Öryrkjar og eldri borgarar hlunnfarnir um 3,6 milljarða!

Ég óskaði á dögunum eftir fundi í félags- og tryggingamálanefnd Alþingis til að fara yfir hvort það væri hugsanlegt að ríkisstjórnin hefði gengið á bak fyrirheitum um að bæta hag aldraða og öryrkja í tengslum við nýgerða kjarasamninga. Fundurinn fór fram í morgun og mættu fulltrúar ASÍ, aldraðra og öryrkja á fundinn. Það var samdóma álit þessara aðila að ríkisstjórnin hefði ekki staðið við það samkomulag sem ríkisstjórn Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks gerði árið 2006.  Fyrrverandi ríkisstjórn gerði þá samkomulag við ASÍ, ÖBÍ og aldraða um viðmið bóta almannatrygginga. Ný ríkisstjórn hefur breytt þessu viðmiði sem veldur því að bætur almannatrygginga eru um 10 þúsund krónum lægri á mánuði heldur en ella hefði orðið. Þannig skerðast árleg fjárframlög til lífeyrisþega um 3,6 milljarða króna með nýrri viðmiðun samkvæmt útreikningum ASÍ.

Viðmið ríkisstjórnar Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks var meðaltal dagvinnutryggingar launafólks, sem eru hin raunverulegu lágmarkslaun í landinu. Fyrir því höfðu samningsaðilar ríkisins barist fyrir um árabil. En ný ríkisstjórnin hefur nú breytt um kúrs og miðar nú við meðaltal lægsta taxta verkafólks, sem í raun gefur ekki raunsanna mynd af tekjum á vinnumarkaði. Þessu hafa ASÍ, aldraðir og öryrkjar harðlega mótmælt ásamt okkur framsóknarmönnum. Allt er þetta gert án umræðu og samráðs við þessa hagsmunaaðila. Þetta er svo sem langt frá því að vera fyrsta málið þar sem að samráði er áfátt hjá ríkisstjórninni.

Því eru nú aldraðir og öryrkjar að dragast aftur úr öðrum þjóðfélagshópum hvað kjör varðar og að óbreyttu þá verða þessir hópar fyrir kjaraskerðingu á þessu ári. Hækkun á almannatryggingum árið 2008 er 7,3% en verðbólguhorfur eru á þann veg að sú kjarabót verður étin upp til agna og vel það.  Það grátlega er að ríkisstjórnin hefur það sem af er kjörtímabili nær ekkert hugsað um þá sem hvað verst standa í röðum aldraðra og öryrkja. Aðrir hópar í þeim röðum hafa forgang. Sú einhliða ákvörðun sem ríkisstjórnin tók, að breyta viðmiðunum við kjarasamninga, er ein versta framkvæmd sem hægt er að hugsa sér gagnvart þeim sem verst standa.

Það er því búið að rífa niður samkomulag sem aldraðir, öryrkjar og ASÍ börðust fyrir í áraraðir og þáverandi ríkisstjórn gekk að árið 2006. Hvað hefur orðið um stóru orðin fyrir síðustu kosningar um málefni aldraðra og öryrkja? Hér hefur ríkisstjórnin tekið 3,6 milljarða af þessum hópum og skreytir sig með því að boða önnur úrræði sem eru fjármögnuð að verulegu leyti af þessum "niðurskurði". Hér er greinilega verið að taka fjármuni úr einum vasa og færa yfir í hinn. Þetta er stefnubreyting sem ríkisstjórnin þarf að svara fyrir og við framsóknarmenn hörmum þessa stefnubreytingu. Þessu máli er hvergi nærri lokið og verður í framhaldinu tekið til  ítarlegrar umræðu á vettvangi Alþingis af frumkvæði Framsóknarflokksins.

Það skal viðurkennt að baráttan við Sjálfstæðiflokkinn um aukin framlög til almannatrygginga á síðustu árum bar ekki alltaf nægjanlega mikinn árangur að mínu mati. En árangur Samfylkingarinnar í þessum málaflokki verður seint talinn til mikilla afreka og gengur hreint út sagt þvert á þau miklu loforð flokksins í aðdraganda síðustu kosninga. Ég spái því að Samfylkingin fái að finna til tevatnsins í umræðunni á næstunni, líkt og Framsókn á síðasta kjörtímabili. Hvers vegna ætli Sjálfstæðisflokkurinn sé stikkfrí í umræðunni? Hann hefur jú farið með fjármálaráðuneytið í 17 ár!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband