirlýsinga ráðherra Samfylkingarinnar, þingmanna þess flokks og fjölmargra Samfylkingarfélaga vítt og breytt um landið. Eða meinar Samfylkingin ekkert með sínum málflutningi? Lýðskrum?


mbl.is Vantrauststillaga komin fram
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er Guðfinna Bjarnadóttir gengin í Samfylkinguna?

Ég veit að það er róstursamt innan Sjálfstæðisflokksins. En getur það verið satt að Guðfinna Bjarnadóttir sé gengin í Samfylkinguna? Held reynar að þarna sé um meinlega villu Morgunblaðsins að ræða.

"Guðfinna Bjarnadóttir, þingmaður Samfylkingar, sagði að á fundi utanríkismálanefndar þingsins í morgun hefði verið rætt um yfirlýsingu íslenskra stjórnvalda vegna fyrirgreiðslu hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum. Á fundinum hefði komið fram, að bankamálin væru komin í ágætan farveg".


mbl.is Rétt að skoða aðkomu útlendinga að bönkunum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stærsta áskorun stjórnvalda


ÞAÐ eru erfiðir tímar á Íslandi í dag. Margar fjölskyldur eiga um sárt að binda vegna hækkunar á lánum og yfirvofandi atvinnuleysis annarrar eða beggja fyrirvinna heimilisins. Við slíkar aðstæður er eðlilegt að fólk reiðist og krefjist þess að stjórnmálamenn axli ábyrgð. Raunar er það að vissu leyti merkilegt að ekki skuli bera meira á þessari kröfu en raun ber vitni því skoðanakannanir benda ekki til þess að stjórnarflokkarnir séu á neinni leið með að missa meirihlutastuðning sinn á meðal þjóðarinnar.

Það að jafnstór hluti þjóðarinnar og raun ber vitni setji enn traust sitt á ríkisstjórnina leggur henni mikið á herðar. Þetta fólk og þjóðin öll hlýtur að krefjast þess að stjórnin taki á málum af festu og ábyrgð. Því miður hefur nokkuð skort á það fram að þessu. Viðbrögð ríkisstjórnarinnar hafa verið fálmkennd og hægfara. Yfirlýsingar ráðamanna og bankastjóra Seðlabankans hafa heldur ekki allar verið til þess fallnar að endurvekja traust á íslenskum efnahag og fjármálakerfi. En þrátt fyrir þau mistök sem hafa verið gerð fara ríkisstjórnarflokkarnir enn með lýðræðislegt umboð til að stjórna landinu og gera verður kröfu til þess að þeir horfi til framtíðar við lausnir vandamála dagsins í dag.

 

Nýtum náttúruna skynsamlega

Þrátt fyrir grafalvarlega stöðu mála vil ég leyfa mér að taka undir með þeim sem hafa sagt að íslenska þjóðin sé langt því frá komin að fótum fram. Við erum samkvæmt öllum mælikvörðum rík þjóð og fyrir okkur liggja mörg tækifæri. Í fyrsta lagi eigum við mikið af náttúruauðlindum sem geta skapað okkur mikil verðmæti. Rétt er að leggja mikla áherslu á áframhaldandi skynsamlega og eðlilega nýtingu þessara auðlinda. Auðvitað verður að fara að öllum þeim leikreglum sem settar hafa verið til að tryggja að þessi nýting sé í eins góðri sátt við náttúruna og mögulegt er. Mikið af þessum leikreglum er til komið vegna þess frumkvæðis sem framsóknarmenn hafa tekið í umhverfismálum. Stofnun Umhverfisráðuneytisins var að undirlagi Steingríms Hermannssonar þáverandi forsætisráðherra. Framsóknarmenn hafa farið með þetta ráðuneyti fleiri ár en nokkur annar stjórnmálaflokkur undanfarin ár og þar hafa mótast þær reglur sem fylgt er í dag. Þrátt fyrir alvarlega stöðu í efnahagslífinu má ekki ganga svo langt að kasta öllum málsmeðferðarreglum fyrir róða.

 

Mannauðurinn er okkar dýrmætasta auðlind

Enn mikilvægari er svo sá mannauður sem hér er að finna. Öfugt við náttúruauðlindirnar er raunveruleg hætta á því við núverandi aðstæður að við missum þessa auðlind úr landi. Ef hinu hæfileikaríka og vel menntaða fólki sem við eigum verða ekki sköpuð skilyrði til að lifa, starfa og sjá fjölskyldu farborða, mun það leita á önnur mið.

Atgervisflótti úr landi er stærsta ógn sem þjóðin stendur frammi fyrir í dag og það er stærsta áskorun stjórnvalda að koma í veg fyrir að hún verði að sorglegum veruleika. Fólkið í landinu kallar eftir því að ríkisstjórnin komi almenningi til hjálpar. Finna þarf leiðir til að létta byrðar skuldsettra heimila sem bera nú skuldir frá tímum góðæris inn í erfiða tíma. Halda þarf hjólum atvinnulífsins gangandi og leggja þarf sérstaka áherslu á stuðning við sprotafyrirtæki og nýsköpun. Ljóst er að atvinnuleysi er framundan, ekki síst hjá ungu fólki. Ég vil því skoða sérstaklega hvort lækka eigi aldursviðmið við töku lífeyris og rýma þannig fyrir gagnvart yngra fólki á vinnumarkaðnum. Það mætti hugsa sér að taka lífeyris hæfist við 65 ára aldur. Allt þetta þarf ríkið að gera og þetta mun kosta fé. En því fé væri sannarlega vel varið. Unga fólkið og fjölskyldurnar í landinu eiga skilið að ríkisstjórnin sýni dug og þor í að takast á við vandann. Ef ekki þá hlýtur fylgi við stjórnarflokkana að fara minnkandi.


Framhaldsskólinn verður ekki sleginn af!

Fréttir síðustu viku um frestun á undirskrift stofnunar framhaldsskóla við utanverðan Eyjafjörð voru íbúum þar gríðarlegt áfall. Áralöng barátta íbúa við utanverðan Eyjafjörð fyrir stofnun skólans er að baki þegar minnst var á frestun hugðu margir sem svo að nú væri búið að slá stofnun skólans alveg út af borðinu. Sjálfur lét ég þung orð falla í umræðunni enda mjög óskynsamlegt í ljósi allra aðstæðna að bregðast við með þessum hætti.

Síðastliðinn miðvikudag áttum við forsvarsmenn Fjallabyggðar ásamt bæjarstjóra Dalvíkur, Svanfríði Jónasdóttur, góðan og hreinskiptinn fund með menntamálaráðherra vegna þessa máls. Til að gera langa sögu stutta þá var niðurstaða fundarins að í framhaldinu yrði skipuð skólanefnd og bygginganefnd um skólann. Jafnframt var samþykkt að allra leiða yrði leitað til að kennsla geti hafist við skólann haustið 2009. Allir stóðu upp af þessum fundi staðráðnir í því að klára hafið verk.

Samstarf Fjallabyggðar og Dalvíkinga í þessu mikilvæga máli hefur skipt sköpum og vil ég láta þess getið að ég met það svo að stuðningur Svanfríðar Jónasdóttur og þeirra Dalvíkinga hefur skipt miklu máli til að þoka málum áleiðis á síðustu dögum. Þetta sýnir okkur fram á hvað samtakamátturinn og samvinnan skipta miklu máli því með þessum hætti er hægt að vinna að stórum málum og ná árangri. Ég hef reyndar lengi haft trú á því að samstarf þessara sveitarfélaga á fleiri sviðum yrði byggðarlögunum og fólkinu til farsældar.

Ég er sannfærður um að við munum sjá metnaðarfullt skólastarf á framhaldsskólastigi við utanverðan Eyjafjörð í framtíðinni. Hér er um stærsta hagsmunamál byggðanna að ræða og ég er ekki í vafa að nemendur og kennarar muni flykkjast í nýjan skóla sem verður með meginstarfsemi og höfuðstöðvar sínar í Ólafsfirði.


Gott kjördæmisþing

Um liðna helgi sótti ég kjördæmisþing Framsóknarmanna í Norðausturkjördæmi sem haldið var á Egilsstöðum. Ég vissi sannast sagna ekki við hverju ég átti að búast í sambandi við mætingu. Var hreint ekki viss um að við núverandi aðstæður í efnahagsmálum væri fólk spennt fyrir því að hittast, ræða um pólitík og gera sér glaðan dag. Að auki voru veðurguðirnir að hrella íbúa kjördæmisins.

Áhyggjur mínar reyndust ástæðulausar. Að vísu setti ófærð nokkurt strik í reikninginn og ekki komust allir sem vildu að norðan. En aðrir bættu það upp með góðri mætingu og niðurstaðan varð kraftmikið og gott þing. Ég hefði sennilega ekki þurft að hafa áhyggjur. Á Austurlandi slær hjarta Framsóknarflokksins og fylgi flokksins hefur alltaf verið mikið þar.

Þingið stóð yfir í tvo daga, sem er fyrirkomulag sem mér líkar vel. Það gefur mönnum tækifæri til að rækta bæði hina pólitísku hlið flokksstarfsins og hina félagslegu, sem er ekki síður mikilvæg. Að afloknum fundarstörfum og ræðum laugardagsins komu þingfulltrúar og aðrir góðir gestir saman í skemmtilegu kvöldverðarhófi. Í upphafi þess tilkynnti Björn Ármann Ólafsson veislustjóri og formaður KFNA að þarna yrðu engin aðkeypt skemmtiatriði og hvatti alla þá sem eitthvað skemmtilegt hefðu fram að færa að deila því með öðrum.

Skemmst er frá því að segja að veislustjóri hafði vart undan við að gefa mönnum orðið og allt kvöldið fuku gamansögur og vísur, vörpulegur formaður félags ungra framsóknarmanna í Eyjafirði söng Hörgdælabrag og Þorvaldur Jóhannsson leiddi almennan fjöldasöng af slíkum glæsibrag að ég hef varla séð annað eins. Að kvöldverði loknum var svo stefnan tekin á ball í Valaskjálf en þar var haldin bændahátíð þetta sama kvöld. Þar dönsuðu menn fram á rauða nótt.

Þrátt fyrir ævintýri næturinnar voru þingfulltrúar mættir hressir og sprækir á sunnudagsmorgni og tilbúnir að takast á við nefndastörf. Að loknu nefndastarfi var tekið til við að bera ályktanir undir fundinn. Mesta athygli hefur vakið að þar var samþykkt breyting á stjórnmálaályktun þingsins og sú krafa sett fram að þegar verði, að undangengnum sjálfsögðum undirbúningi, farið í samningaviðræður við ESB um aðild Íslands að sambandinu.

Fram að þessu hafa framsóknarmenn, og ég þar á meðal, talað fyrir leið tvöfaldrar þjóðaratkvæðagreiðslu. Ég hef flutt þingsályktunartillögu um að þessi atkvæðagreiðsla fari fram á næsta ári. Meirihluti félaga minna sem á kjördæmisþinginu voru telja hins vegar að í ljósri breyttra aðstæðna verði stjórnvöld að taka frumkvæði í málinu og hefja aðildarviðræður til þess að sjá hverju þær skila. Það er sjónarmið sem ég skil vel. Ég hef talið leið tvöfaldrar þjóðaratkvæðagreiðslu ákveðna leið til að höggva á þann hnút sem Evrópuumræðan er komin í hér á landi. En auðvitað væri æskilegast að stjórnvöld sýndu þann dug að taka ábyrgð í málinu og stíga það skref sem fólkið í landinu er farið að kalla eftir. Það er ekki líklegt að starfandi ríkisstjórn muni gera það.

Það sem stendur upp úr hjá mér eftir þetta kjördæmisþing er hvað grasrótarstarfið er öflugt í kjördæminu. Almennir flokksmenn léku aðalhlutverkið á þessu þingi og mótuðu þær ályktanir sem þar voru samþykktar. Við þingmennirnir förum þarna fyrst og fremst til að hlusta og heyra hvað umbjóðendur okkar vilja að við gerum. Svona á stjórnmálastarf að vera.


Sparisjóðirnir

 

Það væri sjálfsagt að bera í bakkafullan lækinn að fara að skrifa meira en gert hefur verið um þær efnahagshamfarir sem dunið hafa yfir að undanförnu.  Þær eru vitaskuld mál málanna og umræðuefni allra hvar sem maður kemur og miðað við stöðu mála þá er skiljanlegt að mönnum fallist hendur og hætti til að týna sér í svartnættinu. En á tímum eins og þessum er mikilvægt að gleyma ekki að horfa á það sem jákvætt er og vel gengur. Eitt af því sem teljast verður til jákvæðra tíðinda er gott gengi ýmissa minni innlánsstofnana, t.d. sparisjóða, sem starfa vítt og breytt um landið.

Það er ekki langt síðan það voru talin nánast algild sannindi að tími sparisjóðanna væri liðinn. Lausnarorðin voru sameining og hlutafélagavæðing og þeir sjóðir sem ætluðu sér að starfa áfram í þeirri mynd sem áður þekktist voru talin nátttröll sem óhjákvæmilega myndu steinrenna í dagrenningu alþjóðavæðingar fjármálakerfisins. Sannfæring flestra var sú að stærð væri styrkur en smæð þessara sjóða veikleiki sem gerði þá óstöðuga.

Atburðir undafarinna vikna hljóta að varpa nýju ljósi á þessi meintu sannindi. Stærstu viðskiptabankarnir hafa riðað til falls en litlir sjóðir halda sjó og vel það. Margir einstaklingar og fyrirtæki huga nú að því að færa viðskipti til þessara smærri fjármálastofnana sem reynst hafa betur í þrengingunum en risarnir.

Það er nefnilega svo með banka að stærðin skiptir ekki öllu máli. Litlir bankar og sparisjóðir verða að gera sér grein fyrir takmörkunum sínum og leitast við að breyta veikleikum sínum í styrkleika. Smæð ýmissa sparisjóða gerir það að verkum að þeir hafa ekki getað leyft sér að tefla í neina tvísýnu með sínar fjárfestingar og ávöxtun. Þeir hafa þurft að sníða sér stakk eftir vexti og hafa ekki getað tekið þátt í þeirri veislu sem staðið hefur sem hæst undanfarin ár. Viðskiptavinir þeirra þakka fyrir þetta í dag. Öryggi og lítil áhættusækni hefur verið leiðarljós þessara stofnana og það hefur nú gert meira en að vega upp ókosti smæðarinnar.

Er tími sparisjóðanna runninn upp? Ég held að það verði að varast að líta á atburði undanfarinna vikna sem fullnaðarsigur eins rekstrarforms yfir öðru, einhvern stóradóm um það hvernig haga verði bankaviðskiptum til frambúðar. Bankakerfið á Íslandi mun rísa að nýju og hér verða aftur starfræktir öflugir fjárfestingabankar sem munu keppa á alþjóðlegum vettvangi. Það verður hins vegar að læra af atburðum eins og þeim sem við höfum gengið í gegnum. Í mínum huga er einn stærsti lærdómur okkar sá að við verðum að búa sparisjóðum traust rekstrarumhverfi. Almenningur í landinu á skilið að hafa val um það hvort það vill treysta stórum bönkum eða litlum sparisjóðum í sinni heimabyggð fyrir fjármunum sínum. Stjórnvöld verða því að haga regluverki sínu þannig að það taki mið að þörfum bæði stærri og ekki síður smærri fjármálastofnana. Það ætti að verða fyrsta verk viðskiptaráðherra að huga að regluverki til að hlúa að sparisjóðunum. Þeir hafa svo sannarlega sannað gildi sitt fyrir almenning.


mbl.is Icebank verður aftur Sparisjóðabanki Íslands
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gamaldags fortíðarúrræði

Gríðarlegar hamfarir hafa átt sér stað á íslenskum fjármálamarkaði að undanförnu. Þrír öflugir bankar hafa riðað til falls í kjölfar hinnar alþjóðlegu efnahagskreppu sem nú geysar og hitti skuldsett fyrirtæki hérlendis illa fyrir. Ekki bætti  svo aðgerðarlítil ríkisstjórn úr. Þjóðarinnar bíður því það erfiða en um leið spennandi verkefni að byggja upp nýtt Ísland. Mikilvægt er að þar takist vel til og að hæfileikaríkt og framsýnt fólk úr öllum áttum komi þar að málum.

Staðan sem nú er uppi er mjög sérstök. Allir stærstu viðskiptabankarnir eru nú á forræði ríkisvaldsins. Mikil uppstokkun er framundan þar sem taka þarf erfiðar ákvarðanir um framhaldið. Fólk og fyrirtæki eiga mikið undir í þessari stöðu þar sem bankarnir munu hafa mikil ítök í formi hlutafjár og lánafyrirgreiðslu. Það er því ljóst að mikil völd munu fylgja því að stýra hinum nýju ríkisreknu bönkum. Völd um hvaða fyrirtæki lifi og hver deyi.

Horfum til framtíðar

Í umræðunni að undanförnu hafa forsvarsmenn ríkisstjórnarinnar líst því yfir að stjórnmálaflokkarnir eigi að tilnefna fulltrúa í stjórn ríkisreknu bankanna. En er það endilega hið eina rétta í stöðunni?

Við Íslendingar búum að gríðarlegum mannauði. Við eigum afar ábyrga verkalýðshreyfingu og atvinnulíf, auk öflugra lífeyrissjóða. Háskólar landsins búa jafnframt að mikilli þekkingu sem nauðsynlegt er að nýta á tímum sem þessum. Þá höfum við aðgang að fjölda sérfræðinga í hinum stóra heimi sem eru fúsir til að veita liðsinni á ögurstundu.

Því ætti Alþingi að sammælast um að ofangreindir aðilar tilnefndu fulltrúa í stjórn ríkisbankanna. Það er einfaldlega ekki kall samtímans að horfið sé aftur til þeirra tíma þegar stjórnmálaflokkarnir „áttu" fulltrúa í stjórnum ríkisbankanna. Nú eru nýir tímar og nýjar kynslóðir. Við leysum ekki vanda framtíðar með gamaldags fortíðarúrræðum.

Við þurfum að eyða þeirri tortryggni sem nú ríkir í samfélaginu. Þar á Alþingi að ganga á undan með góðu fordæmi í þessu máli, ásamt því að breyta eftirlaunalögunum umdeildu til samræmis við það sem tíðkast hjá öðru launafólki. Sé einhvern tímann þörf á því að þing og þjóð gangi í takt þá er það á tímum sem þessum.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 15. október 2008.

Höfundar hennar eru Birkir Jón og Sæunn Stefánsdóttir.


Orðspor Íslands

Við heyrum af því erlendis frá að orðspor Íslands hefur beðið hnekki vegna atburða síðustu daga. Við heyrum af miklu álagi í sendiráði okkar í London þar sem starfsmenn hafa ekki undan að svara símtölum og tölvupóstum. Álag á starfsfólk okkar í utanríkisþjónustunni, sérstaklega í Bretlandi, er því gríðarlegt. Það er nauðsynlegt að við Íslendingar skýrum betur okkar hlið mála á alþjóðavettvangi. Orðspor okkar er einfaldlega í húfi.

Íslensk stjórnvöld þurfa að huga betur að almannatengslamálum í þeirri orrahríð sem nú gengur yfir okkur. Það hefur áður verið gert t.a.m. í tengslum við hvalveiðar okkar. Það er sérstaklega mikilvægt fyrir útflutningsatvinnuvegi okkar og ferðaþjónustuna að við réttum okkar hlut í þeirri umræðu sem nú fer fram. Við eigum marga mjög hæfa sérfræðinga hér á landi á þessu sviði sem geta lagt margt gott til í erfiðri stöðu. Nú þarf starfandi utanríkisráðherra, Össur Skarphéðinsson, að kalla út þá hersveit. Við heyjum nefnilega orrustu um orðspor Íslands.


Er Sjálfstæðisflokknum einum treystandi?

Ég hef ekki tíðkað það að fjalla mikið um innanflokksmál Sjálfstæðisflokksins, enda er ég ekki þar innandyra. Þar ríkir greinilega mikil eindrægni hvort sem þar er um að ræða forystuna í Seðlabankanum eða í ríkisstjórninni. Ég get samt ekki ekki orða bundist yfir þeim ummælum sem Björn Bjarnason viðhefur á heimasíðu sinni en þar segir meðal annars um fundinn í Valhöll um helgina:  

"Í þessum umræðum lét ég þess getið, að frá barnsaldri hefði ég setið marga sögulega fundi sjálfstæðismanna, fyrst sem forvitinn áheyrandi en síðan sem virkur þátttakandi. Þessi fundur okkar nú væri meðal hinna mikilvægustu, sem efnt hefði verið til í allri sögu flokksins. Miklu skipti fyrir framtíð lands og flokks, hve mikill einhugur væri á fundinum – aðeins með sterkum Sjálfstæðisflokki og undir öruggri forystu hans gæti þjóðin komist heil frá þessum hildarleik".

Nú er það Sjálfstæðisflokkurinn, að mati Björns, sem kemur sem riddari á hvítum hesti íslenskri þjóð til bjargar. Það er nefnilega það.

Þessi makalausu ummæli opinbera sjálfsánægju forystu Sjálfstæðisflokksins í einni mestu efnahagskreppu sem hefur riðið yfir þjóðina. Ég er ekki sammála Birni Bjarnasyni um það að aðeins með sterkum Sjálfstæðisflokki sé okkur við bjargandi. Ég held að þorri almennings sé á öndverðum meiði við dómsmálaráðherrann og forystu Sjálfstæðisflokksins, hvort sem um er að ræða í Seðlabanka eða ríkisstjórn.


mbl.is Ekki gagnrýni á Davíð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband