Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Nú verða allir að standa saman

Það var spennuþrungið loft í þinginu í gær þar sem höfð voru snör handtök til að bregðast við aðsteðjandi efnahagsvanda. Við þingmenn stóðum í raun frammi fyrir tveimur valkostum; Að styðja frumvarpið og tryggja þannig að starfsemi bankanna héldi áfram eða þá að láta ekkert að gert og horfa þá jafnvel á banka fara í þrot með tilheyrandi afleiðingum. Það var því niðurstaða þingflokks framsóknarmanna að styðja frumvarpið en með fyrirvara við ákveðna þætti. Þó svo að þingmenn flokksins hafi tekið þessa ákvörðun er ekki þar með sagt að við séum alfarið sátt við framgöngu ríkisstjórnarinnar í málinu. Við hefðum talið eðlilegra að ríkisstjórnin hefði kallað stjórnarandstöðuna að borðinu við vinnslu frumvarpsins og freistað þess að ná þverpólitískri samstöðu um málið á fyrri stigum.  En þó stjórnin hafi ákveðið að loka að sér og vinna málið ein og sjálf, þá vildum við framsóknarmenn fara ábyrgðu leiðina og styðja við þær aðgerðir sem boðaðar hafa verið. Nú er tími til að standa saman.

Við framsóknarmenn höfum lengi varað við því að staða efnahagsmála væri grafalvarleg. Við höfum ítrekað hvatt ríkisstjórnina til aðgerða og við buðum fram þjóðarsátt á erfiðum tímum. Í gærkvöldi lögðum við áfram áherslu á samstöðu og samvinnu. Vonandi mun ríkisstjórnin taka í útrétta sáttahönd á þessum miklu ólgutímum.

Við þurfum að vinna okkur úr þeirri erfiðri stöðu sem nú er uppi og ég er sannfærður um að með samstilltu átaki þá mun það takast. Þess vegna vonast ég til að stjórnarandstöðunni verði boðið að leggja sitt af mörkum til að greiða úr málunum. Stjórnmálamenn þurfa að sýna þjóðinni fram á sinn samtakamátt því þegar allt kemur til alls að þá vilja jú allir reyna að vinna íslensku þjóðinni gagn. Nú ríður á að setja almannaheill í forgang.


mbl.is Segja aðstæður gjörbreyttar með neyðarlögum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvað er í gangi hjá ríkisstjórninni?

Í gærkvöldi sagði Geir Haarde að sérstakur aðgerðarpakki til stuðnings hagkerfisins væri ekki lengur nauðsynlegur. Á sama tíma sagði viðskiptaráðherrann að drög að aðgerðaráætlun væri langt komin. Við erum svo sem ekki óvön því að forystumenn ríkisstjórnarinnar tali út og suður en hafi einhvern tímann verið þörf á sterkri ríkisstjórn þá er það nú. Við búum því miður við veika og úrræðalausa ríkisstjórn sem fyrir löngu er fallin á prófinu.

Ég verð að viðurkenna að yfirlýsing Geirs í gærkvöldi um aðgerðarleysið kom mér verulega á óvart og augljóslega ekki í takt við raunveruleikann. Nú, morguninn eftir, segir Geir að staðan sé mjög alvarleg og heldur neyðarfundi úti um allan bæ. Það er átakanlegt að horfa upp á þessa atburðarrás. Maður er hreinlega orðlaus!


mbl.is Geir: Staðan mjög alvarleg
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sorgleg hagstjórnarmistök stjórnvalda

Það er rétt sem bent hefur verið á að aðgát skal höfð í nærveru sálar í því ástandi sem við upplifum nú. Sjálfur þekki ég til einstaklinga sem eiga mjög erfitt í ljósi ótrúlega hamfara á fjármálamörkuðum. Flestar fjölskyldur í landinu skulda húsnæðislán að við tölum ekki um fólk sem tók tilboðum bankanna um myntkörfulán. Það er því rétt að umræðan þarf að vera á hófstilltum nótum, vonandi mun þessi efnahagslægð ganga hratt yfir landið. Ég vona það.

Hins vegar er ekki hægt að líta fram hjá því að stjórnvöld hafa gert stór hagstjórnarmistök í erfiðu árferði. Megin vandi hagkerfisins er sá að það vantar gjaldeyri, það þarf að auka gjaldeyrisforða Seðlabankans. Öllum var ljóst að slíks var þörf fyrr á þessu ári enda veitti Alþingi heimild til að auka gjaldeyrisvaraforða Seðlabankans um 500 milljarða í vor. Það grátlega er að stjórnvöld hafa ekki nýtt sér nema 200 milljarða af þeirri heimild. Um miðjan maí var skuldatryggingaálag ríkisins 60-70 punktar. Í dag er álagið um 600 punktar.

Það vakna því óneitanlega upp spurningar hvers vegna sú heimild sem Alþingi veitti í vor skuli ekki hafa verið nýtt til fulls? Það er ljóst að nú verður margfalt dýrara að auka við gjaldeyrisforðann en í maí, kannski 8-10 sinnum dýrara. Með þessu eru skattgreiðendur að greiða herkostnað aðgerðarleysis ríkisstjórnarinnar í  efnahagsmálum. Við getum spurt okkur, væri sú staða sem við stöndum frammi fyrir uppi ef stjórnvöld hefðu nýtt sér þá heimild sem Alþingi veitti á vordögum?


mbl.is Taka undir tilmæli um hófstillta umræðu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sjálfstæðisflokkurinn er yfir og undir og allt um kring

Eftir hádegi verður Alþingi sett. Ekki seinna að vænna í ljósi atburða síðustu daga. Efnahagsmálin verða væntanlega í brennidepli og þá hvað ríkisstjórnin ætlar sér að gera til að koma til móts við erfiða stöðu íslenskra heimila og atvinnulífs. Það er fullreynt að aðgerðarleysi forsætisráðherra hefur skilað okkur því að staða margra heimila og fyrirtækja er mun verri en hún þyrfti annars að vera.

Ég trúi ekki öðru en að ríkisstjórnin muni hafa forgöngu um að útskýra þá ótrúlegu atburðarrás sem átti sér stað um helgina í svokölluðu Glitnismáli. Af fréttum að dæma þá munu sjálfstæðismenn vera nær einir til frásagnar því Samfylkingin virðist ekki hafa komið að ákvarðanatöku fyrr en búið var að afgreiða málið af hálfu Davíðs Oddssonar og Geirs Haarde. Það er því Sjálfstæðisflokkurinn sem er undir og yfir og allt um kring í þessu máli. Sjálfstæðisflokkurinn er kominn með óhugnanlega mikil ítök í íslenskt þjóðfélag.

Það orðið þannig með Sjálfstæðisflokkinn að hann er búinn að koma sér einstaklega vel fyrir í stjórnkerfinu. Það finnst varla sú skrifstofa orðið í stjórnarráðinu þar sem þóknanlega menn er ekki fyrir að finna. Nýlegt dæmi má nefna fádæma framkomu Björns Bjarnasonar í garð Jóhanns R. Benediktssonar, lögreglustjóra á Suðurnesjum. Þannig að allt stefnir þetta í eina átt. Hver skyldi síðan verða ráðinn forstjóri Landsvirkjunar?


Óttalaus umræða um Evrópumál

Þá er ég kominn heim frá Brussel. Evrópunefndin átti þar marga góða fundi með embættismönnum sambandsins og það var sannarlega forvitnilegt að heyra hvað þeir höfðu að segja um samstarf ESB og Íslands.

Ég hef sagt frá því opinberlega að mér þykir orðið ljóst af þessum fundum að upptaka evru án inngöngu í ESB kemur ekki til greina. Bæði virðast lagaleg ljón vera í veginum fyrir því og svo virðist einnig skorta á pólitískan vilja af hálfu ESB til slíkra samninga. Það er eins með þetta og tangódansinn. Það þarf tvo til.

Í skýrslu gjaldmiðilsnefndar Framsóknarflokksins sem kynnt var nýverið er komist að þeirri niðurstöðu að í gjaldmiðilsmálum eigum við tvo raunhæfa kosti. Halda eigin gjaldmiðli eða taka upp evru. Einhverjum fannst þetta snautleg niðurstaða en hún er þvert á móti mikilvægt skref í þá átt að móta framtíðarstefnu í efnahagsmálum Íslands. Hún skerpir á áherslum og slær út af borðinu ýmsa aðra kosti sem hafa verið í umræðunni. En það þarf að halda áfram að stíga skrefin ef niðurstaða á að nást um það hvorn kostinn á að velja.

Miðað við skýrslu gjaldmiðilsnefndarinnar og niðurstöðu fundanna sem ég sat í Brussel virðist alveg ljóst að valið stendur um inngöngu í ESB með upptöku evru, eða þá að standa utan ESB til allrar framtíðar og halda eigin gjaldmiðli.

Ég tel báðar þessar leiðir vel færar, en það er mikilvægt fyrir stöðugleika hagkerfisins og allan almenning að gengið verði óttalaust fram í því að ákveða hvora leiðina á að fara.

Það er vitað mál að Evrópumálin hafa verið öllum stjórnamálaflokkum á Íslandi erfið. Málið er í eðli sínu þverpólitískt og viðkvæmt þannig að innan flokkanna hefur borið á því að menn hafa viljað forðast umræðu um þessi mál. Ég tel hins vegar að almenningur og fyrirtækin í landinu hafi mátt bíða nógu lengi.

Það er þess vegna sem að ég, ásamt Sæunni Stefánsdóttur og Páli Magnússyni, skrifuðum þá grein sem birtist í Fréttabalaðinu í liðinni viku og er að finna hér á síðunni einnig. Þar leggjum við til, í samræmi við þá stefnu sem mótuð var á síðasta miðstjórnarfundi Framsóknarflokksins, að gengið verði til þjóðaratkvæðagreiðslu um það hvort sækja eigi um aðild að ESB. En við teljum að ekki sé hægt að draga þá atkvæðagreiðslu lengi og leggjum því til að hún fari fram á næsta ári.

Ég er því fylgjandi að allir þættir málsins verði skoðaðir af gaumgæfni og án fordóma. Ég tel að í tillögu okkar þremenninganna geti falist sátt milli þeirra sem vilja ganga í ESB og þeirra sem eru á móti því en leyni því ekki að minn vilji stendur til þess að láta á það reyna hvað út úr aðildarviðræðum getur komið. Í svona stóru máli er leið beins lýðræðis með þjóðaratkvæðagreiðslu hins vegar lausn sem allir ættu að geta sætt sig við. Meirihluti þjóðarinnar fær að móta stefnuna. Það er einnig rétt að ítreka að slík kosning ætti aðeins að snúast um það hvort ganga eigi til viðræðna. Þegar samningi yrði náð yrði hann einnig borinn undir atkvæði. Þannig gætu allir landsmenn tekið fullkomlega upplýsta ákvörðun.

Ég tel að stjórnmálamenn í öllum flokkum ættu að geta stutt tillögu um slíka þjóðaratkvæðagreiðslu, en ég hyggst leggja hana fram á komandi þingi. Núna síðast hefur Helgi Hjörvar, þingmaður Samfylkingarinnar, talað fyrir slíkri leið tvöfaldrar þjóðaratkvæðagreiðslu í Morgunblaðinu. Samband ungra framsóknarmanna hefur einnig ályktað á þessa lund og vildi að kosið yrði síðasta vor. Hvort sú þingsályktunartillaga sem ég legg fram mun njóta stuðnings meirihluta þingmanna get ég ekki sagt fyrir um. En ég mun halda áfram að fylgja þessari tillögu eftir því ég tel að hagsmunum þjóðarinnar sé best borgið með því að við göngum óttalaus fram og tökumst á við það verkefni að ákveða hvort við eigum að standa utan eða innan ESB. Ég treysti þjóðinni vel til að taka skynsamlega ákvörðun í þeim efnum.


Þjóðaratkvæðagreiðsla um aðildarviðræður fari fram vorið 2009

Miklir erfiðleikar blasa við í íslensku efnahagslífi nú um stundir og ljóst að framundan eru vandasöm viðfangsefni fyrir almenning og atvinnulífið í landinu. Lúta þau að grundvallaratriðum hvers þjóðfélags, þ.e. hvernig unnt sé að tryggja atvinnu manna, halda fyrirtækjum gangandi og viðhalda og treysta velferð og samhjálp samfélagsins.

Af þeim sökum felast brýnir hagsmunir í því að íslenska þjóðin úrskurði sjálf um það í hvaða átt hún vilji að íslenskt samfélag þróist á næstu árum og áratugum. Ekki er unnt að eyða öllu meiri tíma í vangaveltur og karp um hvað kann og kann ekki að felast í þeim valkostum sem uppi eru varðandi gjaldmiðilinn og stöðu Íslands í samfélagi þjóðanna. Fólk og fyrirtæki líða á hverjum degi fyrir aðgerðaleysi og ákvarðanatökufælni.

Þjóðin þarf að fá að kveða upp sinn dóm um skipan mála í framtíðinni og hið eina rétta er að hún geri það í sérstakri þjóðaratkvæðagreiðslu um hvort hún vilji byggja á þeirri stöðu sem við búum við í dag eða hvort hefja eigi aðildarviðræður við Evrópusambandið. Mikilvægt er að atkvæðagreiðslan verði óháð flokkspólitískum kosningum og fari því fram í síðasta lagi í maí 2009. Um svo brýnt mál er að ræða að rétt er að þingmenn þjóðarinnar sýni þá ábyrgð og þverpólitísku samstöðu að lyfta umræðunni upp úr þeim skotgrafarhernaði sem ríkt hefur liðin misseri og beiti sér fyrir því að faglegar stofnanir taki saman upplýsingar um kosti og galla aðildar sem í kjölfarið yrðu birtar þjóðinni.

Yfirgripsmikil vinna á vettvangi Framsóknarflokksins

Á miðstjórnarfundi Framsóknarflokksins síðastliðið vor kynnti formaður flokksins, Guðni Ágústsson, þá hugmynd að eina raunhæfa leiðin til að ná fram sátt í Evrópumálum væri sú að ganga til tvöfaldrar þjóðaratkvæðagreiðslu um mögulega aðild Íslands að Evrópusambandinu. Fyrri þjóðaratkvæðagreiðslan varðaði það hvort landsmenn vildu yfirhöfuð að farið yrði í aðildarviðræður við Evrópusambandið en síðari þjóðaratkvæðagreiðslan færi einungis fram ef þjóðin samþykkti að hefja slíkar viðræður og í henni yrði borinn undir þjóðina sá samningur sem yrði niðurstaða viðræðna við Evrópusambandið.

Þessi sáttaleið var samþykkt einróma á miðstjórnarfundinum. Hafa ber í huga að miðstjórn Framsóknarflokksins er ein æðsta eining flokksins og sú sem fer með umboð flokksins á milli flokksþinga og útfærir meginstefnu hans í landsmálum. Flokkurinn fylgir því heill og óskiptur þessari markverðu stefnu.

Hin skynsamlega stefna sem miðstjórn Framsóknarflokksins samþykkti síðastliðið vor er framhald af yfirvegaðri og yfirgripsmikilli vinnu sem farið hefur fram innan flokksins undanfarin ár. Framsóknarflokkurinn hefur enda tekið ábyrga afstöðu í þessum málum og sinnt viðfangsefninu af fullri alvöru til að vera búinn undir þær breytingar sem framtíðin kann að bera í skauti sér.

Segja má að stefnumörkun núverandi formanns sé rökrétt skref í framhaldi af vinnu undir formennsku forvera Guðna, þeirra Halldórs Ásgrímssonar og Jóns Sigurðssonar, en í formannstíð þeirra störfuðu tvær Evrópunefndir á vegum flokksins sem fóru rækilega í saumana á hagsmunum, stöðu og horfum í samskiptum Íslendinga við önnur Evrópulönd, auk þess að móta samningsmarkmið Íslendinga, ef til aðildarviðræðna við Evrópusambandið kæmi.

Núverandi formaður Framsóknarflokksins hefur haldið vegferðinni áfram og beitt sér fyrir skipan nefndar sem hefur á liðnum mánuðum unnið ötullega að því að greina stöðuna í gjaldmiðilsmálum þjóðarinnar og meta kosti og galla mismunandi leiða og valkosta í þeim efnum.

Niðurstaða gjaldmiðilsnefndar Framsóknarflokksins

Gjaldmiðilsnefnd Framsóknarflokksins skilaði niðurstöðu sinni í skýrsluformi síðastliðinn þriðjudag. Niðurstaða nefndarinnar er sú að Ísland standi fyrst og fremst frammi fyrir tveimur valkostum. Annaðhvort að viðhalda krónunni sem framtíðargjaldmiðli og þá með fjölbreyttari framkvæmd peningastefnunnar og stórefldum gjaldeyrisvarasjóði eða að taka upp evru sem gjaldmiðil með fullri aðild að peningamálstefnu Seðlabanka Evrópu. Síðari valkosturinn þýðir með öðrum orðum, eins og staðan er að flestra mati í dag, að upptaka evru yrði ekki fengin án aðildar að Evrópusambandinu.

Brýnt að fá úr því skorið hvar hagsmunirnir liggja

Það er skoðun greinarhöfunda að í því efnahagsástandi og alþjóðlega viðskiptaumhverfi sem Ísland býr við sé nauðsynlegt að fá hið fyrsta úr því skorið hvort íslenska þjóðin sé reiðubúin að láta hefja viðræður við Evrópusambandið með aðild Íslands í huga. Ef þjóðin verður því samþykk fæst úr því skorið í eitt skipti fyrir öll, með aðildarviðræðum, hvaða markmiðum og ávinningi Ísland gæti náð með aðild að sambandi hinna 27 fullvalda Evrópuríkja. Ef þjóðin synjar slíkum viðræðum geta stjórnvöld, aðilar vinnumarkaðarins og almenningur einhent sér í það með fullri samstöðu allra aðila að þróa íslenskt samfélag og efnahagsumhverfi áfram út frá þeirri stöðu sem við blasir.

Aðeins með þessum hætti verður unnt að fá fram lýðræðislega niðurstöðu um þann grundvöll sem þjóðin gæti myndað nauðsynlega samstöðu um til að byggja upp öflugt og framsækið samfélag til langrar framtíðar.

Birkir Jón Jónsson,

Páll Magnússon,

Sæunn Stefánsdóttir

Höfundar eru félagar í Framsóknarflokknum


Umræða á Alþingi um Íbúðalánasjóð

Ég hóf máls á stöðu Íbúðalánasjóðs á Alþingi í síðustu viku. Ég innti formann félagsmálanefndar eftir stefnu ríkisstjórnarinnar í húsnæðismálum. Það var svo sem ekki að ástæðulausu. Félagsmála- og viðskiptaráðherra Samfylkingarinnar hafa lýst sig andvíg hugmyndum forsætisráðherra um að Íbúðalánasjóði verði breytt í heildsölubanka og hafa talað fyrir því að sjóðurinn láni félagsleg og almenn lán. Standi sem sagt áfram í almennri lánastarfsemi.

Það er því eðlilegt að spyrja hver stefna ríkisstjórnarinnar sé í húsnæðismálum? Er það forsætisráðherra sem ræður þar för eða Samfylkingin? Formaður félagsmálanefndar, Guðbjartur Hannesson, kvað upp úr með það og sagði stefnu síns flokks skýra og sá flokkur færi með ráðuneyti húsnæðismála.

Ekki veit ég hvort við eigum frekar að trúa orðum Geirs Haarde eða samfylkingarfólks þegar rætt er um grundvallarmál eins og húsnæðismál. Hins vegar verður þetta fólk að fara að gera sér grein fyrir því að ríkisstjórnin þarf að fara að mynda sér stefnu í þessum málaflokki, öll óvissa er af hinu slæma. En það virðist vera regla hjá ríkisstjórninni að þar eru að minnsta kosti tvær skoðanir á öllum málum, ef ekki fleiri. Algjört stefnu- og aðgerðaleysi. Er nema von að illa gangi?


Menntamálaráðherra ætlar ekki að bæta hag námsmanna erlendis

Ég spurði varaformann Sjálfstæðisflokksins á Alþingi í gær hvort að stæði til að bæta hag námsmanna erlendis. Það þarf ekki að rekja hvernig að staða þeirra hefur breyst síðasta árið, krónan fallið um 30-40% og þannig fæst mun minna fyrir íslensku krónurnar. Einnig eru vextir í sögulegu hámarki, allt að 26% yfirdráttarvextir (maður trúir varla að hér sé verið að tala um vaxtastig í vestrænu samfélagi). Þessa gríðar háu vexti þurfa námsmenn að greiða vegna þess að námslánin eru greidd út eftir á.

Þrátt fyrir að hafa gert ráðherra grein fyrir þessari stöðu þá sagði varaformaður Sjálfstæðisflokksins að ekki stæði til að gera neitt til að koma til móts við erfiða stöðu námsmanna erlendis. Ég minni á að umræða á sér stað í samfélaginu til að bæta hag margra hópa sem hafa farið halloka. Þar hafa félagsmálaráðherra og nú síðast landbúnaðarráðherra talað fyrir hagsmunum sinna umbjóðenda. Menntamálaráðherra ætlar hins vegar ekki að bæta hag námsmanna í ljósi aðstæðna. Þvílíkt metnaðarleysi sem þessi ráðherra sýnir gagnvart hagsmunum námsmanna! Nú er mikilvægt að hagsmunasamtök stúdenta láti í sér heyra, svör ráðherra á Alþingi í gær voru ekki boðleg.


Fundur í Evrópunefnd

Það var fundað í Evrópunefndinni í morgun. Á fundinn mætti Björn Bjarnason og fór yfir hugmyndir sínar um upptöku Evru án aðildar að Evrópusambandinu. Rétt er að minnast þess að sú hugmynd er þó ekki hans, Valgerður Sverrisdóttir varpaði henni fram fyrir um tveimur árum og hlaut þá háð og spott margra sjálfstæðismanna fyrir. Fræg er setning Sigurðar Kára Kristjánssonar, lærisveins Björns, á sínum tíma: „Svona lagað dettur engum í hug nema Valgerði Sverrisdóttur“.

Framundan er ferð nefndarinnar til Brussel þar sem fengin verða m.a. svör við því hvort að þessi leið sé fær. Í raun er ekkert lagalega því til fyrirstöðu að taka upp Evru án aðildar að Evrópusambandinu en það er hins vegar spurning hvort fyrir hendi sé pólitískur vilji innan Evrópusambandsins við því. Að auki er að mínu mati tómt mál að hugsa um slíkt á meðan ríkisstjórnin hefur ekki mótað sér stefnu í þessum efnum og alveg á hreinu að það yrðu forsætis- og utanríkisráðherra sem þyrftu að reka slík erindi gagnvart forystumönnum Evrópusambandsins - sé mönnum full alvara með að láta reyna á þessa hugmynd.

Það er tími til kominn að ríkisstjórnin móti sér stefnu varðandi lausnir í gjaldmiðilsmálum þjóðarinnar og fari að vinna eftir henni. Eftir því er kallað úr samfélaginu, m.a. af hálfu verkalýðshreyfingarinnar og atvinnulífsins. Þeir pólar eru um margt samhljóma í umræðunni, af hverju geta þá pólarnir innan ríkisstjórnarinnar ekki verið það líka?


Eiga bankarnir að greiða hluta verðtryggingarinnar?

Ég spurði Björgvin G. Sigurðsson, viðskiptaráðherra, út í verðtrygginguna á Alþingi í dag. Ég fór yfir þá alvarlegu stöðu sem blasir við íslenskum heimilum - mesta verðbólga í 20 ár sem þýðir gríðarlegan útgjaldaauka fyrir skuldug heimili. Það ætti því að vera öllum til hagsbóta að verðlag sé stöðugt hér á landi, rétt eins og í þeim löndum sem við viljum bera okkur saman við.

Ein meginástæða verðbólgunnar nú er mikið gengisfall íslensku krónunnar. Við því eiga heimilin í landinu fá svör. Bankarnir hafa hins vegar keppst við að færa eigið fé sitt úr krónum í erlenda gjaldmiðla og því ekki beinlínis beðið stórtjón af gengisfallinu, nema síður sé. Nærtækt er að líta til afkomu þeirra fyrstu sex mánuði ársins en þar er hagnaður þeirra talinn í tugmilljörðum. Hins vegar þarf almenningur að herða sultarólina og streða við að greiða af lánum sínum sem bera himinháa vexti og eru auk þess verðtryggð.

Ég innti ráðherra eftir því hvort að honum hugnaðist sú hugmynd að bankarnir taki á sig hluta af greiðslu verðtryggingarinnar þannig að fyrir hendi yrðu sameiginlegir hagsmunir allra aðila til að tryggja stöðugra verðlag hér á landi.

Hafa verður í huga að í dag tekur lántakinn á sig alla áhættu vegna verðbólgu og verður einn að greiða fyrir hana. Lánveitandinn sleppur hins vegar alveg, auk þess sem staðan á lánamarkaði er þannig að lánveitandinn hefur miklu sterkari stöðu en lántakinn.

Bankarnir eru stórir - drottnandi á markaðnum. Þeir geta haft mikil áhrif á verðbólguþróunina og því er mikilvægt að þeir sýni ábyrgð í þessu efni. Í dag er staðan þannig að þeir hafa í raun bæði belti og axlabönd.

Ráðherra gaf út þá yfirlýsingu að sjálfsagt væri að fara yfir þessi mál og hugsanlega að endurskoða fyrirkomulag þessara mála hér á landi. Ég fagnaði jákvæðum undirtektum ráðherra og vonast til að hann sýni frumkvæði í þessa átt. Ef svo reynist ekki vera mun ég fylgja málinu frekar eftir á vettvangi Alþingis.

Hér er svo sem ekki um einfalt mál að ræða - síður en svo. En mér finnst einboðið að stjórnvöld ráðist í vinnu við að skoða hvort þessi leið sé framkvæmaleg. 

Ég trúi ekki öðru en að að ráðherra neytendamála skoði þessi mál til hlítar. Málið er einfaldlega of stórt til þess að því sé stungið ofan í skúffu.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband