Hvað er að gerast í heilbrigðismálunum?

Mikið umrót á sér nú stað innan heilbrigðisgeirans. Stjórnendur stærsta vinnustaðar landsins Landspítalans voru látnir fara fyrir helgi en enginn veit ástæður þess. Allt mjög dularfullt. Ekki veit ég hvort að tímasetningin sé tilviljun, að uppsagnirnar skuli koma til framkvæmda svona rétt eftir að Alþingi er komið í páskafrí? Reyndar var krafist umræðu um heilbrigðismál og um þá stefnubreytingu sem hefur átt sér stað eftir að Framsóknarflokkurinn fór úr ríkisstjórn. Alltént, þá verða þessar ákvarðanir Guðlaugs Þórs teknar heldur betur til umræðu þegar að þing kemur saman nú um mánaðarmótin.

Einnig heyrist að um 100 hjúkrunarfræðingar hafi sagt upp vegna óánægju með vaktafyrirkomulag á spítalanum. Gríðarlegt álag er á starfsfólki spítalans og nú er galdralausnin fundin; Einkavæðing heilbrigðiskerfisins. Með þeirri stefnubreytingu Sjálfstæðisflokksins á þjónustan að batna, laun starfsfólksins að hækka, minni kostnaður fyrir hið opinbera sem og náttúrulega gróði fyrir þann aðila sem tekur þjónustuna að sér. Allt hljómar þetta vel, en er víst að þetta gangi allt saman upp? 

Landspítalinn er fjöregg þjóðarinnar sem tekur á móti öllum, allt frá vöggu til grafar. Framsóknarflokkurinn hélt utan um heilbrigðismálin í 12 ár og stefna flokksins hefur verið og er sú að standa vörð um öflugan Landspítala. Ekki voru allar ferðir til fjár þegar að fjármálaráðherrann var beðinn um að auka fjárframlög til spítalans. Enda var það ekki fjármálaráðherrann sem þurfti að sitja undir gagnrýni um fjárskort heldur heilbrigðisráðherrann. Nú eru nýir tímar upp runnir, önnur stefna er uppi á borðinu og nú er hægt að gera hluti með Samfylkingunni sem að annars ekki hefði verið hægt að gera með Framsóknarflokknum. Þannig hafa sjálfstæðismenn orðað það eftir stjórnarskiptin. Og nú er komið að því,  mér sýnist að ameríska leiðin sé ofan á.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband