Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
11.10.2007 | 13:22
Það á að einkavæða og einkavæða
Það var snörp umræða nú áðan í þinginu um stöðuna í raforkugeiranum. Ég hef lagt það til málanna að grundvallarþjónusta líkt og vatnsveitur, hitaveitur og fráveitur eigi að vera í samfélagslegri meirihlutaeign. Ég benti á þá stefnu sem borgarstjórnarflokkur Sjálfstæðisflokksins hefur nú markað, að selja hlutafé Hitaveitu Suðurnesja til einkaaðila. Þannig væri þá búið að einkavæða grunnþjónustuna. Ég treysti því að aðrir flokkar í borginni komi í veg fyrir það ætlunarverk.
Sigurður Kári Kristjánsson, þingmaður Sjálfstæðismanna og talsmaður flokksins í umræðunni, kom upp á eftir mér og sagði að kjörnir fulltrúar ættu ekki að standa í rekstri af þessu tagi. Sigga, vin minn, hef ég alltaf talið tilheyra frjálshyggjudeild Sjálfstæðisflokksins, líkt og nær allur borgarstjórnarflokkur Sjálfstæðisflokksins er.
Við hljótum að velta því fyrir okkur hvort að skoðanir frjálshyggjupostulanna um að það eigi að einkavæða nær alla hluti, s.s. vatnsveiturnar, fari saman við skoðanir venjulegs fólks? Ég held að margir stuðningsmenn Sjálfstæðisflokksins hljóti að hugsa sinn gang þessa dagana. Sá Sjálfstæðisflokkur sem nú blasir við kjósendum er allt annar flokkur í dag en sá flokkur sem kynntur var fyrir síðustu kosningar. Frjálshyggjudeildin er ofan á í Sjálfstæðisflokknum.
10.10.2007 | 14:01
Stúdentaráð styður frumvarp framsóknarmanna um LÍN
Ég sá eftirfarandi frétt á mbl.is nú áðan:
Stúdentaráð styður frumvarp framsóknarmanna um LÍN
Stúdentaráð Háskóla Íslands samþykkti í gær ályktun til stuðnings frumvarpi framsóknarmanna um Lánasjóð íslenskra námsmanna. Í frumvarpinu er lagt til að hluti námslána breytist í styrk. Í tilkynningu kemur fram að Stúdentaráð tekur undir hugmyndina en telur þó að það þurfi að ræða ýmis útfærsluatriði við frumvarpið. Stjórnarflokkarnir eru hvattir til að samþykkja frumvarpið og leggja í endurskoðun á lögum um LÍN, líkt og lofað var í stjórnarsáttamálanum.
Eins og ég sagði á blogginu mínu um daginn þá er hér um að ræða eitt af forgangsmálum okkar framsóknarmanna nú í upphafi þingsins. Ég vona að ég komist fljótlega að til að mæla fyrir frumvarpinu. Gott að sjá að hagsmunasamtök stúdenta í HÍ skuli vera vakandi og á verðinum fyrir bættum kjörum háskólanema, húrra fyrir því. Spurning hvort að hagsmunasamtök stúdenta í öðrum háskólum landsins fylgi á eftir?
9.10.2007 | 16:52
Viðburðaríkur dagur í þinginu
Það var mikið líf og fjör í þinginu í dag. Ég fór upp í óundirbúnum fyrirspurnum og spurði sjávarútvegsráðherra um byggðakvótann. Það nefnilega þannig að núna er verið að veiða byggðakvóta síðasta fiskveiðiárs og reyndar er fjöldinn allur af kærumálum inni í ráðuneytinu sem á eftir að leysa úr. Ég spurði ráðherrann hvenær hann hygðist gefa út byggðakvóta fyrir yfirstandandi fiskveiðiár (sem hófst 1. september). Ég fékk náttúrulega engin svör um það þrátt fyrir ítrekaðar spurningar af minni hálfu. Ég þekki það sjónarmið innan Sjálfstæðisflokksins að byggðakvótinn sé af hinu vonda. Við framsóknarmenn höfum talið byggðakvótann öryggisventil fyrir byggðirnar sem horfa á eftir kvótanum. Því miður er umræðan um byggðakvótann mjög neikvæð þessa dagana, þar ber sjávarútvegsráðherra mikla ábyrgð. Það skyldi þó ekki vera markmiðið að leggja byggðakvótann af?
Síðan var umræða um flutningsstyrki ríkisstjórnarinnar. Félagsmálaráðherra vildi skoða þau mál betur í samráði við fleiri aðila. Þetta var gott hjá Jóhönnu. Það hlaut bara að koma að því að þessi blessaða ríkisstjórn tæki upp samráðsstjórnmálin eins og hún boðaði í vor. Ég skammaði Jóhönnu aftur á móti fyrir að lækka lánshlutfall Íbúðalánasjóðs úr 90% í 80% sem bitnar nær eingöngu á húsnæðiskaupendum á landsbyggðinni. Jóhanna gagnrýndi akkúrat fyrrverandi ríkisstjórn fyrir sama hlutinn (sagði að ráðherra ætti að skammast sín) og Magnús Stefánsson hækkaði hlutfallið aftur í 90%. En fyrsta verk Jóhönnu sem félagsmálaráðherra var að lækka hlutfallið aftur í 80%, skrítin þessi pólitík. Ég sagði Jóhönnu að hún mætti skammast sín fyrir þessa aðgerð, sérstaklega í ljósi fyrri ummæla hennar þegar hún var í stjórnarandstöðu. Hún reiddist alveg svakalega við þetta.
Síðan var umræða um þingsályktunartillögu VG um úttekt á markaðsvæðingu samfélagsþjónustu. Ég tók til máls og studdi efnislega að farið yrði í slíka úttekt, við eigum að vera óhrædd við að sjá hver reynslan er og hvert við viljum stefna. Ég benti sérstaklega á að í 6. greinar heimildum fjárlagafrumvarpsins er opin heimildargrein sem heimilar heilbrigðis- og fjármálaráðherrum Íhaldsins að einkavæða heilbrigðiskerfið. Þá heimild þarf að fella út við 2. umræðu. Ég mun a.m.k. leggja mikla áherslu á það. Því eins og sjálfstæðismenn hafa réttilega bent á að nú er hægt að ráðast í breytingar á heilbrigðiskerfinu sem Framsóknarflokkurinn hefði aldrei sæst á. Samfylkingin hefur aldeilis selt sig ódýrt. Ég er hræddur um að framundan sé einkavæðing heilbrigðiskerfisins. Samfylkingin verður ekki mikil fyrirstaða á þeirri vegferð.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 17:03 | Slóð | Facebook
9.10.2007 | 12:00
Hvar er aðhald fjölmiðlanna?
Ég hef á blogginu síðustu daga fjallað nokkuð um fjárlagafrumvarp nýrrar ríkisstjórnar. Frumvarp sem mun síður en svo slá á þenslu og undirliggjandi verðbólgu sem nú einkennir samfélagið. Sú gríðarlega mikla hækkun á útgjaldahlið fjárlagafrumvarps ársins 2008 á sér vart hliðstæðu á síðari tímum. Það þarf sterk bein til að þola góða daga, stöðugleikinn er í hættu. Trúlega þarf að leita aftur fyrir þjóðarsátt til að finna 17,2% hækkun á útgjaldahlið frumvarpsins á milli ára, það ætti að vera fréttaefni út af fyrir sig.
Á síðasta kjörtímabili fór fram opin umræða um fjárlagafrumvörp þáverandi ríkisstjórnar. Fjölmiðlar voru duglegir við að veita þeirri stjórn aðhald með því að kalla eftir viðbrögðum frá greiningardeildum bankanna, úr Seðlabankanum og háskólum. Það var gagnlegt að heyra sjónarmið þeirra aðila þá og oftar en ekki voru viðbrögðin gagnrýni á einhverja þætti ríkisfjármálanna.
Nú virðist sem að fjölmiðlarnir hafi minni áhuga á því að kalla eftir viðbrögðum á þetta þenslufrumvarp. Hvernig ætli standi á því?
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 12:02 | Slóð | Facebook
8.10.2007 | 11:36
Hvað segir Ágúst Ólafur nú?
Varaformaður Samfylkingarinnar, Ágúst Ólafur Ágústsson, sló sig til riddara með reglubundnum hætti á síðasta kjörtímabili með tali um óráðsíu í utanríkisþjónustunni. Það var einnig helsti málflutningur Samfylkingarinnar þegar kom að fjárlagaumræðunni að þar ætti helst að skera niður til að mæta þeim botnlausu útgjaldatillögum sem Samfylkingin lagði þá fram.
Ágústi var meðal annars tíðrætt um að hægt væri að loka sendiráðum og nýta frekar nútíma fjarskipti í samskiptum við aðrar þjóðir. En hver er veruleikinn í dag eftir að formaður Samfylkingarinnar er orðinn utanríkisráðherra? Jú, aldrei hefur utanríkisráðuneytið þanist eins út og undir forystu Ingibjargar Sólrúnar. Hækkun á fjárlagalið ráðuneytisins á milli fjárlagafrumvarpa áranna 2007 og 2008 er 21,2%! Þetta er forgangsröðun Samfylkingarinnar.
Gert er ráð fyrir að laun muni almennt hækka um 5,5% á næsta ári. Ríkisstjórnin leggur það hins vegar til að lífeyrir eldri borgara og öryrkja munu einungis hækka um 3,3% á næsta ári! Trúlega munu kjarabætur til þessara hópa ekki einu sinni halda í verðlagsþróun. Það voru oft á tíðum mikil átök á milli flokkanna í síðustu ríkisstjórn um framlög til þessara þjóðfélagshópa. Trygginga- og félagsmálaráðherrar Framsóknarflokksins þurftu oft á tíðum að heyja mikla baráttu við fjármálaráðherra Íhaldsins vegna þessa. En Samfylkingin liggur flöt.
Staðreyndin er þessi: Framlög til utanríkisþjónustunnar hafa aldrei verið hærri en nú og nær aldrei hækkað eins mikið á milli ára og nú. Tekjur lífeyrisþega munu trúlega skerðast að raungildi á næsta ári, á tímum mesta góðæris Íslandssögunnar. Er þetta forgangsröðun nýrrar ríkisstjórnar? Er nema von að spurt sé, hvað varð um öll fögru loforðin frá því í vor?
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:39 | Slóð | Facebook
7.10.2007 | 19:26
Eftirminnilegt afmæli
Í dag var haldið upp á 50 ára afmæli Félags ungra framsóknarmanna í Keflavík. Það var ekki amalegt að eyða deginum í þeim félagsskap! 80-90 manns voru í veislunni, þar af þó nokkur hluti af þeim sem stofnuðu til félagsins á sínum tíma. Margar merkar ræður voru fluttar á þessum merku tímamótum, margar mjög eftirminnilegar.
Meðal þeirra sem tóku til máls voru Steingrímur Hermannsson, fv. formaður Framsóknarflokksins og þingmaður kjördæmisins og Jón Skaftason, fyrrverandi þingmaður Reyknesinga (og Siglfirðingur). Jón minnti á að Framsóknarflokkurinn sótti mest fylgi á þeim tímum til unga fólksins en því miður er það staðreyndin að sú varð ekki raunin í nýafstöðnum kosningum og úr því þarf að bæta.
Af mörgum góðum ræðum hélt varaþingmaður flokksins í kjördæminu, Helga Sigrún Harðardóttir, magnaða hugvekju um stöðu og hlutverk Framsóknarflokksins. Inntak ræðunnar var að aldrei hefur verið eins brýn þörf fyrir öflugan Framsóknarflokk og í dag. Þörf fyrir öflugan, frjálslyndan, hófsaman og víðsýnan miðjuflokk. Helga stimplaði sig þarna hressilega inn sem eitt helsta efni Framsóknarflokksins nú um þessar mundir og fann ég meðal gesta að "fjallræða" hennar féll í mjög góðan jarðveg, svo vægt sé til orða tekið.
Það er ekki amalegt að vera framsóknarmaður eftir hugvekjurnar og móttökurnar í Reykjanesbæ í dag. Takk fyrir mig.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 19:32 | Slóð | Facebook
6.10.2007 | 12:48
Öryggi og menntun
Ég hef lagt fram tvö mál nú í upphafi þings, 1. flutningsmaður, sem ég vona að verði afgreidd hið fyrsta.
Það fyrra er þingsályktunartillaga sem 8 aðrir þingmenn eru meðflutningsmenn að og fjallar um að björgunarþyrla Landhelgisgæslunnar verði staðsett á Akureyri. Hér er um mikilvægt öryggismál að ræða, m.a. fyrir sjómenn úti fyrir Norður- og Austurlandi. Viðbragðstími Þyrlubjörgunarsveitarinnar er misjafn í ljósi þess að allur flugfloti Landhelgisgæslunnar er staðsettur á Suðvesturhorni landsins. Það getur því munað klukkustundum á viðbragði, dýrmætar klukkustundir sem geta skipt sköpum. Þetta er náttúrulega óviðunandi og brýnt að tryggja björgunarþyrlu á Akureyri hið fyrsta sem mun m.a. stórauka öryggi sjómanna.
Það síðara er þingsályktunartillaga um að þriðjungur námslána breytist í styrk, ljúki einstaklingur háskólanámi á tilsettum tíma. Hér er lagt til að við fetum í slóðir nágrannaþjóða okkar hvað þessi mál varðar. Við eigum að líta á framlög til menntamála sem fjárfestingu, ekki sem útgjöld. Verði þetta að veruleika mun hvati til menntunar aukast. Þessi breyting mun einnig leiða til aukinnar skilvirkni í skólakerfinu þar sem fleiri munu klára sitt nám á tilsettum tíma og verða þá komnir fyrr út á vinnumarkaðinn en ella. Þessi breyting mun leiða til þess að við Íslendingar verðum áfram í Framsókn þegar kemur að áherslu á menntun.
Að sjálfsögðu mun ég flytja fleiri mál á því þingi sem nú er nýhafið, ásamt meðflutningi og beittum fyrirspurnum. Það eru skemmtilegir og spennandi tímar framundan á Alþingi!
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 12:51 | Slóð | Facebook
5.10.2007 | 11:24
Loforð og efndir samgönguráðherrans
Kristján Möller, samgöngráðherra, talaði digurbarkalega um flutningskostnað á landsbyggðinni fyrir síðustu kosningar og sagði það forgangsmál að grípa til aðgerða til að lækka flutningskostnaðinn á landsbyggðinni. Síðan ganga yfir landsbyggðina miklar hamfarir í atvinnumálum með niðurskurði þorksstofnsins. Ráðherranum gafst því kjörið tækifæri til að fylgja þessu helsta stefnumáli sínu eftir í ljósi þessara erfiðleika. En hvað gerist? Ekkert! Þvert á móti er það stefna hans og félaganna í ríkisstjórninni að leggja niður flutningsjöfnun á bensíni og olíu sem mun leiða til hækkunar verðs á eldsneyti á landsbyggðinni, og var það nógu hátt fyrir hefði maður ætlað.
Ráðherrann fékk einnig kjörið tækifæri til að fylgja eftir aðal kosningamáli sínu, en kjörorðið var: "Vaðlaheiðargöng, strax!" Ekkert hefur verið því til fyrirstöðu að setja göngin út útboðsferil en þrátt fyrir mikil fyrirheit um samgöngubætur í svokölluðum mótvægisaðgerðum þá er ekkert um Vaðlaheiðargöng þar.
Ráðherrann gerði margt til að auka fylgi Samfylkingarinnar í NA-kjördæmi sl. vor, þó var útkoma flokksins í því kjördæmi sú alversta yfir landið. Þrátt fyrir öll loforðin um ókeypis skólabækur fyrir framhaldsskólanemendur, Vaðlaheiðargöng strax og forgangsmálið um að lækka flutningskostnað! Nú hefur hins vegar komið í ljós að ráðherrann er ekki maður orða sinna, vakti væntingar fólks um framfarir, en staðreyndin er sú að um afturför er að ræða samanber hækkun á flutningskostnaði sem ríkisstjórnin er nú að beita sér fyrir.
Ég ætla ekki að rifja upp ummæli ráðherrans í aðdraganda kosninga um Grímseyjarferjumálið, ummæli hans um Einar Hermannsson og hina einlægu afsökunarbeiðni Kristjáns, sem kom 5 vikum síðar. Sú umræða á eftir að fara fram á vettvangi þingsins...
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:31 | Slóð | Facebook
4.10.2007 | 18:16
Úrræðalaus ríkisstjórn
Það var einkennilegt að tala við 1. umræðu fjárlaga ársins 2008 nú áðan, kominn í stjórnarandstöðu. Margt er gott í frumvarpinu, enda skiluðum við framsóknarmenn af okkur góðu búi.
En það er margt gagnrýnivert. Gjaldahlið fjárlagafrumvarps 2008 samanborið við frumvarp ársins 2007 er hækkun upp á 17,2%! Ætli það þurfi ekki að fara aftur fyrir þjóðarsáttina til að finna hliðstæðar hækkanir? Til tíma víxlhækkana launa og verðlags. Vonandi munu þeir tímar ekki renna upp aftur.
Um er að ræða þenslufjárlög sem munu kynda undir áframhaldandi óstöðugleika og verðbólgu. Fjármálaráðherrann telur fjárlagafrumvarpið frábært og blæs meðal annars á gagnrýni Seðlabankans, greiningardeilda og alþjóðastofnana á aðhaldsleysi ríkisstjórnarinnar í efnahagsmálum.
Ég man þá tíð er ég var formaður fjárlaganefndar að þá tók þáverandi ríkisstjórn mjög óvinsælar ákvarðanir, aðhaldsaðgerðir, til að koma böndum á verðbólguna og ná efnahagslegum stöðugleika. Það tókst, en var svo sannarlega ekki vinsælt á meðan á þeim aðgerðum stóð. Hin nýja ríkisstjórn virðist ekki hafa kjark til að ná tökum á efnahagsmálunum. Það á greinilega ekki að beita fjárlögunum sem hagstjórnartæki til að ná slaka í efnahagskerfið. Í raun er frumvarpið olía á eldinn, með ófyrirsjáanlegum afleiðingum.
Nú vantar framsóknarmenn í ríkisstjórn!
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 18:20 | Slóð | Facebook
4.10.2007 | 11:16
Þvílíkar mótvægisaðgerðir!
Ný ríkisstjórn hefur það að forgangsverkefni að leggja niður Flutningsjöfnunarsjóð. Sjóðnum er ætlað að jafna flutningskostnað á bensíni og olíu um landið. Til dæmis er bensínið á Þórshöfn 3,30 kr. ódýrara en ella og gasolían 2,20 kr. Nú er það ljóst að verð á eldsneyti á landsbyggðinni mun hækka í kjölfar þessara "mótvægisaðgerða" ríkisstjórnarinnar, þó var það allt of dýrt fyrir. Þvílík skilaboð á þessum síðustu og verstu tímum fyrir margar byggðir landsins!
Stærsti smásöluaðilinn, Bónus, má eiga það að það er flutningsjöfnun á vörum fyrirtækisins, sama verð um allt land. Ég legg til að Jóhannes í Bónus verði kallaður til og ráðleggi ríkisstjórninni í þessum efnum. Því öll viljum við að það ríki jafnræði milli íbúa landsins í þessu sem öðru.
Ég verð að viðurkenna að niðurlagning Flutningsjöfnunarsjóðs kemur mér ekki algjörlega á óvart. Íhaldið hefur á síðustu 12 árum haft uppi tilburði að koma þessum sjóði fyrir kattarnef en hefur ekki haft erindi sem erfiði. Samfylkingin hefur selt sig ódýrt og þessi ákvörðun er einungis lítill hluti af þeirri málefnalegu brunaútsölu sem fram fór á Þingvöllum síðasta vor.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 18:25 | Slóð | Facebook