Nú verða allir að standa saman

Það var spennuþrungið loft í þinginu í gær þar sem höfð voru snör handtök til að bregðast við aðsteðjandi efnahagsvanda. Við þingmenn stóðum í raun frammi fyrir tveimur valkostum; Að styðja frumvarpið og tryggja þannig að starfsemi bankanna héldi áfram eða þá að láta ekkert að gert og horfa þá jafnvel á banka fara í þrot með tilheyrandi afleiðingum. Það var því niðurstaða þingflokks framsóknarmanna að styðja frumvarpið en með fyrirvara við ákveðna þætti. Þó svo að þingmenn flokksins hafi tekið þessa ákvörðun er ekki þar með sagt að við séum alfarið sátt við framgöngu ríkisstjórnarinnar í málinu. Við hefðum talið eðlilegra að ríkisstjórnin hefði kallað stjórnarandstöðuna að borðinu við vinnslu frumvarpsins og freistað þess að ná þverpólitískri samstöðu um málið á fyrri stigum.  En þó stjórnin hafi ákveðið að loka að sér og vinna málið ein og sjálf, þá vildum við framsóknarmenn fara ábyrgðu leiðina og styðja við þær aðgerðir sem boðaðar hafa verið. Nú er tími til að standa saman.

Við framsóknarmenn höfum lengi varað við því að staða efnahagsmála væri grafalvarleg. Við höfum ítrekað hvatt ríkisstjórnina til aðgerða og við buðum fram þjóðarsátt á erfiðum tímum. Í gærkvöldi lögðum við áfram áherslu á samstöðu og samvinnu. Vonandi mun ríkisstjórnin taka í útrétta sáttahönd á þessum miklu ólgutímum.

Við þurfum að vinna okkur úr þeirri erfiðri stöðu sem nú er uppi og ég er sannfærður um að með samstilltu átaki þá mun það takast. Þess vegna vonast ég til að stjórnarandstöðunni verði boðið að leggja sitt af mörkum til að greiða úr málunum. Stjórnmálamenn þurfa að sýna þjóðinni fram á sinn samtakamátt því þegar allt kemur til alls að þá vilja jú allir reyna að vinna íslensku þjóðinni gagn. Nú ríður á að setja almannaheill í forgang.


mbl.is Segja aðstæður gjörbreyttar með neyðarlögum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband