Vandi Fjölsmiðjunnar

Frá árinu 2001 hefur Fjölsmiðjan í Kópavogi sinnt fjölbreyttum hópi ungs fólks sem á það flest sammerkt að hafa ekki fundið sig í innan skólakerfisins. Í Fjölsmiðjunni eru fjölbreyttar starfsdeildir þar sem ungt fólk stundar atvinnu við ýmsar deildir, s.s. raf-, hönnunar-, trésmíða-, tölvu- og prentdeild. Rúmlega 300 ungmenni hafa útskrifast frá Fjölsmiðjunni á tímabilinu og sýna kannanir að um 80% þess hóps fótar sig vel í lífinu í framhaldinu. Það er staðreynd að skólakerfið eins og það er í dag hentar ekki endilega öllum og því er Fjölsmiðjan mikilvægur þáttur í því að koma til móts við þarfir ungs fólks á Íslandi í dag. Fjölsmiðjan hefur orðið til þess að auka lífsgæði og möguleika rúmlega 300 einstaklinga á síðustu sjö árum. Það er út af fyrir sig ómetanlegt.

Húsnæði á undanþágu

Staðan nú er hins vegar sú að sá húsakostur sem Fjölsmiðjan býr við er með öllu óviðunandi. Um er að ræða húsnæði sem er á undanþágu vegna brunavarna og í ákveðnum vindáttum er húsið hriplekt. Ég er þess fullviss að ekkert foreldri myndi sætta sig við að senda barnið sitt í grunn- eða framhaldsskóla sem væri starfræktur við slíkar aðstæður. Þá er nærtækt að spyrja sig, eru þeir einstaklingar sem stunda sitt starfstengda nám við Fjölsmiðjuna eitthvað síðri en nemendur í grunn- eða framhaldsskólum almennt? Að sjálfsögðu er svo ekki og því er stórundarlegt að nú standi einvörðungu á ríkisstjórninni að bæta þar úr. Sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu hafa boðist til að greiða hluta af nýju húsnæði en svo mánuðum skiptir hefur ríkisstjórnin ekki gefið afdráttarlaust svar um hvort eða hvernig hún muni koma að kostnaðarþátttöku.

Ríkisstjórnin þarf að gefa svör

Ég spurði Jóhönnu Sigurðardóttur út í húsnæðismál Fjölsmiðjunnar á Alþingi fyrr á þessu ári og lýsti hún því yfir að þessi mál væru til skoðunar á vettvangi ríkisstjórnarinnar. Nú heyri ég sagt að málið standi fast í fjármálaráðuneytinu. Það er algjörlega óviðunandi að starfsfólk Fjölsmiðjunnar þurfi að bíða svo mánuðum skiptir eftir svörum frá stjórnvöldum. Ég vona innilega að ríkisstjórnin reki nú af sér slyðruorðið og leysi húsnæðisvanda Fjölsmiðjunnar í Kópavogi.

(Grein þessi birtist einnig í Fréttablaðinu í gær)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband